30. september 2009

Karitas í Gerðubergi

Er ekki um að gera að nýta þennan vettvang í "shameless self promotion"?

Líf og list: 100 ára vegferð Karitasar Jónsdóttur
Bókmenntanámskeið um verk Kristínar Marju Baldursdóttur.
Leiðbeinandi: Sigfríður Gunnlaugsdóttir


Bókmenntanámskeiðið er haldið í tengslum við Ritþing Kristínar Marju Baldursdóttur sem verður haldið í Gerðubergi 31. október n.k. Á námskeiðinu verður skyggnst inn í söguheim Karitasarbóka Kristínar Marju Baldursdóttur. Saga Karitasar er ekki einungis saga af langri og viðburðaríkri ævi einnar manneskju heldur saga íslenskrar þjóðar í 100 ár einsog hún hljómar af vörum konu sem hefur valið sér það hlutskipti að verða listakona.

Í sögunum er tekist á við lífið sjálft og því svo ótalmargt sem hægt er að velta fyrir sér; líf í sveit og borg, Ísland og umheimurinn, samskipti kvenna og karla, móðurhlutverkið, fjölskyldubönd, góðmennska og grimmd, einangrun, fjölmenni, listin í landslaginu og landslagið í listinni, og svo má lengi telja. Sagan, og þar með líf Karitasar og þjóðarinnar sem hún tilheyrir, er í senn raunveruleg og fjarstæðukennd: nákvæmar persónu- og staðarlýsingar vísa veginn inn í hugarheim Karitasar þar sem óreiðan og hið fjarstæðukennda og framandi er sjaldan langt undan.

Þessi mánudagskvöld í október munum við ganga saman inn í heim Karitasar: fjalla um persónur sögunnar, sérstaklega kvenpersónurnar, fjölskylduna og samfélagið, listamenn í íslensku samfélagi, og reyna að átta okkur á því hvað það er sem mótar og knýr Karitas áfram sem persónu og listamann.

Nánari upplýsingar: Guðrún Dís Jónatansdóttir netfang: gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is, s. 575 7006

2 ummæli:

  1. Gott mál. Og þessi vettvangur er okkar og hér megum við birta allt sem okkur langar!

    SvaraEyða
  2. Mjög áhugavert. Það hafa örugglega margir áhuga, þessar bækur hafa verið svo svakalega vinsælar.

    En, um allt annað, þetta er svolítið flott:

    http://www.anthropologie.com/anthro/catalog/productdetail.jsp?id=983285&catId=HOME-NEW&pushId=HOME-NEW&popId=HOME&sortProperties=&navCount=25&navAction=top&fromCategoryPage=true&selectedProductSize=&selectedProductSize1=&color=095&colorName=MULTI&isProduct=true

    kveðja, Kristín

    SvaraEyða