15. janúar 2009

Um ástsjúka menn, eigulegar konur, karllegar og klunnalegar stúlkur og fleira áhugavert

Síðustu áratugina hafa vinsældir svokallaðra sjálfshjálparbóka aukist verulega. Metsölulista prýða oft margar slíkar bækur og þær seljast betur en flest lestrarkyns. Deila má um hvers vegna bækurnar kallast sjálfs-hjálparbækur, því í rauninni er oftast um að ræða bókmenntir sem bjóða upp á forskriftir að lausnum við flóknum vandamálum, oft afar einföldum lausnum, sem synd væri að segja að væru sniðnar að einstaklingsbundnum þörfum.

Tvær dálítið sniðugar bækur um samskipti kynjanna komu út á Íslandi á síðustu öld, önnur 1938 en hin 1952. Umræddar sjálfshjálparbækur eru því farnar að eldast verulega en þær segja mögulega eitthvað um ríkjandi viðhorf á ritunar- og útgáfutíma sínum.

Árið 1938 kom út bókin Ástalíf eftir Pétur Sigurðsson aðventistapredikara. Bókin skiptist í tvo hluta, í fyrri hlutanum er rætt um aðdraganda giftingar og hvernig velja skuli maka, en einnig veltir höfundur fyrir sér viðhorfum til frelsis í ástamálum sem hann tekur vera að aukast. Aðallega er þó hugað að makavali og er Pétur óspar á dæmi úr eigin lífi hvað það varðar en höfundur kveðst hafa verið hamingjusamlega kvæntur um árabil.

Í upphafi Ástalífs ræðir Pétur af mikilli mælsku um gildi ástarinnar og mikilvægi þess að varðveita og rækta hjónaástina út lífið. Ástfanginn mann telur hann vera stórhuga og göfuglyndan. Ástföngnum manni finnist hann geta faðmað að sér allan heiminn og að slíkur maður geti komist í sátt við hverja smásál. Með samruna tveggja ástfanginna sálna verði öll tilveran þeim dásamlegt samræmi og eining. Sálirnar logi af heitri þrá og innileika, faðmlög og eldheitir kossar láti hinar hinstu fjarlægðir hverfa, bræði sálirnar saman og umbreyti jarðnesku lífi í himneska sælu. Með ást tveggja einstaklinga nái lífið hámarki sínu, í fullkominni fórn og fullkomnum sigurvinningum. En Pétur Sigurðsson bendir jafnframt á að ástalíf manns og konu eigi ekki að ná hámarki sínu á tilhugalífsárunum eða hveitibrauðsdögunum, heldur eigi það að rísa með hverjum nýjum áfanga þar til takmarkinu er náð; að elskast allt til dauða. Og hvernig á fólk nú að fara að því að varðveita hina eldheitu ást? Jú, Pétur Sigurðsson er með lausn við því. Hann ráðleggur eiginmönnum að ástunda réttan og heilbrigðan hugsunarhátt, en í slíkum hugsunarhætti felst að halda áfram allt lífið að hugsa um konuna sína eins og þegar hann varð ástfanginn fyrst. Sú ímyndun, sem hafi gert stúlkuna hans að fallegustu og bestu og elskulegustu stúlku undir sólinni eins og allir nýtrúlofaðir menn hugsa um kærustur sínar, sé í raun blekking, en engu að síður verði eiginmaðurinn að nota ímyndunaraflið til að halda áfram að sjá konuna í þessum töfraheimi og í dýrð ástarljómans, og að aldrei megi hann gerast það rýnandi og nærgöngull í hugsun að ástargyðjan sé flett dýrðarljóma og englaslæðu hins ástsjúka manns.

Pétri finnst ungt fólk ekki lifa nógu heilbrigðu ástalífi og hann vill að nokkrum reglum í mannrækt og uppeldismálum verði fylgt til að gera unga fólkið betur í stakk búið til að lifa í hamingjusömu hjónabandi. Honum finnst ungu mennirnir ekki nógu góð mannsefni og ungu stúlkurnar ekki nógu miklir kvenkostir og ekki nógu eigulegar, svo orðrétt sé vitnað. Ungar íslenskar stúlkur segir hann vissulega geta verið girnilegar, en þær séu ekki nógu elskulegar til að ungu mennirnir sækist eftir að eiga þær. Þær séu gleðidrósir, götustúlkur og hlaupa-hindir sem leiki á strengi holdlegra hvata ungu mannanna, sem vilji gjarna leika sér með þeim kvöld og kvöld á stangli, en að þeir kæri sig ekki alltaf um að eiga þær. Þess vegna sé því miður margt fólk einhleypt. Pétur Sigurðsson hefur mörg orð um hvað gott konuefni þurfi að hafa til að bera. Honum finnst mikilvægt að konur læri allt sem kunna þarf hvað varðar hefðbundin húsmóðurstörf og barnauppeldi, þær þurfi að vera ráðdeildarsamar og snyrtilegar, en að fyrsta og æðsta skylda konunnar sé að vera kvenleg. Í því felst að konan á að vera elskuleg, aðlaðandi, falleg, blíð og töfrandi, og hún á að rækta kvenlega fegurð sína og tign. Pólitískar hamhleypur, karllegar og klunnalegar stúlkur, málaðar og útflúraðar, allavega litar vindlingasugur og japlandi og jórtrandi tískudrósir, sem drekka og slarka og eru klúrar, eru honum ekki að skapi. Gott mannsefni á hins vegar að vera líkamlega hraustur og karlmannlegur, hugumstór með hetjulund og víkingsbrag, viljasterkur, stefnufastur, iðinn, sparsamur, reglusarmur og prúðmannlegur, ráðdeildarmaður og hann á að hafa góðar sálargáfur. Eftispurn sé eftir slíkum mönnum hjá ungum stúlkum.

