6. febrúar 2019

Þreyjum þorrann með pottaplöntum!


Það eru ekki mörg sumur (garðáhugafólk telur auðvitað árin í sumrum) síðan ég varð forfallin plöntuáhugakona. Raunverulegur áhugi kviknaði sennilega með fyrstu fjölæru plöntunni sem var gróðursett í garðinum – ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað hún gladdi mikið þegar hún stakk upp kollinum næsta vor! Fram að því hafði ég verið sú kona sem drap jafnvel kaktusa úr þurrki (eða öðru mótlæti) og skyldi engan veginn af hverju fólk gaf blóm þegar það gat gefið súkkulaði, vín eða bækur! En nú er ég sem sagt komin með græna fingur og tókst meira að segja að gleðjast (svolítið) yfir vætunni síðasta sumar því hún var svo góð fyrir gróðurinn (alla vega fram í júlí – svo fóru sumarblómin að mygla).

En hvað gerir plöntuáhugafólk yfir háveturinn þegar allt grænt er hvítt í snjónum? Jú það leggur allar gluggakistur, hillur og laus borð undir pottaplöntur. Hýasintur, Riddararósir, Aloa vera, einhver skrítin planta úr IKEA sem ekki var nafngreind á kvittun og fleiri hafa glatt augað og lyft geðinu yfir síðustu mánuði.


En verandi bókakona þá hef ég auðvitað fyrst og fremst treyst á bækur (og góða vini, takk Vigga, Esther og Þórdís) til að leiða mig inn í leyndardóma garðræktar. Ég á nokkrar fínar erlendar bækur – en vandinn við þær er tvíþættur – annars vegar eru aðstæður hér á Íslandi auðvitað allt öðruvísi til ræktunar en annars staðar – og hins vegar getur verið flókið að átta sig á íslensku heitum þeirra plantna sem um er rætt og því erfitt að nálgast þær. Það er því alltaf gleðiefni ef eitthvað finnst á því ástkæra ylhýra.

Alfræðiorðabók RHS um plöntur og blóm

Hagnýta pottaplöntubókin eftir Fran Bailey og Zia Allaway er því kærkomin eign á mitt heimili. Hún er gefin út undir merkjum RHS eða the Royal Horticultural Society sem er virtasta garðyrkjufélag Bretlands og stendur fyrir útgáfu ýmissa rita um plöntur og garðyrkju. Á heimasíðu þeirra hér má raunar nálgast alls kyns áhugaverðan fróðleik um plöntur og garða. Bókin er reyndar ekki staðfærð en þar sem um er að ræða pottaplöntur sem hafa það huggulegt í upphituðum húsum skiptir það kannski ekki öllu máli. Hún er hins vegar prýðilega þýdd af Magneu J. Matthíasdóttur og ótmetanlegt að fá þarna myndir og nöfn sem hægt er að leggja á minnið og reyna svo að fjárfesta í.

Hér má finna heilmikinn fróðleik um pottaplöntur – líka atriði sem ég hafði ekkert velt fyrir mér – þannig má finna marga kafla um mismunandi uppröðun fyrir mismunandi aðstæður svo sem „Uppröðun fyrir mikla birtu“, „Uppröðun fyrir litla birtu“, og „Uppröðun til vellíðunar“ sem hefur marga undirkafla – allt frá „Uppröðunar fyrir núvitund“ til „Uppröðunar til að hreinsa loftið“ því plöntur ljóstillífa jú og sumar búa til þetta líka ljómandi góða andrúmsloft.

Það er einnig metnaðarfullur kafli um pottaplöntulist sem mér finnst kannski fyrir lengra komna (Innrammaður mosi, Brönugrös á hnyðju, Lifandi skilrúm) en svo sérdeilis gagnlegur og vel uppsettur kafli sem skipar 175 algengum pottaplöntum niður eftir gerð og eiginleikum. Þar eru gefin góð ráð um ræktun og umhirðu svo sem hvernig birtu- og rakastigs hver og ein planta þarfnast. Hér er líka mjög hjálplegur kafli sem útskýrir hvað hugtök á borð við óbeint sólarljós eða dálítill skuggi þýða – því það segir sig í raun ekki sjálft.

Alfræði RHS um garðyrkju

Í bókinni eru eins og áður sagði fínar ljósmyndir sem gott er að styðjast við – bæði þegar kemur að því að velja í gluggakisturnar en ekki síður til að greina það sem þegar er til. Með hjálp bókarinnar hef ég t.d. greint aðra nafnlausu plöntuna sem ég keypti í IKEA sem Benjamínfíkus (Ficus benjamina). Hún er ein af örfáum plöntum bókarinnar sem fær einkunina „erfið“ í umhirðu. Það er ákveðin léttir því mér sýnist tæpt að hún lifi fram að næstu helgi. Það er þá ekki bara ég...

Mitt helsta umkvörtunarefni er að flestar plönturnar reynast samkvæmt bókinni njóta sín best í óbeinu sólarljósi eða dálitlum skugga sem leysir ekki mína stóru spurningum um hvað sé best að setja í stóra suðurgluggann í stigaganginum. Þar er þó sennilega ekki við Hagnýtu pottaplöntubókina að sakast heldur náttúruna – eða byggingarskipulag hússins.





Engin ummæli: