20. desember 2017

Bakarísglæpir um jólin

Þau hafa ekki dregið veitingarnar frá skatti
Við sonur minn höfum fallið kylliflöt fyrir sænskri bókaseríu sem Forlagið hefur gefið út undanfarin ár eftir rithöfundinn Martin Widmark og myndskreytinn Helenu Willis. Bakarísráðgátan er fjórða bókin í æsispennandi flokki um spæjarana og vinina Maju og Lalla en þau leysa hvert glæpamálið á fætur öðru í heimabæ sínum, Víkurbæ. Um þessa seríu er ekkert nema gott að segja, þetta eru bráðfyndnar bækur og mjög hvetjandi fyrir litla lestrarhesta sem og þá sem ekki eru byrjaðir að lesa sjálfir. Letrið er stórt, myndirnar mjög skemmtilegar og efnið afar spennandi. Þá spilla ekki fyrir litrík götukort af Víkurbæ og teikningar af aðalpersónum en við flettum mikið fram og tilbaka – bæði til að athuga hvert söguhetjurnar voru að fara eða hvaðan þær voru að koma á kortinu og líka til að skoða myndir af hinum grunuðu og athuga hvort þar leyndust einhverjar vísbendingar um innra atgervi (svo var ekki).


Í Bakarísráðgátunni liggur leið þeirra Lalla og Maju í bakaríið Marsipan þar sem þrjú hrikalega rán hafa verið framin á skömmum tíma – sú spurning vaknar hvort einhver innanbúðarmaður (eða kona) í bakaríinu sé í samkrulli með ræningjanum og augljóslega þurfa Maja og Lalli að hanga töluvert í bakaríinu og fá sér bæði kanilsnúða og kökur meðan þau leysa gátuna. Þótt bækurnar séu allar sjálfstæðar koma þó sömu persónur ítrekað fyrir – auðvitað Maja og Lalli og lögreglustjórinn en hér má líka finna Sif sem vinnur í skartgripabúð Múhameðs Karat sem dyggir lesendur muna eflaust eftir úr Demantaráðgátunni sem og Oddmundi kirkjuverði sem brá fyrir bæði í Demantaráðgátunni og Hótelráðgátunni.

Martin Widmark sprækur
Helena Willis

Maja og Lalli eru auðvitað börn en taka spæjarastörf sín mjög alvarlega - hafa skrifstofu í kjallaranum hjá Maju og hafa þar safnað ýmsum ómissandi græjum sem aðrir ungir spæjarar gætu viljað eignast svo sem kíki, stækkunargler, spegla osfrv. Ólíkt flestum öðrum börnum sem leysa glæpamál (og þau eru ekki fá – nægir hér að nefna helming höfundarverks Endid Blyton og Nancy Drew) þá hlustar fullorðnafólkið yfirleitt á þau. Sjálfur lögreglustjórinn tekur mikið mark á þessum kláru krökkum og leysir jafnvel mál í samstarfi við þau.

Án þess að vilja gefa of mikið upp um söguþráð Bakarísráðgátunnar þá er ómögulegt annað en að nefna að þjófurinn er með glæp sínum að reyna að svíkja undan skatti! Hvar annars staðar en í sænskri barnabók! Þetta gleður innilega og veitti þar að auki kærkomið tækifæri til að útskýra fyrir nýorðnum sex ára hugtakið skatta og af hverju það sé svo mikilvægt fyrir samfélagið okkar að við borguðum þá öll!

Hér má sjá Múhameð Karat í öngum sínum
Hin lexían sem við drógum af bókinni var sú að við ætlum bráðum að gera okkur ferð í bakarí og smakka hvort hinir örlagaríkukökur Napóleonshattar smakkist jafn vel og þeir líta út í skemmtilegum teikningum Helenu Willis.

Bækurnar um Lalla og Maju eru orðnar 23 talsins (og hafa verið gerðir þættir og kvikmyndir eftir þeim sem væri gaman að sjá) svo við mæðginin hugsum okkur gott til glóðarinnar að lesa þær allar (vonandi í íslenskri þýðingu).

1 ummæli:

urgent loan sagði...

BUSINESS LOAN PERSONAL LOAN HERE APPLY NOW WhatsApp +918929509036 financialserviceoffer876@gmail.com Dr. James Eric