Um sjálft hjónalífið segir höfundur að ástalíf karls og konu byggist aðallega á kynhvötinni, það sé fyrst og fremst holdrænt. Finni karlmaðurinn ekki sanna svölun í sambúðinni við konu sína, kunni hann að taka til þess ráðs að setjast við þann brunninn sem augnabliks svölun veitir. Með öðrum orðum þá þurfi hann einfaldlega að leita á önnur mið ef konan er eitthvað slöpp og sloj. Bæði þurfi að átta sig á því að það var upphaflega kynhvötin sem gerði þau drukkin af víni ástarinnar, þau verði að varðveita og viðhalda þeirri orkulind og virkja hana réttilega.
Og ekki megi slíta konunni út við endalaust basl og barneignir. Þarna má að vissu leyti segja að Pétur Sigurðsson hafi verið dálítið nútímalegur í hugsun og það á hann reyndar líka til á fleiri sviðum. Hann er að sjálfsögðu á móti lauslæti, en þó má finna töluvert umburðarlyndi, til dæmis virðist honum ekki finnast tiltökumál þótt stúlkur hafi verið við karlmann kenndar fyrir giftingu og framhjáhald telur hann ekki endilega þurfa að vera sérstakt tiltökumál.

Aðra bók um skyld efni gaf Pétur út árið 1952. Sú heitir Vandamál karls og konu. Í formálsorðum segir að hún fjalli um „Þjóðfélagsvandamálið mikla, sambúð karls og konu, heimilið, uppeldi æskumanna, ræktun kynstofnsins, þjóðaruppeldið, sérmenntun karla og kvenna og það sem gott fjölskyldulíf grundvallast á.“ Pétri verður tíðrætt um skemmtanabrjálæði ungu kynslóðarinnar, vond áhrif ástarreyfara og hávaðasamrar jazzmúsíkur og slæm áhrif glaumsins og gleðinnar sem glepur æskufólkið. Til að forðast þá lausung sem fylgir skemmtanalífi og svalli leggur hann til að fólk stofni ungt til hjúskapar, þannig megi komast undan slæmum áhrifum skemmtanalífsins og forðast neikvæð áhrif langvarandi bælingar kynhvatarinnar. Hann segir unga menn verða ráðsettari, sparsamari og gagnlegri þjóðfélagsþegna þegar þeir eru orðnir eiginmenn og feður og því skuli menn gjarna drífa sig í hjónabandið, það forði þeim frá siðspillandi næturlífi. Pétur nefnir einnig hernámið og ástandið.
Hann fordæmir vissulega ekki stúlkur þær sem lentu í ástandinu, en segir að stúlkurnar hefðu aldeilis ekki steypt sér út í spillingu ástandsins hefðu þær átt myndarlega og elskulega kærasta. Mannrækt og kynbætur eru einnig ræddar, Pétur telur að fólk eigi að kynna sér samviskusamlega ætterni þess sem það leggur lag sitt við. Hann ber þetta saman við kynbætur bænda og segir að Skagfirðingar kaupi til dæmis ekki hross nema vita undan hverjum þau séu!

Þorgerður og Þórdís

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ já fuss, þessar pólitísku hamhleypur.

Harpa Jónsdóttir sagði...

,,Hvurra manna ertu góði minn?"

Nafnlaus sagði...

Ég er ný manneskja eftir þennan lestur.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það held ég að hann Pétur væri ánægður með þig Kristín, væri hann á lífi. Nú eða jafnvel sonur hans, Esra Pétursson geðlæknirinn sem dæmdur var í Hæstarétti.

Nafnlaus sagði...

Ekta stafsetning á álögum sem kallast Dr.Sango
Ég var svo þunglynd þegar elskhugi minn yfirgaf mig fyrir annan mann eftir að við höfðum verið saman í 5 ár og 1 árs hjónaband, ég reyndi að biðja hana um að koma aftur til mín fyrir að neita og segja að hún hefði engar tilfinningar til mín lengur. Ég varð dapur maður eftir allt sem við bjuggum saman, eftir ástina sem við áttum saman í fortíðinni, ég gat ekki ímyndað mér líf mitt án hennar, því ást mín á henni var ómetanleg af einhverjum ástæðum, stundum þegar ég vafraði á netinu, ég sá ummæli um einhvern sem hefur vald til að koma aftur fyrrverandi elskhuga og ég ákvað að reyna að sannfæra hann með því að hafa samband við hann og hann svaraði strax og ég útskýrði hvað ég var að fara og sagði að hinn notaði að finna álög. á hana, svo hún skildi mig eftir fyrir mig þrátt fyrir umhyggju mína fyrir henni og lofaði að hjálpa mér að ná elskhuga mínum aftur og einnig hjálpa mér að setja álög á hann svo hún gæti ekki barist við mig í framtíðinni, á innan við fimm dögum konan mín var heima hjá mér og beið eftir að ég kæmi aftur úr vinnunni og þegar ég gerði það fór hún að betla og gráta að henni þætti leitt að hún vissi aldrei hvað hefði komið fyrir hana. takk, Dr.Sango, nú er ég ánægður með konuna mína og nú gengur allt áfallalaust fyrir sig. Biddu Dr.Sango um hvers konar hefndartöfra og fyrrverandi stafa aftur með tölvupósti spellspecialistcaster937@gmail.com