16. júní 2010

Saltur sykurreyr

P1010172

Í skáldsögunni Sugarcane with Salt sem gefin var út árið 1989 segir höfundurinn, James Ng´ombe, sögu ungs malavísks læknis sem heldur “heim” til Malaví eftir átta ára námsdvöl í Englandi. Sagan er frábær lýsing á sjálfsmynd manns og þjóðar – hvernig allt breytist en þó ekki.

Ef sykurreyr er tekinn upp of snemma er af honum saltbragð. Þetta læra bræðurnir Khumbo og Billy sem litlir strákar í jólaheimsókn hjá afa sínum í þorpinu. Minningin um vonbrigðin sem þetta olli þeim kemur í huga Khumbo þegar hann er löngu síðar á leið norður til Nkhotakhota, sem er bær við strönd Malavívatns, til að heimsækja föður sinn. Þegar ferðalagið til Nkhotakhota er farið er Khumbo nýkominn aftur til Malaví eftir námsdvölina í Englandi. Hann leggur af stað til að átta sig á fortíð og nútíð – reyna að skilja hvað hefur gerst í fjölskyldunni þessi átta ár sem hann hefur verið í burtu.  Fljótlega eftir að hann kemur til landsins verður Khumbo ljóst að ekki er allt með felldu innan fjölskyldunnar. Hann kemst að því að foreldrar hans búa ekki lengur saman og faðir hans vill skilnað á þeim forsendum að konan hans eignaðist hvítt barn. Mamma Khumbos flutti í burtu og fór til stafa sem hótelstýra í Salima á hóteli í eigu hvíts barnsföður síns. Hann kemst líka að því að Billy bróðir hans er í slagtogi með ógæfulegum karakterum frá Suður Afríku sem og fólki innan malavísku stjórnsýslunnar og fæst, með þeim, við innflutning á fíkniefnum. Málin hafa meira að segja gengið svo langt að Billy fékk mömmu þeirra til liðs við sig og hún stýrir m.a. flutningabílaútgerð sem nýtt er við smyglið. Billy hefur náð að efnast vel á þessu athæfi sínu, en ekki vill betur til en svo að þegar allt uppgötvast þá verður honum strax ljóst að félagar hans víla ekki fyrir sér að svíkja hann og hann endar með því að svipta sig lífi. Til að flækja  mál enn frekar þá er stúlkan sem Billy var ástfanginn af áður en hann fór til Englands og hafði ætlað að gifast, nú gift Billy bróður hans og ófrísk að fyrsta barni þeirra. Við andlát Billys kveður hefðin á um það að Khumbo, sem bróðir hans, taki að sér ekkjuna og barnið og ali það upp sem sitt. Inn í þessa flækju miðja kemur svo Sue, ensk kærasta Khumbos, en þau höfðu búið saman í Englandi og höfðu hugsað sér að halda sambúðinni áfram í Malaví. Skiljanlega gengur það illa – Khumbo sem þó er malavískur og ætti að skilja og þekkja til siða og menningar þar – veit vart sitt rjúkandi ráð, hvað þá Sue sem finnst hún hafa verið svikin og skilur hvorki upp né niður í þeim flóknu málum sem í gangi eru innan fjölskyldunnar og í þjóðfélaginu.

Þjóðfélagið sem sagan lýsir er Malaví tuttugu árum eftir að landið fékk sjálfstæði frá bretum 1964. Á þeim tíma hafði “lífstíðarforsetinn” Hastings Kamuzu Banda ríkt 2/3 af valdatíð sinni og ekki margt sem benti til þess að stórvægilegar þjóðfélagsbreytingar væru í sigtinu.  Malaví á tímum Banda var ákaflega lokað þjóðfélag, ritskoðun var grimm, “fjandvinir” ríkisins voru miskunnarlaust fangelsaðir, sendir úr landi eða eitthvað þaðan af verra. Flokkur Banda, Malawi Congress Party, var eini flokkurinn sem leyfður var og var öllum fullorðnum Malövum skylt að vera meðlimir í flokknum. Banda setti á strangar reglur um klæðaburð og útlit sem og um hegðun fólks á almannafæri. Að einhverju marki hefur slakað á járnkló Banda á meðan á Englandsdvöl Khumbo stóð, samanber það að mamma hans var orðin umfangsmikil í viðskiptum þó svo að þau væru öll meira og minna á gráu svæði og unnin í samráði og samvinnu við barnsföður hennar og son. Þjóðfélagsaðstæður Bandatímans eru þó alltaf nálægar í sögunni – spillingin í efstu lögum stjórnsýslunnar, alræði flokksins og hið karllæga viðhorf sem ræður ríkjum.

