Taschen gaf út á dögunum, í samvinnu við sænska útgefandann Max Ström, doðrantinn The Ingmar Bergman Archives. Það hlýtur nú að teljast doðrantur þegar bók vegur heil sex kílógrömm. Bergman studdi verkefnið og gaf ritstjórunum Paul Duncan (texti) og Bengt Wanselius (myndir) fullan aðgang að gögnum sínum. Enda er allt er viðkemur manninum að finna í bókinni; mikið magn ljósmynda, teikninga, dagbókabrot, útkrassaðar síður úr handritum og ekki síst viðtöl við leikstjórann, allt á sexhundruð blaðsíðum. Mikið af frásögninni er því frá Bergman sjálfum en greinar frá fræðimönnum og samstarfsfólki Bergmans (og ástkonum) gefa svo fleiri sjónarhorn. Bókinni er skipt upp í sjö kafla í tímaröð og eru allar kvikmyndirnar 62 teknar fyrir í smáatriðum. Bergman var ekki síður þekktur sem sviðsleikstjóri, t.d. af uppsetningum sínum á Strindberg, og í bókinni er mikið af áður óbirtum ljósmyndum af sviðsuppfærslum hans. Vinnu hans í útvarpi og sjónvarpi eru einnig gerð full skil. Bókinni fylgir svo DVD-diskur og bútur af upprunalegri filmu úr Fanny och Alexander fyrir Bergmannörda.
Þó að ég teljist varla innvígð í þann félagsskap tók ég á mig pílagrímsferð síðasta sumar ásamt manni og dóttur að leiði Bergmans á eynni Fårö við Gotland, sem var heimili hans í áratugi. Þar gerði hann fjölda mynda sinna eins og hina stórbrotnu Persona með leikkonunum Bibi Andersson og Liv Ullmann.
Það var skjannasólskin og heitt þegar við komum að kirkjunni í Fårö. Ég var orðinn útbelgd af dramatík og gjörsamlega tilbúin að finna anda meistarans koma yfir mig er heil rúta af svenssonum þusti frammúr okkur við kirkjuhliðið. Hersingin lagði undir sig garðinn og sextíu manns tóku mynd af leiðinu. Á meðan við biðum þetta af okkur tíndi dóttirin blóm af minna merkilegum leiðum, eiginmaðurinn réði spakur í rúnastein en ég, líkt og Elisabet Vogler Bergmans, horfði fjarrænt út á sjó. Reyndi að blokkera út háværar sænskar vangaveltur um hvað legsteinninn væri lítill og sjávargrjótið ómerkilegur efniviður. Í þögninni sem myndaðist eftir að hópurinn var farinn mátti heyra rollur jarma og skíta með látum í skjólinu undir kirkjugarðsveggnum. Þegar ég gekk loks að leiðinu var galdurinn horfinn. Við Vogler runnum ekki saman eins og Bibi og Liv í myndinni heldur út í sandinn. Legsteinninn var á endanum bara lítið grjót og sagði mér ekkert um Bergman.
Bókinni er allri hægt að fletta á taschen.com.
Krækjan á taschen virkar ekki hjá mér! Vantar mig kannski eitthvað forrit til að geta skoðað?
SvaraEyðaSlóðin er svona: http://www.taschen.com/pages/en/catalogue/film/all/00354/facts.the_ingmar_bergman_archives.htm
SvaraEyðaLeiðrétti slóðina sem hafði eitthvað skolast til í slagsmálunum við Blogger.
SvaraEyðaúff...taschen schnillingar...
SvaraEyða120 pund? Það eru hvað... mánaðarlaun? Úff, byrja strax að safna! Takk fyrir þetta - og vefinn.
SvaraEyða