3. desember 2009

Prófarkalestur

Blaðakona á Politiken skrifaði í fyrradag pistil um prófarkalestur á dönskum bókum. Danskir gagnrýnendur hafa lengi kvartað yfir hroðvirknislegum prófarkalestri nýrra danskra bóka og krafist betri vinnubragða. Forleggjarinn Johannes Riis hjá Gyldendal skýrir slakan prófarkalestur með því að það sé hreinlega svo erfitt að finna góða prófarkalesara í Danmörku. Allir prófarkalesarar forlagsins þurfa að taka próf  áður en til ráðningar kemur og þar fellur hver umsækjandinn af öðrum.

Ég les töluvert af gömlum íslenskum bókum og sömuleiðis helling af nýjum og án þess að ég hafi gert einhverja tölfræðiúttekt þá fullyrði ég að nýjar íslenskar bækur eru upp til hópa mun betur prófarkalesnar en flestar af þeim eldri. Ég held reyndar að prófarkalestur og frágangur sé almennt mjög góður á íslenskum bókum, allavega hjá stærri forlögunum (og reyndar oft hjá þeim minni líka). Hins vegar finnst mér textar margra vefmiðla ekki boðlegir ... en það er kannski önnur saga.

Þórdís

3 ummæli:

  1. Sumar auglýsingastofur og dagblöð mættu líka vanda sig betur þegar básúna á fullelduðum tíðindum.

    SvaraEyða
  2. Heldur betur - ég ætlaði einmitt að birta umrædda auglýsingu með færslunni en hún var eitthvað óþekk við mig.

    SvaraEyða
  3. Það getur vel verið að þær séu prófarkalesnar (þó ekki vel í öllum tilvikum). En mikið óskaplega vantar upp á að mörgum þeirra sé vel ritstýrt.

    SvaraEyða