Sagan er skemmtileg aflestrar og gefur góða innsýn inn í malavískt þjóðfélag. Mæli með að menn flykkist á netið og fái sér eintak, t.d. hjá Africa Bookcentre. Það er ef menn eru ekki svo heppnir að geta skroppið til Malaví og verslað þar!

Sigfríður

14. júní 2010

Stikkprufur: viðbót við fyrri færslu

Í skyndilegu dugnaðarkasti (með tilliti til bloggskrifa) eða letikasti (með tilliti til BA-ritgerðarskrifa) ákvað ég að prjóna svolítið aftan við bókabúðarmeðmæli mín hér að framan og kynna tvær stikkprufur úr sarpi St. George´s Bookshop í Berlín, en þær eiga það sameiginlegt að fjalla um þessa miklu sögu- og menningarborg.

Aðra þeirra ætla ég rétt að nefna, en skora á Guðrúnu Elsu sambloggara minn að gera henni rækilegri skil við tækifæri, því hún kynnti mér hana og hefur skoðað hana betur. Bókin heitir Voluptuous Panic – the Erotic World of Weimar Berlin eftir Mel nokkurn Gordon og er einmitt ekki síður fallin til þess að skoða en lesa; auk þess að vera fræðandi er hún kjörin kaffiborðsbók fyrir þá sem eru nógu...jah, smáborgaralegir til að huga að slíku en þó ekki mótfallnir því að gestir þeirra æsist svolítið í kaffiboðinu.



Bókin fjallar í stuttu máli um Weimarlýðveldisárin í Berlín og þá erótík og perversjónir sem þar blómstruðu. Sagt er frá fjölbreytilegum hórdómi, kabarettdönsum, drengjaástum, kvennaástum, klæðskiptum, kvalalosta, kynfræðirannsóknum frumkvöðulsins Magnusar Hirschfeld og hinni stórskemmtilegu (en stundum ögn truflandi arísku) þýsku nektarhreyfingu, svo eitthvað sé nefnt. Bókin er skemmtileg aflestrar og hvað myndirnar varðar er hún hreinasta gullnáma, þær eru svo fallegar og sjúklegar í senn; teikning af berrössuðum dreng sem flengir dúkkurnar sínar með vendi, miðaldra atvinnuflassari með kúluhatt og hálstau flettir frá frakkanum fyrir ljósmyndarann og reynist ber að neðan...

Hin Berlínarbókin sem ég keypti í St. George´s varð sannkölluð biblía mín á gönguferðum um borgina, úttroðin af póst-it-miðum. Hún heitir The Ghosts of Berlin, eftir sagnfræðinginn Brian Ladd, og segir sögu Berlínar frá byggingapólitísku sjónarhorni. Ladd rekur bygginga- og skipulagssögu borgarinnar frá miðöldum til okkar daga og það hvernig pólitískt ástand og hugmyndafræðilegar deilur hafa haft áhrif á uppbyggingu hennar og niðurrif á hverjum tíma fyrir sig. Þetta sjónarhorn hentar sérlega vel fyrir Berlín, jafn hokin og hún er af sögu og pólitík, og gerir bókina að mjög góðri túristabók – hún fókuserar á raunverulega staði sem hægt er að heimsækja og skoða en í stað yfirborðskenndrar staðreyndaupptalningar segir hún sögu átaka og gagnrýni.



Það mætti skipta viðfangsefni bókarinnar í fjóra hluta eftir tíma: heimsborgin Berlín frá 19. öld fram til um 1930, Berlín undir yfirráðum nasista, hin klofna Berlín kalda stríðsins og loks Berlín eftir fall múrsins (bókin er gefin út árið 1997). Kaflarnir vísa þó stöðugt hver í annan og fortíðin rennur saman við samtíðina. Þjóðernis- og sjálfsmyndarpólitískar spurningar eru mjög áberandi – hvaða þýðingu hafði gjörningur listamannsins Christo sem vafði þinghúsið inn í kufl árið 1995? Hvenær hættir það að vera uppgjör að búta niður austurþýskar styttur af Lenín og byrjar að vera tilraun til að þurrka út söguna? Var bygging gyðingaminnismerkisins milli Brandenburgarhliðsins og Potsdamer Platz merki um að Þjóðverjar öxluðu ábyrgð á gjörðum sínum á nasistatímanum eða tilraun til að loka umræðunni, ábyrgðin hefði verið öxluð og þyrfti ekki að ræða það meir?

Saga Berlínar er auðvitað svo mögnuð að skortur á efniviði getur aldrei verið vandamál í metnaðarfullri bók eins og þessari. Saga Potsdamer Platz er gott dæmi; þar voru fjölförnustu gatnamót í Evrópu á fyrstu áratugum 20. aldar, þar var auðn og einskismannsland þegar borginni var skipt upp í kalda stríðinu, gaddavír og varðturnar, nú rísa þar kapítalískir turnar til himna, stórfyrirtæki og rauðir dreglar, ljótari staður en Hamraborgin í Kópavogi. (Hvað ætli gamli maðurinn í Himninum yfir Berlín eftir Wim Wenders segði ef hann væri leiddur þangað núna?)

Ég gæti í rauninni skrifað fjórfaldan pistil um þessa mína uppáhaldstúristabók, en eitthvað verða blogglesendur að eiga til góða. Ég mæli eindregið með því fyrir þá sem langar til að kynnast borginni og sögu hennar umfram hefðbundin bæklingaskrif að næla sér í Drauga Berlínar – maður missir ekki af neinu, Brandenburgarhliðið og Unter den Linden eru líka í þessari bók. Hún er áhugaverð, vel skrifuð og skemmtileg, og það er gríðarlega inspírerandi fyrir Íslending að kynna sér þjóðernis- og sjálfsmyndarpólitík í landi þar sem fólk gerir sér af biturri reynslu grein fyrir mikilvægi sífelldrar gagnrýni og spurninga á því sviði, að maður tali ekki um tilfinninguna fyrir hverfulleika stjórnskipulags og hugmyndafræði.

Kristín Svava

12. júní 2010

Önnur góð bókabúð: St. George´s Bookshop í Berlín

Grein Þórdísar um bókabúðina Lello í Porto minnti mig á hvers konar vanræksla það er gagnvart lesendum þessarar bloggsíðu að vera ekki búin að koma á framfæri annarri frábærri bókabúð í annarri frábærri borg. Rétt eins og Berlín er ekki næstum jafn snoppufríð og Porto er enska bókabúðin St. George´s Bookshop ekki næstum jafn glæsileg og Lello af myndunum að dæma, en þangað ætti hver bókmenntaunnandi sem heimsækir Berlín að vera skyldaður til að fara.

St. George´s lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en þegar inn er komið er hún ótrúlega rúmgóð. Hún býður sem fyrr segir upp á enskt lesmál, notað og nýtt, og eitthvað smávegis af tvítyngdu efni á ensku og þýsku. Þarna er til dæmis hægt að nálgast mikið af enskum þýðingum á þýskum skáldskap. Úrval fagurbókmennta svokallaðra er mjög gott. Úrval fræðibóka fer sennilega eftir flokkum, mér fannst kynjafræðideildin frekar rýr og komin við aldur, en sagnfræðideildin er mjög fín, sérstaklega um þýska sögu og sögu Berlínar. Á miðju gólfi er svartur leðursófi sem er miklu auðveldara að setjast í en standa upp úr og þar er hægt að gleyma sér í marga klukkutíma ef þannig stendur á. Starfsfólkið er hvert öðru elskulegra og hjálpsamara, ef maður kemur í lopapeysu spyr það hvort maður sé frá Íslandi og svari maður játandi spyr það hvort maður þekki Hildi (alltaf að segja já, hún er svo vel liðin í búðinni). Ef bók sem maður girnist er ekki til er lítið mál að panta hana, hafi maður tíma til að bíða eftir henni. Það er yfirleitt ekki dýrt, og verðlagið í búðinni yfirhöfuð mjög sanngjarnt.

Þessi draumastaður bókaperrans er staðsettur á Wörther Strasse 27 í Prenzlauer Berg-hverfinu í Berlín og er, sem fyrr segir, algjör skylduheimsókn. Hverfið er heldur ekki leiðinlegt að heimsækja, hafi maður hæfilega þolinmæði fyrir hippsterum og barnafjölskyldum. Ef hungrið sverfur að mæli ég til dæmis með jalapeñohamborgara á Marienburger á Marienburger Strasse, sé stemmningin sveitt, eða rússneskri rauðrófusúpu og bjór á Chagall á Senefelder Platz, sem er þægilegri til langrar setu. Báðir staðir eru steinsnar frá St. George´s.

Að lokum má nefna að St. George´s er með heimasíðu: http://www.saintgeorgesbookshop.com/

og á feisbúkk: http://www.facebook.com/#!/pages/Saint-Georges-English-Bookshop-Berlin/344780388150?v=info

Hún er opin á virkum dögum frá ellefu til átta og á laugardögum frá ellefu til sjö.
Bókaköttur
Bókaköttur

St. George´s

Kristín Svava

11. júní 2010

Porto - bókabúð og bókabar

Porto, næststærsta borg Portúgal, er staður sem gaman er að heimsækja, en þar eyddi ég nokkrum dögum í síðustu viku. Borgin er gömul og falleg, fólkið viðkunnanlegt og margt áhugavert að skoða (og svo auðvitað nóg af portvíni fyrir þá sem það kunna að meta). Í Porto er fallegasta bókabúð sem ég hef komið í, hún heitir Lello og er byggð 1906 í Art Nouveau- stíl. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir.





Google benti mér á skemmtilega síðu þar sem meðal annars má finna fleiri myndir af umræddri bókabúð, sem er í húsi númer 144 við götu sem heitir Rua das Carmelitas. Út frá þeirri götu er litla hótelið sem ég bjó á, Pensao Cristal, sú gata heitir Rua Galeria de Paris og er mikil bargata. Þar er skemmtilegur bókabar sem er með facebooksíðu.

Þórdís

Reyfarajúní ... glæpir í Skandinavíu

elsku_poona_fossumraudbrystingur0069
Fast á hæla reyfaramaí fylgir að sjálfsögðu reyfarajúní. Síðan skóla lauk um miðjan maí hef ég kastað frá mér í fússi nánast öllum bókum sem ekki innihalda alla vega eitt gróft morð – ég vil ekki sjá efnahagsbrot eða fíkniefnamisferli – morð skal það vera.

Ég hef fleygt mér skammlaust í faðm skandinavískra glæpahöfunda sem þýðir að sjálfsögðu að miklum tíma hefur verið eytt í félagsskap drykkfelldra, þunglyndra lögreglumanna sem ekki spila alltaf eftir leikreglunum og eru undantekningalítið upp á kant við yfirboðara sína.

Í maí lokaði ég með söknuði Stieg Larsson hringnum þegar ég las loksins síðustu bókina í Millennium séríunni – ég sá nú meira eftir Lisbet Salander en Michael Blomkvist en ég er varla sú eina sem þreyttist örlítið á yfirgengilegri kvenhylli hans – látum vera að þær svæfu allar hjá honum  - en að hver ein og einasta yrði líka ástfangin af honum fannst mér orðið dáldið vandræðalegt. Þegar þessi aríska útgáfa af Grace Jones úr öryggislögreglunni horfði á hann sofandi með tárvotum augum áður en hún fór í ræktina að beygja stál með berum höndum var mér eiginlega allri lokið. En samt...leiðinlegt að vera búin með þessar bækur – Salander er stórskemmtileg og sagan hörkuspennandi!

Á eftir Larsson kom Karin Fossum með Elsku Poona – afskaplega niðurdrepandi samfélagsádeila þar sem ég gat ómögulega ákveðið mig hvort væri skuggalegra – rasisminn eða kvenhatrið í þessum huggulega smábæ í Noregi. Þrátt fyrir þunglyndið var hún þó ekki gersneydd húmor og endirinn skemmtilega/óþægilega opinn.

