18. desember 2008

Þegar vonin ein er eftir

Árið 1978 var gefin út í íslenskri þýðingu, frönsk bók sem vakti mikla athygli. Bókin heitir Þegar vonin ein er eftir og er eftir Jeanne Cordelier. Markaðssetning á bókinni var um margt athyglisverð. Hún var upphaflega skrifuð sem skáldsaga, á Íslandi var hún eingöngu kynnt til sögunnar sem „bók“ en áhersla lögð á ævisögulega þáttinn, sem er svo sannarlega mikilvægur þar sem frásögnin byggir á reynslu höfundarins, en hún starfaði sem vændiskona um fimm ára skeið. Bókin er ekki beinlínis kynnt sem ævisaga en bókarkápu- og kynningartexta má lesa á þann veg. Þar kemur að minnsta kosti aldrei beint fram að um skáldsögu sé að ræða enda algengur misskilningur að raunveruleikinn sé merkilegri en skáldskapur.

Jeanne Cordelier fæddist í París árið 1944. Tvennum sögum fer af því hvort Jeanne Cordelier sé dulnefni, einhverjir vilja meina að hún heiti í raun Danielle Valdelin, en það er þó algerlega óstaðfest. Þegar vonin ein er eftir kom fyrst út árið 1976, hún var þýdd á 19 tungumál enda um forvitnilegt efni að ræða. Samkvæmt bókarkápu tekst Jeanne Cordelier að „segja allt og verða þó hvergi klámfengin. Hún reynir ekki að draga neitt undan en forðast samt að laða fram gluggagæginn sem leynist í sérhverjum lesanda.“ Kannski er eitthvað til í þessu en undirritaðar leyfa sér álykta að margir hafi nákvæmlega sýnt bókinni áhuga af þeirri, kannski ágætu, ástæðu að þeir hafi aðeins þurft að viðra gluggagæginn í sjálfum sér.

Um það leyti sem Þegar vonin ein er eftir kom út vann Jeanne Cordelier í verslun, en 1980 hélt hún til Svíþjóðar, stofnaði þar fjölskyldu og bjó þar í 17 ár. Árið 1997 yfirgaf hún Svíaríki ásamt fjölskyldu sinni og bjó eftir það meðal annars á Indlandi, í Víetnam, Eþíópíu og Albaníu, svo einhver af þeim 28 löndum sem hún hefur dvalið í séu nefnd. Árið 2004 sneri hún þó aftur til Evrópu og settist að í Frakklandi. Hún hefur skrifað býsna margar skáldsögur eftir að Þegar vonin ein er eftir kom út, nokkrar fjalla um ástarsambönd en einhverjar líka um kynferðislega misnotkun og ofbeldi. Hún hefur einnig skrifað nokkur leikrit og svo hefur Þegar vonin ein er eftir verið kvikmynduð. Myndin var sýnd í Háskólabíói árið 1983 og skartaði meðal annars Mariu Schneider sem lék sællar minningar í Bertolucci-myndinni Síðasti tangó í París.

Líf vændiskonunnar er ekki sveipað neinum dýrðarljóma í bókinni sem hér um ræðir. Bókarýnir Þjóðviljans benti á sínum tíma á að Jeanne Cordelier haldi því fram í bók sinni að 70% gleðikvenna Frakklands, og væntanlega annarra landa, komi úr lægstu stéttum þjóðfélagsins og úr sveitahéruðum, sem í Frakklandi séu lágstéttahéruðin. Einni af hverjum fjórum vændiskonum hafi verið nauðgað í æsku og þá oft af eigin föður. Hvort sem þetta eru félagsfræðileg sannindi eða ekki, eru þetta blákaldar staðreyndir úr lífi Cordelier sjálfrar. Sjálf ólst Jeanne Cordelier upp við ömurlegar aðstæður, faðir hennar var glæpamaður og móðirin drykkjusjúklingur. Hún kynntist ung melludólgnum Gerard sem var flottur í tauinu og ók um á glæsibifreið en séntilmennskuskelin var æði þunn þegar á reyndi. Aðalpersónan Sophie í bókinni kynnist einmitt melludólg með sama nafni sem nýtir krafta hennar óspart sér til framdráttar. Bókin virðist ekki síst skrifuð með það í huga að opinbera niðurlægjandi aðstæður vændiskvenna og áhrif vændiskaupa á stöðu kvenna almennt og á í því tilliti fullt erindi enn þann dag enda vændi síst á undanhaldi. Sophie prófar ýmislegt á vændisferlinum, hún stundar starf sitt á ýmsum stöðum, prófar bæði götuna og fínustu hótelin.

Stíll bókarinnar er nokkuð sérstæður. Frásögn Sophie er sett fram í fyrstu persónu og mikið um upphrópanir, stundum er einhvern veginn ekki ljóst hvern hún er að ávarpa; lesandann, aðrar sögupersónur, sjálfa sig eða æðri máttarvöld. Ætla má að það hafi ekki ekki verið neitt grín að eiga við að þýða þennan texta en það var Sigurður Pálsson rithöfundur sem fékk það verðuga verkefni. Sigurður lýsir í nýlegri endurminningabók sinni, Minnisbók, hvernig það gekk allt saman en skáldið bjó eins og kunnugt er í París og vann á þessum tíma sem fréttaritari Ríkisútvarpsins þar í borg. Það má eiginlega segja að Minnisbók sé sama marki brennd og Þegar vonin ein er eftir, hún er í raun endurminningabók en fékk hinsvegar verðlaun í flokki fagurbókmennta við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007. Það má þannig segja hún leiki einnig tveimur skjöldum

Sigurður Pálsson hefur samkvæmt Minnisbók ekki gert sér fullkomlega grein fyrir eðli og lengd bókar vændiskonunnar fyrrverandi, sem er um 360 blaðsíður, þegar hann tók þýðingaverkefnið að sér á sínum tíma. Hann þurfti að kljást við ýmis vandamál sem málfari bókarinnar tengjast, út í þau verður ekki farið nánar hér en þess má þó geta að þýðingarvinnan krafðist þess að hann skryppi á búllur og sæti að spjalli við næturdrottningar Parísarborgar.

Af Jeanne Cordelier er það að frétta að hún hefur haldið áfram að skrifa og jafnframt látið ofbeldi á börnum sig varða og hún tjáði sig meðal annars um Dutroux-málið svokallaða í Belgíu, en Marc Dutroux var kærður fyrir að ræna, pynta og misnota sex stúlkur kynferðislega og myrti tvær þeirra seint á síðasta áratug síðust aldar. Jeanne Cordelier tjáir sig oft á sérstakan hátt um skáldskap sinn en um franskar bókmenntir segir hún að mikilvægi þeirra megi meta með því að skoða áhrif þeirra á franska tungu, það er að segja á orðabækur. Sjálf ferðast hún aldrei án þess að hafa með sér að minnsta kosti eina orðabók og skýrir það á þann veg að eina bókin á heimili foreldra hennar hafi verið frönsk orðabók. Faðirinn notaði hana aðallega til þess að berja þau systkinin í höfuðið og sagði þá gjarnan „þarna kemur það inn.“ Ekki er vitað nákvæmlega hvað karlinn átti við með þessu en Jeanne Cordelier kýs að túlka á skáldlegan hátt og segir að þannig hafi öll orðin komist inn í höfuðið á henni.
Þorgerður og Þórdís.

2 ummæli:

  1. Það er spurning hvort við erum að festast í ógæfukvennaþemanu....:)

    SvaraEyða
  2. já, vindum okkur fljótlega í bækur um hamingjusama karlmenn

    SvaraEyða