2. desember 2009

Í fótspor afa míns

afi 2Í fótspor afa míns er miðjubók í endurminningaþríleik Finnboga Hermannssonar sem ólst upp á Njálsgötunni upp úr seinna stríði. Við mamma vorum báðar hrifnar af fyrstu bókinni, Í húsi afa míns, sem kom út i fyrra (ég held að mamma sé að endurlesa hana núna) og þessi er líka alveg ljómandi. Ég er logandi af forvitni um það  sem snertir sögu og mannlíf Reykjavíkur í gegnum tíðina og sakna líka mjög þeirra Reykjavíkurtíma ( sem ég að vísu upplifði aldrei) áður en borgin fylltist af úthverfabotnlöngum og fiskbúð, mjólkurbúð, skósmiður, rakari eða úrsmiður var á hverju götuhorni og menn byggðu sér skúra úr kassafjölum hér og þar án nokkurs samráðs við skipulagsyfirvöld. Svona bæ lýsir Finnbogi í stuttum köflum, hann segir hlýlega frá mönnum og bæjarlífi út frá sjónarhóli barns og rifjar ýmislegt áhugavert upp. Ég hefði alveg þegið nákvæmari lýsingar á fólki og borgarlandslagi og aðeins minni upplýsingar um bíla og sveitastörf (höfundur var að sjálfsögðu sendur í sveit) en textinn rann þó allur ljúflega ofan í mig.

Finnbogi er ágætispenni, fyndinn og stundum býsna kaldhæðinn, til dæmis þegar hann lýsir skólakerfinu sem menntaði fólk í fornum búskaparháttum, Íslandssögu Jónasar frá Hriflu og kenndi ljóð eftir dauða presta en hvergi var minnst á Nóbelsskáldið eða Jón úr Vör og eina nútímaskáldið sem ástæða þótti til að transportera á milli barnaskóla landsins var Kristmann Guðmundsson sem heimsótti skólabörn við lítinn fögnuð sumra.

Í fótspor afa míns er notaleg endurminningabók fyrir þá sem hafa gaman af að forvitnast um fólk og rifja upp hvunndagslíf og tungutak alþýðu á Íslandi kaldastríðsáranna.

Þórdís Gísladóttir

2 ummæli:

  1. Mér fannst Í húsi afa míns sérlega ljúf og skemmtileg bók og hlakka til að kasta mér yfir miðkaflann. Ég las fyrri bókina einmitt upp á elliheimili fyrir síðustu jól og hún vakti mikla lukku...
    Búandi á söguslóðum hef ég sérstaklega gaman af borgarlandslaginu og hefði jafnvel þegið gamalt kort til að sýna hvað var hvar - hvenær!

    SvaraEyða
  2. Þetta hljómar skemmtilega, ég þarf endilega að tékka á þessum bókum.

    SvaraEyða