9. desember 2019

Fimm konur með nöfn og sögur

Áður en ég las bókina sem hér er til umfjöllunar hafði ég ekki gert mér grein fyrir alþjóðlegum vinsældum Kobba kviðristu, aka Jack the ripper, sem er frægur fyrir að hafa myrt fimm konur í Whitechapel-hverfinu í London árið 1888 og aldrei náðst. Það eru heil samfélög manna þarna úti sem þreytast ekki á að velta fyrir sér störfum hins dularfulla raðmorðingja og raunverulegu nafni.

Honum eru tileinkaðar sögugöngur, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, heimasíður og lífleg spjallborð og það hafa verið prentaðir margir kílómetrar af texta um hann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Bækur sem fjalla um morðin og morðingjann. Bækur sem fjalla um lögreglumennina sem eltust við morðingjann. Bækur sem fjalla um það hvernig dagblöðin fjölluðu um morðingjann. Bækur sem fjalla um viktoríanskt samfélag í ljósi morðanna. Bækur sem fjalla um aðra morðingja sem voru að störfum á sama tíma. Að ótöldum auðvitað öllum skáldverkunum innblásnum af atburðunum. Í langstærstum hluta þessa gríðarlega textamagns er morðinginn Jack the ripper semsé í forgrunni og þær limlestingar sem hann sérhæfði sig í.

Það sem sagnfræðingurinn Hallie Rubenhold gerir í The Five. The Untold Lives of the Women Killed by Jack the Ripper er hins vegar að beina sjónum sínum að konunum sem urðu fyrir honum. Þetta er sögulegt réttlætisverkefni með yfirlýst femínískt markmið af hálfu höfundarins; að gangast ekki undir ástríðufullan áhugann á karlmorðingjanum heldur byggja í staðinn upp mynd af kvenfórnarlömbunum sem manneskjum og setja í samhengi við stöðu þeirra í viktoríönsku samfélagi.

Áhugi minn var strax vakinn þegar ég las um útgáfu bókarinnar í vor. Ég var nýbúin að lesa bækur Maggie Nelson, Jane. A Murder frá 2005 og The Red Parts frá 2007, þar sem hún skrifar um móðursystur sína Jane sem var myrt í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar, og veltir fyrir sér þeim þráhyggjukennda áhuga á morðum á ungum hvítum konum sem birtist svo mjög í skálduðum og sannsögulegum glæpasögum, prentuðum og kvikmynduðum. Bækurnar tvær eru meðal annars tilraun til að draga upp mynd af Jane sem lifandi persónu, skemmtilegri og greindri manneskju, og spyrna gegn því að morðið á henni sé gert að afþreyingarefni og hún að aukaatriði í sögu manns sem hefur gert það eitt sér til frægðar að drepa konur. Hin þekktu orð Edgar Allan Poe bergmála hér víða: „The death of a beautiful woman is, unquestionably, the most poetical topic in the world.“ Einmitt, Edgar. Eða svo ég vitni í The Red Parts:

In essence, the domain of eroticism is the domain of violence, of violation, wrote the great French pornographic writer Georges Bataille. Bataille was mesmerized by images of Aztecs ripping each other‘s hearts out of their chests, of Saint Teresa in the throes of a feral ecstasy. I doubt if he had in mind a sweaty old white guy in suburban Michigan churning up powder to knock out and then sexually abuse his exchange student.“


Maggie Nelson er stundum aðeins of lærður höfundur fyrir minn smekk, fullmikið af tilvitnunum í hin og þessi gáfumenni, en ég var býsna hrifin af bókunum um Jane. Ofbeldi gegn konum er mjög áberandi þema í alls konar glæpasögum og oft er umfjöllunin sett fram sem hluti af samfélagslegri gagnrýni en það er ekki laust við að maður fái stundum á tilfinninguna að konurnar í sögunum hafi ekkert annað hlutverk en að láta drepa sig á sem hroðalegastan hátt. Ég var að fletta aftur gegnum Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur um daginn og rakst þar á eftirminnilega lýsingu á kvikmynd þar sem limlest stúlkubörn koma við sögu, eitthvað á þá leið að stúlkubörnin væru eins og smáorð, karakterlaus en nauðsynleg til að halda heildinni saman.

