11. júlí 2009

Hvað lesið þið á klósettinu?

Pistilinn hér að neðan sendi Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, gestapenni Druslubókabloggsins, okkur og við kunnum henni ástarþakkir fyrir.

Allir kannast nú við klósettlitteratúr. En það kallast þær bókmenntir sem fólk tekur með sér á klósettið, eða geymir jafnvel þar og grípur til þegar það vill gera stykki sín (hefur e.t.v. harðlífi eða vill hreinlega bara sitja einhvers staðar í friði frá dagsins amstri).

Afi minn setti aldrei saman stökur nema hann færi á klósettið að "gera númer tvö" (eins og Ameríkanarnir segja, en afi kallaði einfaldlega "að skíta"). Sumir ráða krossgátur eða sudoku, en algengast held ég að sé að fólk lesi, ef það vill gera eitthvað annað en að stara út í loftið á meðan það sinnir kalli náttúrunnar.

Þórbergur las Gamlatestamentið, að mig minnir. Vinur minn einn sagði mér frá því að Bónus-ljóð Andra Snæs hefðu verið á klósettinu hjá honum mánuðum saman, en alltaf væri samt hægt að skemmta sér yfir ljóðunum og að þau liðkuðu fyrir hægðum frekar en hitt. Höfuðbókmenntagyðja þessarar síðu, Þórdís Gísladóttir, vitnaði síðast í gær í garðyrkjubók sem hún hafði lesið á klósettinu áður en hún greip þríforkinn og lét hann vaða í safnhauginn.

Kinnroðalaust segi ég frá því að síðustu vikur hefur bláa Skólaljóðabókin haft fastan sess á baðvigtinni minni og ég gríp gjarnan til hennar þegar ég sest á skálina. Nokkur ættjarðarljóð, meitluð æviágrip skáldanna og hringvöðvinn gleymir stund og stað:

Þrútið var loft og þungur sjór,
þokudrungað vor.
Það var hann Eggert Ólafsson,
hann ýtti frá kaldri skor.

Þrásetur á klósettinu eru ekki hollar og því verður lesefnið að vera hæfilega leiðinlegt, en samt ekki um of. Gjarnan má það líka vera í stuttum köflum svo að maður geti auðveldlega slitið sig frá því. Tilvitnanabækur hafa oft átt samastað á klósettinu hjá mér. Jafnvel þegar maður er bara að pissa, þá er hægt að grípa þrjár, fjórar góðar tilvitnanir og stökkva síðan glaðbeittur fram með tóma blöðru. Ef maður fer t.d. með ofurspennandi skáldsögu á klósettið getur það hent, sem henti mann skáldsins Hildar Lilliendahl um daginn, en hann gleymdi sér í sudoku og kom ekki fram af náðhúsinu fyrr en spúsa hans hafði hringt í björgunarsveitirnar. Sudoku eða spennusögur, það getur komið fyrir að maður sitji allt of lengi á skálinni og miklu lengur en maður á þangað erindi. Þá staulast maður kannski fram eftir klukkutíma, knýttur í herðum, með náladofa og byrjandi gyllinæð. Og ekki er það eftirsóknarvert.

En hvað segja lesendur? Hvaða bækur er best að lesa á salerninu? Hvaða bækur lesið þið?

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir.

13 ummæli:

  1. Ég er núna með World Air Power Journal Vol. 23.
    Steini

    SvaraEyða
  2. Hjá mér er fjölbreyttur litteratúr í körfu á salerninu. Allt frá Börnum og menningu, norskum kvennablöðum og garðyrkjuritum til ljóðabóka og raunvísindarita.

    SvaraEyða
  3. Skemmtilegast finnst mér að lesa tímaritagreinar um konur sem voru einu sinni spikfeitar en eru nú, eða þegar greinin er skrifuð, mjóar og hamingjusamar. Ég veit samt ekki hvers vegna þessi tegund af greinum höfða til mín þegar ég geri pú pú.

    SvaraEyða
  4. Í augnablikinu er ég að fá innblástur úr Amusing Ourselves to Death, en þaráður var ég helst að lesa The Book of Sand, ensk þýðing af síðasta smásagnasafni Borgesar. Svo er Íslensk Fyndni alltaf klassísk. Annars er ég með uþb 15 bækur í skáp á klósettinu.

    SvaraEyða
  5. Sýnir Hafsteins miðils eftir Elínborgu Lárusdóttur. Hún er það leiðinleg að engin hætta er á gyllinæð. Bleik kápan á skrambi vel við englana á baðherberginu.

    SvaraEyða
  6. Á náðhúsinu les ég eingöngu veðurskýrslur. Þegar allt er laust og liðugt les ég frá góðæristímabilum síðustu ára en þegar harðlífi herjar á mig les ég um harðindi og óórán fyrri alda. Þegar út yfir tekur harðneskjan aftan fyrir les ég um móðuharðindin.

    Sigurður Þór Guðjónsson.

    SvaraEyða
  7. Hvar fékkstu þessa mynd, Þórdís? Er hún tekin heima hjá þér? Átt þú þetta flotta Che-sturtuhengi? Svona langar mig í!

    Þórunn Hrefna.

    SvaraEyða
  8. Já, það er ansi flott þetta sturtuhengi. Ég fann samt myndina bara með hjálp Google.

    SvaraEyða
  9. Åmma mín las víst alltaf rómansa á salerninu en það var eini staðurinn sem hún get fengið stundarfrið fyrir 9 gríslingum.

    Sjálf hef ég aldrei lesið á klósetinu en stundum í bernsku voru haldnir fjölskyldufundir þar þó að einhver væri að sinna þörfum sínum enda er ég komin af mjög frjálslegu og ófeimnu fólki.

    I kvikmyndinni las karakter John Travolta alltaf Modesty Blaise á salerninu.

    SvaraEyða
  10. Aftanmóða þýðir víst niðurgangur. Því finnst mér skjóta skökku við, Sigurður, að þú skulir lesa um móðuharðindin þegar þú ert með harðlífi.

    kk
    Þórunn Hrefna.

    SvaraEyða
  11. Ég kem svolítið seint inn í þessa spennandi umræðu en held þó ótrauð áfram:
    Ég les allt á klósettinu - allt nema lánsbækur...finnst það einhvern veginn ekki smekklegt.
    Ef ég er milli bóka gríp ég oft uppflettirit eða bækur um kvikmyndir með mér inn...

    SvaraEyða
  12. Ég les ekki á klósettinu. Er ég mjög afbrigðileg?

    SvaraEyða