22. desember 2008

Bókabúðir í Kaupmannahöfn – annar hluti

Í Danmörku er auðvitað gífurlegur lúxus að kaupa bækur, jafnvel burtséð frá fljótandi íslenskum krónum. Eins mikið og Íslendingar kvarta yfir verði á bókum þá eru þær mun dýrari hér, sökum skattastefnu stjórnvalda. Hinum megin við Eyrarsundið er hins vegar hægt að gera kjarakaup á bókum, en það er önnur saga. Hér er þó ekki ætlunin að fjalla um verð á bókum í Kaupmannahöfn heldur fjalla áfram bestu bókabúðirnar í borginni, en þar má svo sannarlega gera margt annað en að kaupa bækur þó það sé óneitanlega fylgifiskur mikilla langdvala þar.

Politikens Boghal – Rådhuspladsen
Bókahöllin á Ráðhústorginu minnir mig svolítið á bókabúð Máls og menningar á Laugavegi, amk. áður en Pennaveldið gleypti hana. Innréttingarnar í Politikens Boghal eru mjög eighties, orðnar svolítið sjúskaðar og á rigningardögum þarf maður að passa sig að labba ekki niður fötuna sem stendur á miðju gólfi og tekur við nokkuð reglulegum vatnsdropum. Gersamlega óskiljanlegt þar sem bókabúðin er á jarðhæð fimm hæða húss. Hér er besta starfsfólkið í bókabúðum borgarinnar, það er svolítið veðrað eins og innréttingarnar en í hæsta gæðaflokki. Staffið veður náttúrulega ekki upp að manni og býður þessa gæðaþjónustu en hún er þó til staðar. Í búðinni er sérstakur rekki þar sem starfsfólkið hefur stillt fram áhugaverðum bókum að þeirra mati, þar er oft áhugaverður þverskurður og þau nösk að draga fram eitthvað sem annars hefði ekki fangað athygli manns.

Politikens Boghal var opnuð 1919 og er hluti af fjölmiðlaveldinu sem er bæði dagblaða- og bókaútgáfa. Hún er auðvitað staðsett á besta stað í bænum og iðulega full af ferðamönnum. Fyrst og fremst þarf ég reyndar að taka til baka að það sé meira af erlendum bókum í Arnold Busck. Framboðið af erlendum skáldsögum til dæmis er prýðilegt og nýjar bækur koma tiltölulega fljótt í sölu í Politikens Boghal. Eldri bækur fara hins vegar fljótlega niðrí kjallara og hafa ekki langan líftíma þar heldur. Bækur almenns efnis eru hins vegar fábreyttari hér en í Arnold Busck og heimsstyrjaldarbækur allsráðandi hér sem annars staðar. Ferðabókadeildin (hornið) er framúrskarandi, mikið úrval af fjölbreyttum útgáfum um öll heimsins horn. Lítil áhersla er lögð á barnabækur, einungis tveir rekkar hýsa þær. En það er líka allt í lagi, í borg sem býður uppá sérstakar barnabókabúðir.

Það er ekki kaffihús í þessari bókabúð og lítil aðstaða til nískulesturs. Það er einn stærsti galli búðarinnar, hún er satt að segja alveg að sprengja af sér húsnæðið þar sem lítið pláss er fyrir bæði bækurnar sjálfar og kúnnana. Niðursokkinn viðskiptavinur getur því hæglega lent í því að troða öðrum um tær. Í því samhengi má reyndar nefna að ég steig á tá Tommy Kenter í morgun. Gleðileg jól!

3 ummæli:

  1. Hljopstu ekki strax burt fra Tommy?

    "Tommy Kenter er vild med kvinder
    og er ligeglad med om hans kæreste er ti år yngre eller ældre"

    Thetta stendur i aviserne!

    SvaraEyða
  2. Já, ég las þetta einmitt í gær! Hann virtist þó aðallega vera ligeglad yfir nærveru minni. En ég reyni að móðgast ekki.

    SvaraEyða
  3. Af þessu tilefni finn ég mig knúna til að minnast á þegar Paul Auster steig á tánna á þér Æsa - sællar minningar!

    SvaraEyða