11. apríl 2009

Páskakrimmar og Undantekningin

Í nágrannalöndunum (þessum sem sumir segja að við eigum ekki að bera okkur saman við því við stöndum þeim miklu framar) lesa menn gjarnan það sem þeir kalla páskakrimma. Glæpasögur koma út fyrir páskana á Norðurlöndum og þeim er tekið fagnandi. Ég hef hins vegar ekki lesið neinn páskakrimma því ég er með sveitta putta að reyna að ljúka við að snúa nýjustu bók Hennings Mankells, Kínverjanum, afar spennandi pólitískum krimma og auk þess hef ég fengið að lesa óútkomið handrit frábærs íslensks höfundar, engu verður ljóstrað upp um það í bili.

En fyrir áhugasama sem ekki hafa valið sér páskakrimma langar mig að benda á bók sem kom út á íslensku árið 2006 og mér fannst lítið fara fyrir þrátt fyrir umtal og vinsældir víða. Ég skrifaði rýni um bókina fyrir Morgunblaðið og gróf þá umfjöllun upp rétt áðan og birti hana hér fyrir neðan aðeins breytta. Bókin sem um ræðir er Undantekningin og eftir Danann Christian Jungersen, en þessi doðrantur varð brjálæðislega vinsæll í Danmörku og hefur verið þýddur yfir á tugi tungumála og mig minnir endilega að komin sé bíómynd eftir bókinni.

Undantekningin er bæði spennandi glæpasaga og sálfræðileg samtímasaga. Aðalpersónur eru fjórar konur, vinkonurnar Iben og Malene, sem eru á fertugsaldri og Anne-Lise og Camilla sem eru nokkrum árum eldri. Þær vinna saman á Dönsku upplýsingastofunni um þjóðarmorð í Kaupmannahöfn. Þar eru stundaðar rannsóknir og veittar upplýsingar um þjóðarmorð og starfsfólkið skrifar greinar um glæpi þar sem illska mannanna er ígrunduð og hegðun fólks á tímum stríðsátaka krufin. Bókin fylgir til skiptis sjónarhorni kvennanna en inn á milli er fléttað ritsmíðum Ibenar og Malene um þjóðarmorð sem framin hafa verið um víða veröld.

Í upphafi bókar berast tveimur kvennanna, og síðar þeirri þriðju, nafnlaus morðhótunarbréf á ensku. Bréfin koma af stað atburðarás sem afhjúpar þessar konur, sem eru menntaðar og upplýstar og virka í byrjun góðhjartaðar með eindæmum. Í ljós kemur að þær eru ekki allar þar sem þær eru séðar. Lesandinn sogast inn í sjúkt andrúmsloft skrifstofunnar, sem einkennist af valdabaráttu, hatri og svæsnu einelti. Manneskjur sem í orði sýna eindregna samlíðan með þjáðum og kúguðum, eru á borði gjörsamlega miskunnarlausar, einkennilega sjálfhverfar og koma fram af botnlausri illgirni. Tvær kvennanna rotta sig saman gegn þeirri þriðju og mannvonskan, sem þær lýsa úr öruggri fjarlægð þegar þær greina frá þjóðarmorðum, tekur sér bólfestu í þeim sjálfum án þess að þær hafi nokkurt innsæi í hvernig þær hegða sér. Konurnar réttlæta blákalt framkomu sína og telja sig skynsamar, víðsýnar og skilningsríkar. Þjóðarmorð er látið speglast í litlum heimi skrifstofunnar þar sem einn starfsmanna er frystur úti uns lífið verður viðkomandi óbærilegt.

Ég var mjög spennt yfir Undantekningunni. Með því að sjónarhornið færist á milli kvennanna fjögurra nálgast lesandinn atburði og persónur úr ýmsum áttum og þannig fæst ólík sýn á sömu atburði. Þetta gerir bókina langa og á köflum endurtekningasama en mér finnst það ekki vera stór ókostur. Á köflum eru tengingarnar kannski full ljósar og boðskap höfundar allt að því troðið klunnalega ofaní lesandann en kannski veitir ekki af! Komið er inn á stór mál; alþjóðavæðingu, mannréttindi og sýnilegt og ósýnilegt ofbeldi þar sem eigingirni og sjúklegur metnaður hleypur með fólk í alvarlegar gönur.

Undantekningin er sálfræðileg spennusaga þar sem valdabarátta er í brennidepli. Fólk leggur miskunnarlaust stein í götu félaga sinna til að koma sjálfu sér áfram. Þegar öllu er á botninn hvolft er góðmennska ekki helsta persónueinkenni þeirra sem í daglegu lífi gefa sig út fyrir að vera húmanistar og hugsjónafólk. Þegar komið var að því að draga alla þræði saman í lok þessarar löngu og miklu sögu fannst mér höfundur lenda í dálítilli flækju en úr henni greiðist þó bærilega. Eftir sat spurningin hvort einelti og þjóðarmorð séu af sömu rótum og hvort það sé hugsanlegt að við hefðum öll getað orðið böðlar í helför nasista. Mér virðist höfundur Undantekningarinnar halda því fram.

5 ummæli:

  1. Ég fékk þess bók í jólagjöf þarna um árið og var mjög ánægð með hana. Hún er að vísu eins og þú segir pínu lög og svolítið predikandi á köflum en kostirnir eru margfalt fleiri og í heildina er þetta gott og spennandi verk finnst mér.

    SvaraEyða
  2. Mig minnir að ég hafi lesið í Politiken um helgina að dönsku forlögin hafi verið að slást um næstu bók ákkúrat þessa gaurs. Gott ef hann fékk ekki 500 þúsund danskar (sem er ansi mikið í íslenskum á þessum síðustu og verstu).

    SvaraEyða
  3. Undantekning er algjörlega frábær bók. Ég skildi ekki hvað útgáfan hafði lítinn áhuga á að selja hana.

    GK

    SvaraEyða
  4. Já, þetta er mjög flott bók og hrikalega vel plottuð. Ég hef keypt fleiri eintök af henni til gjafa en ég hef tölu á og skil ekkert í því hvað hún fór lágt.

    SvaraEyða
  5. Já, þessi bók er mjög spennandi og fín lesning. Það er sko óhætt að mæla með henni til lesturs í sumarfríinu.
    JóhannaS

    SvaraEyða