27. nóvember 2009

Adda á elliheimilinu?

AddaÍ síðustu viku var ég stödd á flóamarkaði úti á Granda og rakst þar á ritröðina um stúlkuna Agnesi Þorsteinsdóttur, öðru nafni Öddu. Nokkrum dögum áður hafði ég rekist á Öddubækur í Kolaportinu, þær dúkka reglulega upp í hillum Góða hirðisins og mamma á enn sín lúnu eintök sem við systurnar marglásum. Það er auðvitað eðlilegt að rekast á þessar bækur í hillum og kössum. Öddubækurnar, sem komu fyrst út á árunum 1946-1952, munu gegnum árin hafa verið prentaðar í um sextíu þúsund eintökum ef marka má nýlega frétt um enn eina prentunina. Já, nú hafa sem sé fyrstu tvær Öddubækurnar verið endurútgefnar einu sinni enn. Það er líklega gott og eðlilegt að klassík sé endurprentuð og sjálfsagt munu margar mömmur, ömmur og langömmur kaupa þessar bækur handa stelpunum sínum og gefa í jólagjöf.

Mig langar hins vegar að vita hvort ungviðið árið 2009 hafi áhuga á að lesa Öddubækurnar. Hinn heilsteypti munaðarleysingi Adda, sem ættleidd var af vönduðum hjónum (lækni og hjúkrunarkonu) og kynntist kornung hinum dökkjarphærða Páli, ábyrgðarfullum læknanema sem hún síðan trúlofaðist (og giftist örugglega líka þó að Adda giftist hafi aldrei komið út), er óneitanlega barn síns tíma og kannski ekki alveg sú kvenhetja sem á brýnast erindi í dag.

Það loðir við uppalendur að þeir telja það gott fyrir afkomendur sína sem þeim finnst hafa hentað þeim sjálfum á æskuárum. Kardimommubærinn var til dæmis sýndur nýlega,  kannski vegna þess að um er að ræða gott leikverk, en maður getur velt því fyrir sér hvort aðallega sé um að ræða nostalgíukitl fyrir foreldra. Öddubækurnar eru ágætar á sinn hátt en hugsanlega áttu þær sér sinn tíma sem ekki kemur aftur.

Nú heyrir maður reglulega að erfitt sé að fá mörg stálpuð börn til að lesa bækur, enda margskonar afþreying sem keppir við bókina. Ef við teljum bóklestur mikilvægan hlýtur að vera áríðandi að finna lesefni fyrir krakka sem skemmtir þeim og kveikir löngun þeirra til frekari lestrar. Það er nóg til af nýjum og spennandi bókum á markaðinum og ég spyr sjálfa mig hvort Öddubækurnar séu kannski bara sniðug jólagjöf handa ömmu?

Þórdís Gísladóttir

3 ummæli:

  1. Tja - ég veit ekki. En svona ,,boðskapslega" séð þá eru þær væntanlega ekkert verri en Ljósaskiptaserían alræmda sem ungar dömur (eins og mín 11 ára) gleypa í sig. Ég á enga Öddubók - en ef ég kemst í eintak er ég alveg til í að nota vesalings barnið sem tilraunadýr og athuga hvort henni finnst bókin skemmtileg. Kannski eru þær til á safni þorpsins, en það er næst opið á mánusagskvöldið...

    SvaraEyða
  2. Ég missti eiginlega alveg af Öddubókunum nema hvað ég fékk Adda trúlofast í jólagjöf þegar ég var tíu eða ellefu ára, 1967 eða 8. Fannst hún ekki sérlega spennandi þá og sé einhvernveginn ekki fyrir mér að hún hafi elst vel.

    SvaraEyða
  3. Ég bölsótaðist út í "Öddu trúlofast" á blogginu mínu um daginn. Sú bók var (e.m.k. í minningunni) verri en vistarbandið.

    Þá var mér bent á að bókin væri nú ekki alslæm - og það staðhæft að þetta væri fyrsta íslenska unglingabókin sem gerði ráð fyrir að söguhetjurnar svæfu saman fyrir hjónaband. Getur það verið rétt?

    SvaraEyða