10. ágúst 2009

Lýst er eftir litríku máli …

Ég þarf að gera játningu. Reyndar er það augljós lygi, ég þarf ég þess alls ekki, en hér kemur hún samt:

Stundum uppgötva ég að vikum, jafnvel mánuðum saman hef ég varla lesið almennilega íslensku, a.m.k. ekki langan samfelldan texta. Ekki svo að skilja að ég hafi ekkert lesið nema útlensku. Öðru nær, en allur textinn sem ég les í atvinnuskyni er ekki endilega leiftrandi snilld og þar að auki oftast lesinn með gleraugum sem fókusera á allt sem betur mætti fara. Og svo álpast ég óþarflega oft til að lesa alltof marga slaka reyfara í misgóðum þýðingum þótt ég ætti að vita betur.

Við þessar aðstæður óttast ég gjarnan um máltilfinninguna.

Oft verða þessi lestrarafglöp kringum vinnutarnir, enda er þá auðvelt að missa sjónar á hæfileikanum til að einbeita sér að bitastæðu efni í frístundum. En þegar rofar til verður þörfin fyrir almennilegan íslenskan texta – og mikið af honum – aðkallandi. Hjá mér felst endurnæring eftir annatíma því gjarnan í tilhneigingu til að týna mér í óralöngum bókum eða bókaflokkum. Þar er Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi ofarlega á blaði, ég þreytist aldrei á frásagnargáfunni að ekki sé talað um persónusköpununa. Kristín Lafranzdóttir eftir Sigrid Undset er líka meðal þeirra bóka sem koma sterkar inn. Margar persónur og mikið drama í báðum tilfellum. Og óteljandi blaðsíður af fallegu máli.

Það er ekki skilyrði að bækurnar gerist í sveit fyrir langalöngu og textinn sé frekar gamaldags. Langlokudoðrantar á litríku máli eru bara ekki á hverju strái.

Akkúrat núna er lengdin reyndar ekki skilyrði. Ég er til í hvað sem er á íslensku, nýtt eða gamalt, langt eða stutt, bundið eða óbundið mál bara ef það er vel og/eða skemmtilega skrifað. Ég hef augastað á ýmsu en er líka forvitin að heyra hvað aðrir hafa að segja. Ábendingar? Meðmæli? Reynslusögur? Eða bara almennt blaður? Látið ljós ykkar endilega skína í kommentakerfinu.

7 ummæli:

  1. Ég kolféll fyrir Jóni Kalman fyrir einhverju síðan, finnst unun að lesa hann. Einnig mæli ég eindregið með stuttri og ótrúlega pirrandi en djúsí sögu Braga Ólafssonar, Hvíldardagar. Þetta er nú það sem mér dettur í hug að mæla með fyrir orðelskandi konu í fljótu bragði. Svo má líka benda á nokkra fína þrillera, Ævar Örn allur og Afturelding Viktors Arnar koma þá sterkir inn.

    SvaraEyða
  2. Ég geri í því þetta sumarið að láta litla guttann minn lesa góða íslensku, er dauðhrædd um málið hans - enskusletturnar eru hræðilegar :(

    SvaraEyða
  3. Þessi færsla minnti mig aðallega á tvennt: Að ég á við sama vandamál að stríða (að lesa of lítið af almennilegri íslensku) og að það er orðið alltof langt síðan ég las Kristínu Lafranzdóttur.

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir dásemdarsíðu konur. Innlegg mitt er Tabúlarasa eftir Sigurð Guðmundsson. Reyndar er hún engin langloka og lætur lítið fyrir sér fara, en engu að síður leynast töfraorð í ljósgulunni.
    - Guðrún.

    SvaraEyða
  5. Ég mæli með Dætrum hússins eftir Michéle Roberts. Það var ljúf lesning á vel þýddri bók.

    Takk fyrir frábæra síðu. Kv.
    Elísa

    SvaraEyða
  6. Ég mæli með Bókaþjófnum eftir ... ég man ekki hvern í þýðingu Ísaks Harðarsonar. Margt fallegt þar.

    kveðja, Kristín

    SvaraEyða