19. apríl 2009

Pabbabækur

Á undanförnum misserum virðist hafa sprottið fram ný bókmenntagrein í Svíþjóð. Um er að ræða eins konar undirgrein sjálfsævisögunnar sem í sænskum fjölmiðlum gengur undir heitinu „pabbabækur“. Ekki er um að ræða skriflegar lýsingar ungra karlmanna á hversu stórkostlegt föðurhlutverkið sé, hve frábært að skipta um bleiur og sækja snemma á leikskólann (á slíkum skrifum er þó enginn hörgull á sænskum bloggsíðum) heldur einhvers konar uppgjör höfundanna við sína eigin feður. Þetta eru bækur um pabba sem eru í senn nálægir og fjarverandi, dálítið skrýtna pabba sem meina vel, elska börnin og eru elskaðir af þeim en standa þó ógnarlangt frá myndinni af hinum fullkomna og stabíla föður (einmitt þeirri sem birtist á áðurnefndum sænskum bloggsíðum). Pabbabækurnar virðast vera aðferð höfundanna við að sættast við æskuna, skilja feðurna og jafnvel syrgja þá því í flestum tilvikum eru umræddir pabbar látnir.



Kannski er betra að lýsa bókmenntagreininni með nokkrum dæmum. Bók Åsu Linderborg, Mig äger ingen, er gjarnan talin höfuð þessarar nýju bókmenntagreinar. Bókin kom út árið 2007 og var strax vel tekið, bæði af gagnrýnendum og öðrum lesendum. Þar segir Åsa frá uppvexti sínum með einstæðum og einmana föður af verkamannastétt, létt alkóhólíseruðum pabba sem kunni ekkert á tannburstun, reglulega matmálstíma eða hárfléttun en var þó hetja í augum dótturinnar. Í Karlstad Zoologiska segir Hanna Hellquist frá ævintýragjörnum pabba sínum sem lét sig hverfa og fór á flakk um heiminn svo mánuðum skipti, pabba sem elskaði dýr og fyllti bæði heimilið og hjarta dótturinnar af þeim en þótti svo ekkert sjálfsagðara en að keyra með þau út í skóg og skjóta þau með haglabyssu ef hann taldi það nauðsynlegt. Og í nýjustu pabbabókinni, Skynda att älska, segir ólíkindatólið Alex Schulman frá uppvexti með pabba sem var orðinn 57 ára þegar sonurinn fæddist. Hann lýsir geðstirðu gamalmenni, óttanum við dauðann og tilfinningunni að lifa ævinlega á annarri öld og í öðrum heimi en foreldrið.

Fyrir utan að eiga umfjöllunarefni og efnistök sameiginleg virðast margar pabbabókanna skrifaðar af höfundum sem þegar starfa við skriftir. Allar gangast þær við því að vera sjálfsævisögur þvert á það sem hefur verið áberandi á undanförnum árum þar sem færst hefur í aukana að slíkar bókmenntir séu skrifaðar undir merkjum skáldsögunnar. Bækurnar eru eftir bæði syni og dætur en samsvarandi mömmubækur virðast hins vegar ekki vera til. Í ritdómi sínum um bók Hönnu Hellquist segir gagnrýnandi Dagens Nyheter að kærleikur föðurins sé ekki eins sjálfsagður og móðurinnar, að hann útheimti að maður sé hans verður, eigi hann skilið. Hvort það er rétt skal látið ósagt en athyglisvert væri að heyra fleiri kenningar um skort á mömmubókum.

Nú veltir undirrituð hins vegar fyrir sér hvort flóðbylgju pabbabókanna hafi borið upp að Íslandsströndum. Í svipinn man ég sjálf aðeins eftir einni bók skrifaðri um pabba, nefnilega Myndin af pabba, saga Thelmu Ásdísardóttur skráð af Gerði Kristnýju. Án þess að hafa lesið þá bók grunar mig þó að hún sé ekki nándar nærri nógu ljúfsár til að flokkast sem pabbabók og eigi sennilega meira skylt með lífsreynslusögum þar sem lykilorðið er hryllingur fremur en angurværar minningar. Hvað segja druslubóka- og doðrantalesendur, detta þeim í hug einhverjar íslenskar pabbabækur?

9 ummæli:

  1. Í svipinn man ég bara eftir einu verki sem gæti fallið í þennan flokk og það er smásaga eftir Einar Kárason sem er í bókinni "Hvar frómur flækist".

    SvaraEyða
  2. Einhverskonar ég eftir Þráin Bertelsson fer nálægt því að vera pabbabók eins og hér er lýst. Og svo má ekki gleyma bókum SAM, Undir Kalstjörnu og þeim bálki öllum. Það er mikið uppgjör við föðurinn. Gunnar Gunnarsson var líka með feður og feðgasambönd á heilanum en það er önnur saga.
    Jón Yngvi

    SvaraEyða
  3. Það má nefna að nýlegt tölublað breska bókmenntatímaritsins Granta er helgað þannig skrifum: http://www.granta.com/Magazine/Granta-104
    Hermann

    SvaraEyða
  4. Hva, drap ég þessa ágætu umræðu? Þetta er frábært tölublað - burtséð frá spurningunni um annað sambærilegt á Íslandi.

    SvaraEyða
  5. Ég held að það sé nú nærtækara að segja að umræðan hafi aldrei farið á flug en að hún hafi verið drepin!

    En svona til að leggja orð í belg sjálf læt ég fljóta hér með að ónefndur maður benti á Mynd af ósýnilegum manni eftir Paul Auster í samhengi við pabbabækur. Hef ekki lesið hana sjálf en gæti trúað að hún félli ágætlega í flokkinn.

    SvaraEyða
  6. Hér finnst mér nú skautað býsna létt framhjá merkum ritverkum á borð við: Faðir minn, Bóndinn eftir Gísli Kristjánsson, Faðir minn, Skipstjórinn eftir Ingólf Árnason, Faðir minn, Kennarinn og Faðir minn, Skólastjórinn eftir Auðun Braga Sveinsson, í þessum annars ágæta pistli. Mér finnast raunar ekki margir komast með tærnar þangað sem Auðunn Bragi hefur hælana, nema einna helst Tryggvi Líndal.

    SvaraEyða
  7. Já, The Invention of Solitude eftir Paul Auster passar í pabbabókaflokkinn.

    SvaraEyða
  8. Já þú segir nokkuð. Ég hélt einhvern veginn að þessar bækur mætti frekar flokka sem upphafningu en uppgjör. En ef út í svona frásagnir er farið þá er auðvitað enginn skortur á mömmubókum, Móðir mín - húsfreyjan er alla vega til í nokkrum bindum.

    SvaraEyða
  9. Engin venjuleg mamma eftir Helgu Thorberg ... var það ekki ágætis uppgjörsbók við móður?

    GK

    SvaraEyða