1. júlí 2009
Bakaradrengurinn Proust og litflokkun bóka
Marcel Proust var einu sinni í selskap þar sem menn voru að ræða hvað þeir vildu vera í lífinu ef þeir væru ekki það sem þeir væru. Proust sagði að ef hann væri ekki rithöfundur þá væri hann bakari, honum fannst svo fögur tilhugsun að hnoða deig og brauðfæða fólk. Þetta fannst einhverjum mjög fyndið, þeir sem þekktu Proust og þeir sem hafa lesið eitthvað um hann, vita nefnilega líklega að hann hefði áreiðanlega ekki getað ristað sér brauðsneið þótt hann væri í þann veginn að deyja úr hungri. Proust var víst eiginlega alveg ósjálfbjarga hvað varðaði praktíska lífið, hann lét mömmu sína og vinnukonu sjá um flest það sem ofurviðkvæmir rithöfundar, sem liggja oftast sjúgandi upp í nefið í rúminu, þurfa til að lifa af.
Mér datt þetta í hug þegar ég rakst á þessa mynd af bókahillu um daginn á bókahórusíðunni. Ein af ritdömunum þar er búin að raða öllum bókunum sínum eftir lit. Það hvarflaði í alvörunni að mér í nokkrar mínútur að reyna að leika þetta eftir. Bókahilluvandinn er eilífðarpróblem heima hjá mér, það er sama hvað ég reyni að raða í stafrófsröð eða eftir einhverjum Dewey-amatörkerfum, alltaf enda bækurnar tvist og bast í tilviljanakenndri röð eða í stöflum og hrúgum útum allt hús eða þversum fyrir framan hinar bækurnar í hillunum. Það eina góða við minn bókavanda er að ég á frekar auðvelt með að láta frá mér bækur, ég gef miskunnarlaust bókakassa í nytjagáma Sorpu í þeirri góðu trú að þaðan rati þær í Góða hirðinn og í hendur einhverra sem þær þurfa. En semsagt þar sem allt er í steik hvað varðar röðun eftir höfundum og efni, er þá ekki bara dálítið smart að raða svona eftir lit? Ég byrjaði að raða eftir þessu sýstemi í litla hillu í stofunni (hugsanlega spilaði inn í framtakssemina að ég hef meira en nóg á minni könnu og á að vera að gera eitthvað allt annað en raða bókum eða skrifa hér ef út í það er farið). Í stuttu máli þá féllust mér hendur eftir sjö sekúndur, ég gafst upp eftir að hafa raðað fimm gulleitum kjölum í röð. Ég er alveg hætt við litaröðunina í bili. Þótt ég sé sannkallaður völundur og verksnillingur miðað við Proust þá ætla ég bara að sætta mig við að ég hef meira úthald og er betri í ýmsu öðru en bókaröðun og mun frekar einbeita mér að því sem ég er góð í.
P.S. Ef þið eigið áhugaverðar bókahillur (fagrar eða ljótar) sem þið viljið deila með lesendum þessarar síðu þá takið endilega mynd og sendið á bokvit@gmail.com og ég skal setja þær á síðuna svo við getum öll inspírerast.
úff, þessi hilla er skerí - eitthvað hræðilega anal við þetta flokkunarkerfi.
SvaraEyða