Rasisminn og kvenhatrið halda svo áfram að blómstra í Rauðbrystingi Jo Nesbö og fullkomnast næstum í framhaldinu Nemesis. Þar er lögreglumaðurinn Harry Hole ekki bara drykkfelldur heldur blússandi alkóhólisti sem getur ekki einu sinni verið viss um að hafa ekki framið morð í blakkáti. Þorgerður sagði réttilega að plottið væri hin sterka hlið Nemesis og það sama á við um Rauðbrystinginn sem er brjálæðislega spennandi. Hins vegar varð ég næstum jafn æst yfir öllum innsláttarvillunum sem eru ekki eins mikil meðmæli – útgefendur: PRÓFARKALESA – ég bið ykkur á hnjánum! Þriðja bókin um Harry Hole er ekki væntanleg fyrr en 2011 svo ég sprakk á limminu og keypti fjórðu bókina á ensku – þriðja var ekki til. Nú er bara að vona að þessi uppstokkun eyðileggi ekki undirliggjandi auka atburðarás sem virðist ætla að halda áfram út í gegnum bækurnar...

Það er ófögur mynd sem Larsson, Fossum og Nesbö draga upp af skandinavísku samfélagi – en þó birtist vonin alltaf í formi þunglyndra og alkóhólíseraðra lögreglumanna (og stöku kvenna) sem þrátt fyrir allt eru prinsipp fólk sem leggur allt í sölurnar til þess að eitthvað réttlæti megi ná fram að ganga.

Maríanna Clara

1. júní 2010

Reyfara maí: Það sem ég sá og hvernig ég laug

imagesÍslenska sumarið loksins komið – steikjandi hiti í stofunni – dáldið kalt í garðinum – börn að leik fyrir utan svefnherbergisgluggann – vespur í vígahug fyrir innan hann og skólabækurnar rykfalla á kantinum á meðan glæpatíðnin ríkur upp – alla vega í sófanum hjá mér!

Nýjasta morðið sem þar var leyst er að finna í bókinni Það sem ég sá og hvernig ég laug eftir Judy Blundell sem Magnea J. Matthíasdóttir þýddi alveg prýðilega. Það er á köflum hreint ekki auðvelt þar sem aðalsöguhetjan, hin fimmtán ára gamla Evie, er oft að vitna í dægurlagatexta og kvikmyndir sem hún skilgreinir líf sitt í gegnum. Það kemur því í hlut Magneu að þýða gamalgrónar klisjur dægurmenningarinnar án þess að þær tapi víðri merkingu sinni. Í þeim tilvikum langaði mig stundum til að komast í „frumtextann“ en þar var ekki við Magneu að sakast – þýðing hennar er ljómandi fín.

Bókin gerist í bandaríkjunum skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari. Evie býr með móður sinni og stjúpföður í Queens og dreymir um að eignast það fullkomna líf sem auglýst er í kvikmyndunum: „Við Marge trúðum heitar á tímarit og kvikmyndir en kenningar kirkjunnar. Við vissum að ef við æfðum okkur nógu mikið myndum við einn góðan veðurdag reykja alvöru sígarettu með varalit og naglalakk í stíl frá Revlon á meðan Frank Sinatra syngi í eigin persónu fyrir okkur „Allt eða ekki neitt“.“

Mjög skyndilega fer svo fjölskyldan í frí til Flórída. Þetta er fyrir tíma loftkælingarinnar og því er Flórída bara draugabær á sumrin en gríðarlegur hitinn og lokuð hótel geta hvorki komið í veg fyrir fyrstu ástina né skuggalegt morð. Sagan kallast á við glæpamyndirnar sem Evie talar um og hin ægifagra móðir hennar verður fljótlega hreinræktað femme fatale í huga lesandans – blanda af Lönu Turner, Joan Crawford og Barböru Stanwyck.

Evie er barn að aldri þegar sagan hefst en hún neyðist til að fullorðnast fyrir bókarlok. Það er þó ekki laust við að barnaskapur hennar hafi á köflum verið örlítið þreytandi – það er vandratað einstigi milli þess að gera börn saklaus eða hreinlega heimskuleg. Of oft var lesandinn settur í hlutverk Sherlock Holmes meðan Evie var Dr Watson – lýsandi umhverfi sínu í smáatriðum og sífellt dragandi rangar ályktanir.

Engu að síður er bókin skemmtileg og spennandi þótt það hafi hvarflað að mér að hin glæsilega móðir Evie hefði verið skemmtilegri sögumaður á stundum.

Maríanna Clara