Bók Hallie Rubenhold um konurnar fimm sem Jack the ripper myrti sprettur semsagt af mótþróa við þetta. Í stað þess að einblína á morðingjann vill hún draga fram hin nafnlausu fórnarlömb og líf þeirra og þar á meðal leiðrétta þá lífseigu mýtu að þær hafi allar verið vændiskonur. Það er reyndar vandasamt umfjöllunarefni því þótt það sé gott að leiðrétta rangfærslur er mikilvægt að gera það ekki á þeim forsendum að „bjarga heiðri“ hinna myrtu; það skiptir auðvitað ekki máli hvort þær voru í vændi eða ekki, morðin voru jafn skelfileg brot gegn þeim öllum. Höfundurinn sjálfur finnst mér halda sér réttu megin við línuna en stundum strauk tónninn í kynningarefninu mér aðeins öfugt. Þessi vændiskvennamýta er hins vegar þýðingarmikil fyrir söguna því hún er lýsandi fyrir áhugaleysið gagnvart fórnarlömbum Jack the ripper og fyrirlitninguna sem þeim var sýnd; þeim var skellt saman í einn nafnlausan hóp lágstéttarkvenna sem væru örugglega veikar á siðferðislega svellinu, enda hluti af „óþjóðalýðnum í Whitechapel“.

Hallie Rubenhold er í flókinni stöðu því það eru liðin meira en 130 ár frá því morðin voru framin, það er enginn lengur á lífi sem þekkti þessar konur og heimildir um þær eru af skornum skammti. Bókin er þannig ekki bara áhugaverð sem sögulegt réttlætisverkefni heldur sem aðferðafræðileg áskorun fyrir sagnfræðing. Jack valdi sér fórnarlömb úr hópi lægst settu kvenna þjóðfélagsins í fátækrahverfinu Whitechapel. Rubenhold sýnir fram á að það sem þær áttu í rauninni flestar sameiginlegt, fremur en að hafa lifibrauð sitt af vændi, var að þær voru heimilislausar. Ekki aðeins voru þær berskjaldaðar fyrir ofbeldi heldur voru þær úr þjóðfélagshópi sem skilur yfirleitt eftir sig litlar heimildir.

Það er ekki hægt annað en dást að hinni metnaðarfullu heimildavinnu. Rubenhold leitar víða fanga og nýtir ekki síst fjölmiðlaumfjöllun annars vegar og opinber skjöl hins vegar, svo sem manntöl, dómskjöl og skjöl vinnuhæla þar sem konurnar leituðu skjóls. Hún setur þessar takmörkuðu einstaklingsbundnu heimildir í samhengi við aðstæður og andrúmsloft í bresku þjóðfélagi á þessum tíma, sögu Lundúnaborgar og ólíkra borgarhverfa. Landafræði sögunnar er mikilvæg og bókinni fylgir kort yfir þekkt aðsetur kvennanna í borginni og staðina þar sem þær mættu örlögum sínum.

Konurnar fimm fá hver sinn kafla, í þeirri röð sem þær dóu. Polly Nichols var járnsmiðsdóttir sem yfirgaf eiginmann sinn og börn, vegna drykkju hennar eða framhjáhalds hans eða hvort tveggja, flæktist milli vinnuhæla og ódýrra gistiheimila eða svaf á götunni þar til hún var myrt í Whitechapel í lok ágúst 1888, 43 ára gömul. Annie Chapman var af hermannafjölskyldu. Hún drakk líka og fór frá manni og börnum eftir erfiðleika í einkalífinu. Hún var orðin berklaveik og heimilislaus þegar hún var myrt í september 1888, tæplega fimmtug. Elizabeth Stride var sænsk, hét upphaflega Elisabeth Gustafsdotter og var fædd í nágrenni Gautaborgar. Hún flutti til London upp úr tvítugu eftir að hafa eignast andvana barn í lausaleik, greinst með sárasótt og verið kærð fyrir lauslæti. Kaffihúsið sem hún rak með manninum sínum gekk ekki vel, þau skildu og hún fór að slarka í Whitechapel. Þar var hún myrt í septemberlok 1888, 44 ára. Catherine Eddowes var tveimur árum eldri og var myrt sömu nótt. Hún hafði verið gift farandsala og haft viðurværi sitt af bæklingasölu og götusöngvum. Maðurinn hennar beitti hana ofbeldi svo hún fór frá honum að lokum en lifði áfram rótlausu lífi, drakk og flæktist um. Seinasta fórnarlamb Jack the ripper, að því talið er, var Mary Jane Kelly. Enginn veit neitt um uppruna hennar en upp úr 1880 var hún komin til London og farin að vinna á vændishúsi. Hún var yngst af fórnarlömbunum, á þrítugsaldri, og sú eina sem var ekki heimilislaus, því hún var myrt í rúminu sínu í nóvember 1888.

