31. mars 2009

Camilla Läckberg

Bækur keyptar í mars 2009: My Favourite Wife – Tony Parsons
Alle tiders supper – Amanda Cross
Mit pakistanske køkken – Rushy Rashid
The Emperor’s children – Claire Messud
Unaccostomed Earth – Jhumpa Lahiri
Revolutionary Road – Richard Yates
Sjöjungfrun – Camilla Läckberg

Bækur lesnar í mars 2009:
Konur – Steinar Bragi
Much Ado About Nothing – William Shakespeare
Mit pakistanske køkken – Rushy Rashid
My Favourite Wife – Tony Parsons
Sjöjungfrun – Camilla Läckberg
Shakespeare, Invention of the Human – Harold Bloom

Enn er ég við það heygarðshornið að lesa lélegar bækur og síðast kláraði ég bók sem er næstum óbærilegt að biðja um í sænskri bókabúð, sökum gífurlega hallærislegs framburðar á titlinum. Sjöjungfrun er sjötta bókin í Fjällbacka-flokknum sem fjallar um hina sí-óléttu Ericu og eiginmann hennar, lögguna Patrick. Hið sænska og síkáta nafn bókaflokksins er kennt við skítapleis fyrir norðan Gautaborg, þar sem Camilla sjálf ólst upp í og sviðsetur allar sínar bækur. Jätta trevligt.

Á undanförnum 10-15 árum hafa glæpasagnahöfundar sprottið upp eins og gorkúlur hist og her um Norðurlöndin, sumir þeirra ansi góðir, aðrir síðri eins og gengur. Markaðurinn fyrir glæpasögur frá Norðurlöndunum er gífurlega stór og margir höfundanna eru þýddir á mörg tungumál, ss. Hennig Mankell, Liza Marklund, Stieg Larson, Arnaldur, Viktor Arnar (uppáhaldið mitt), Ævar Örn, Yrsa, Kirsten Holst, Karin Fossum og fleiri sem ég kann ekki að nefna. Títtnefnd Camilla Läckberg hefur nú bæst í hópinn en hún gaf út sína fyrstu bók, Isprinsessen árið 2002 (þýdd á íslensku 2006), Predikanten (á ísl. 2007) kom út tveim árum síðar en síðan hefur komið ein bók á ári. Og þær verða bara verri og verri.

Ólíkt mörgum öðrum skandinavískum glæpasagnahöfundum leggur Camilla litla áherslu á þjóðfélagsvandamál eða félagslegt drama. Jú, það var reyndar aukapersóna, litla systir Ericu, sem átti mann sem lamdi hana – en það vandamál var svo sannarlega leyst á snaggaralegan hátt. Aðalpersónurnar Erica og Patrick eru frekar óspennandi og vandamál þeirra hjónabands frekar hversdagsleg. Það er athyglisvert að þau sofa aldrei saman en samt er Erica alltaf ólétt. Ég hefði alveg verið til í eina eða tvær kynlífslýsingar í staðinn fyrir nákvæmar og ítrekaðar lýsingar á grindargliðnum og þyngdaraukningu á meðgöngunni. Plottin sjálf eru frekar fyrirsjáanleg, það var bara í þarsíðustu bók,Tyskungen, sem plottið kom mér algerlega á óvart. Og það var augljóslega af því að einhver hafði sagt Camillu að þegar einhver sögupersóna „fyndist hún vera að gleyma einhverju mikilvægu en bara gæti ekki komið því fyrir sig“ gæti lesandinn alltaf flett 10 blaðsíður aftur á bak, fundið út hvað það væri og þ.a.l. fundið hinn seka. Sjöjungfrun slær allar hinar út í ófrumleika og lélegu plotti – hvaða djók er það að láta morðingjann vera skitsófren sem vissi ekki að hann hefði framið morðin?

Camilla Läckberg er slæmur rithöfundur, hún er afleitur glæpasagnahöfundur og hún er alltaf að birta myndir af sér með órætt augnaráð á blogginu sínu. Hún fer, eins og sjá má, frekar mikið í taugarnar á mér. Samt þarf ég að horfast í augu við sjálfa mig með það að ég hef ekki bara lesið allar bækurnar hennar heldur keypt þær líka. Svona er þetta.