Þetta er ekki beinlínis upplífgandi lestur. Eðli málsins samkvæmt enda sögur allra kvennanna illa. Engin þeirra kom úr efstu lögum samfélagsins en sumar þeirra lifðu ágætis lífi um hríð áður en áföll, fátækt og drykkja hröktu þær inn á vinnuhælin og út á götuna. Rubenhold kreistir allt sem hún mögulega getur út úr heimildunum til þess að draga upp myndir af konunum sem einstaklingum með eigin persónulegu sögu. Sem dæmi um dýrmætar heimildir birtir hún aftast í bókinni yfirlit lögreglunnar yfir það sem þær höfðu í fórum sínum þegar þær dóu: Stígvél, sjöl, treyjur og pils, kambar, vasaklútar og hnappar. Elizabeth var með blýantsstubb í vasanum. Kate átti tvær krítarpípur, teskeið og borðhníf, sígarettuveski úr rauðu leðri og sápu. Hún var líka með tólf hvítar tuskur með gömlum blóðblettum: Dömubindi. Þessar smámyndir eru fátæklegar en áhrifamiklar.

The Five er merkilegt verkefni og ég er ekki viss um að það væri hægt að gera þetta betur. Það er klassísk aðferð að nota samfélagslýsingar til að styrkja sögur einstaklinganna og geta í eyðurnar. Maður fær samt óhjákvæmilega sterka tilfinningu fyrir takmörkunum þessarar sagnaritunar við lesturinn, einfaldlega vegna þess hve einstaklingsbundnu heimildirnar eru af skornum skammti – og engar komnar frá konunum sjálfum, svo við höfum lítinn sem engan aðgang að þeirra eigin rödd. Viðtengingarhátturinn er ráðandi; það sem þær gætu hafa hugsað á tilteknu andartaki í lífi sínu, það sem gæti hafa verið upphafspunktur ógæfunnar. Það er alltaf hætta á að persónurnar fari að renna saman. Þá finnur maður sterkt fyrir því sem er horfið og verður ekki endurheimt.

Stoltur safnvörður og gömul lögga
Ég var þó minnt á mikilvægi heiðarlegra tilrauna af þessu tagi þegar ég var að skrifa þetta blogg og rakst á umfjallanir um Jack the ripper-safnið sem stofnað var í Whitechapel fyrir fáeinum árum. Saga safnsins er sérkennileg; svo virðist sem stofnandi þess, einhver maður sem gegndi kaldhæðnislega áður hlutverki svokallaðs „diversity chief“ hjá Google, hafi upphaflega talið samstarfsfólki sínu og skipulagsyfirvöldum trú um að hann ætlaði að setja á fót kvennasögusafn tileinkað súffragettum og öðrum röggsömum konum í Austur-London. Þegar leið að opnun safnsins kom hins vegar í ljós að það snerist ekki um súffragettur heldur sögu Jack the ripper.

Þegar hann var krafinn um skýringar sagði stofnandinn: „We did plan to do a museum about social history of women but as the project developed we decided a more interesting angle was from the perspective of the victims of Jack the Ripper.“ Þótt hann haldi því fram að sýningin sé sett upp frá sjónarhorni fórnarlambanna virðist það vera orðum aukið og hún hvorki sérlega femínísk né sagnfræðilega traustvekjandi. Það er skemmst frá því að segja að aðstandendur safnsins hafa æ síðan staðið í hörðum deilum við yfirvöld, íbúa og brjálaða femínista og þurft að þola mikið eggjakast og málningarslettur.

1 ummæli:

urgent loan sagði...

BUSINESS LOAN PERSONAL LOAN HERE APPLY NOW WhatsApp +918929509036 financialserviceoffer876@gmail.com Dr. James Eric