12 ummæli:

  1. Hahh...

    Hér er hún líka tekin í ra.....

    http://www.dn.se/dnbok/prosapolisen-granskar-camilla-lackberg-1.750416

    SvaraEyða
  2. Mér finnst þetta skemmtilegt. Þ.e. hakkavélin, ekki bækur Camillu, þótt ég hafi e.t.v. fundið aðferð til að gera þær bærilegar, sem felst í því að eyða í mesta lagi hálftíma í lesturinn.

    Hún og Liza Marklund virðast vera í harðri samkeppni um leiðinlegustu aðalpersónuna (og reyndar bara leiðinlegar persónur almennt).

    SvaraEyða
  3. P.S. Hálftímaaðferðin felur líka í sér að það er auðvelt að skreppa út í bókabúð í hádeginu og lesa bókina þar án þess að sóa einni einustu krónu í hana!

    SvaraEyða
  4. Það er örstutt síðan ég byrjaði að lesa reifara (það var einfaldlega ekki til siðs í mínu ungdæmi) en þetta með „fyndist hún vera að gleyma einhverju mikilvægu en bara gæti ekki komið því fyrir sig“ er einmitt það sem gerir þessar bækur svo hallærislegar. Þetta má m.a. sjá í Brosmilda manninum eftir Henning Mankell (mjög vond bók) og líka nýjustu bók Arnaldar (djöfulan hún nú heitir). Og maður hugsar með sér, er þetta allt og sumt?

    SvaraEyða
  5. Hehe, í hvaða ungdæmi varst þú? Mitt fólk í Hafnarfirði sem er komið á eftirlaun hefur alla æfi bókstaflega étið reyfara.

    SvaraEyða
  6. Þegar þú (Æsa) ert farin að kalla eftir skandínavískri samfélagsgagnrýni þá veit ég að bókin hefur verið SKELFILEG!
    Þau Erica og Patric hljóma líka massa leiðinleg og grindargliðnun getur seint talist bókmenntaleg gulrót...Það fyndna er að ég var nú síðast í kvöld að því komin að kippa Ísprinsessunni (eða hvað hún heitir) með mér úr bókabúðinni - svona týpísk bók sem reyfarasökker eins og ég ætti að vera búin að lesa! Undirmetvitund mín hefur skynjað þessa síðustu Druslubókarfærslu þína - því ég hætti við!

    SvaraEyða
  7. Vil bæta við að mér fannst fyrstu Lizu Marklund bækurnar bara mjög skemmtilega en viðurkenni að ég gafst upp í þriðju eða fjórðu bók og þegar ég reyndi að grípa niður í þá næstnýjustu þá leið mér eins og ég hefði fallið í djúpt fen óhamingju og leiðinda...tek ekki upp hanskann fyrir hana...

    SvaraEyða
  8. Liza, Liza, Liza... hún tekur Skandinavísku þjóðfélagsmeinin alla leið.

    SvaraEyða
  9. Ef þú YRÐIR að velja - hvora myndir þú taka með þér á eyðieyju - Lizu eða Camillu?

    SvaraEyða
  10. Ég man þegar Camilla kom til Íslands. Þá var hún alltaf spurð hvernig hún gæti skrifað þrátt fyrir að eiga tvö börn. Það var eins og enginn hérlendra blaðamanna hefði heyrt af hinum sænsku dagis ...

    GK

    SvaraEyða
  11. Hmmm... persónuna eða bókina? Lizu líklega í báðum tilfellum. Nema ef við yrðum mjög lengi þar og ég neyddist til að éta ferðafélaga minn, þá veldi ég Camillu.

    SvaraEyða
  12. Ég vildi bara segja að ég fékk tár í auga við að sjá Harold Bloom nefndan.

    Ég hélt að ég væri einn um að lesa hann.

    SvaraEyða