13. júlí 2010

Frá loðnum leggjum til rakaðrar píku

Bókin Female Chauvinist Pigs eftir Ariel Levy kom út árið 2005. Undirtitill bókarinnar er “Women and the Rise of Raunch Culture”, en Levy notar raunch culture til að lýsa menningu sem er gegnsýrð af fagurfræði og gildum kláms/kynlífsiðnaðarins, menningu sem einkennist ekki bara af því að konur eru hlutgerðar, heldur af því að þær eru hvattar til að hlutgera sjálfar sig - og njóta þess.

Levy finnst þessi menning alltumlykjandi. Í sjónvarpinu útskýrir fatafella í g-streng hvernig best sé að fullnægja karlmanni með kjöltudansi. Úti á götu ganga stúlknahjarðir í lágum gallabuxum og flegnum magabol (rassa- og brjóstaskora sjáanleg, helst naflahringur líka) og oftar en ekki stendur PORN STAR á bolnum ef hann skartar ekki Playboykanínunni. Vinkonur höfundar telja það ekki bara sexý og skemmtilegt að horfa á aðrar konur strippa, heldur finnst það frelsandi, tengja það uppreisn og byltingu.

Þetta knýr Levy til að tala við konur og menn sem vinna á blöðum eins og Maxim eða við að gera þætti á borð við Girls Gone Wild (þar sem ungar konur fá stuttermabol og derhúfu í verðlaun fyrir að sýna brjóst, rass eða píku, eða að fara í sleik við vinkonur sínar) og The Man Show. Þá kemst hún að því að þau líta svo á að feministum hafi tekist ætlunarverk sitt, að jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Að við séum orðin nógu sterk og nógu frjáls til að taka klámmenningu opnum örmum. Að konur geti loksins verið eins og menn - við erum komin svo langt frá þessu fyrirbæri sem kallast kúgun kvenna að hún er ekki kúgun lengur, heldur bara eitthvað skemmtilegt sem bæði kynin geta notið.

Levy verður ringluð.

Female Chauvinist Pigs er bók sem fer víða í umfjöllun um þessa svokölluðu raunch menningu. Meðal annars veltir höfundur því fyrir sér hvernig hún hafi eiginlega orðið til og í því samhengi lítur hún til kvenfrelsisbaráttu og kynlífsbyltingu sjöunda og áttunda áratugarins. Levy skrifar um það hvernig Hugh Hefner og Playboy studdu feminista í baráttunni fyrir lögleiðingu fóstureyðinga og getnaðarvarnarpillunnar og hún fjallar um klofninginn sem varð svo innan feminismans yfir klámi. Sumir feministar eru með jákvæðara viðhof til kynlífsiðnaðarins en aðrir*, en allir telja sig þó vera að berjast fyrir auknu frelsi í kynferðismálum.

Það sem Levy hefur einna mestar áhyggjur af eru skorðurnar sem kynverund (sexuality) kvenna eru settar af raunch menningu. Ef skilaboð úr öllum áttum (sjónvarp, bækur, tímarit o.s.frv.) segja að g-stengur, sílikonbrjóst eða push-up brjóstahaldarar, rökuð píka, brúnka, gelneglur og súludans (hún fjallar svolítið um súlufimi sem er orðið vinsælt fyrirbæri þegar bókin kemur út) séu það sem æsir karlmenn og það sem sterkar og öruggar konur fíla, þá er lítið um frelsi til að mótast sem kynvera. Manni er þó gefin fölsk tilfinning fyrir frelsi eða vali: þú getur keypt þér latexgalla eða ljósbleikan fjaðrastreng, þú getur bundið manninn þinn niður eða verið tekin í doggy – en þetta er samt sem áður allt sami kynþokkinn. Ef þér finnst þetta ekki sexý, eða þú ert ekki sexý þegar þú skartar öllum þessum táknum kynþokkans, þá er það þitt vandamál. Þetta er samt það sem er sexý.

En hvernig er kvenrembunni, the female chauvinist pig, lýst? Í stuttu máli má segja að kvenremba sé kona sem telur sig „eina af strákunum“. Hún hefur marga eiginleika sem samfélagið metur mikils, en telur þá karlmannlega eiginleika og lítur niður á aðrar konur á sama hátt og karlremban gerir. Levy telur að það að vera kvenremba auðveldi konum að ná árangri á vinnustöðum þar sem mikið er um karla, enda leggur kvenremban áherslu á það að hún sé eins og karlarnir, en ekki tepruleg stelpu-stelpa eða stíf feministakerling. Kvenremban er svo borin saman við aðra týpu af konum sem getur náð langt í karlaheiminum, en það er konan sem staðfestir alla fordóma karla um konur og gerir út á kvenleika sinn.** Báðar þessar gerðir af konum eru „öruggar“og fyrirsjáanlegar.

Nú er kannski rétt að athuga að bókin fjallar að miklu leyti um árin 2000-2005. Dæmin sem Levy tekur í bókinni eru sum hver horfin úr daglegu lífi (það er svolítið síðan ég sá einhvern í porn star bol, en það var ekki óalgengt) og annað komið í staðinn. Það væri rangt að segja að menningin hafi gjörbreyst á fimm árum, að raunch menning sé horfin. Sjónvarpsþátturinn The Girls of the Playboy Mansion og nokkurnveginn allir þættirnir sem sýndir eru á E! Entertainment Television (sem næst í fjölvarpi hér á Íslandi) eru í anda raunch menningarinnar. Heitustu skór sumarsins 2010 eru með himinháa pinnahæla sem ég efast um að hafi sést áður nema á strippstöðum borgarinnar. Mér líður eins og þessi menning sé að einhverju leyti áhrifaminni en áður, en ég veit ekki hversu áreiðanleg sú tilfinning er – á tímabilinu sem Levy leggur áherslu á var ég þrettán til átján ára og varð fyrir sterkari áhrifum frá þessari menningu en nú.

Það gætir stundum nostalgíu í skrifum Levy, einhverri tilfinningu fyrir því að hún telji að allt hafi verið aðeins betra og allt hefði getað orðið betra ef (svona til dæmis) kynfrelsið sem feministar og aðrir unnu svo hörðum höndum að fyrir fjörutíu árum síðan hefði ekki verið gleypt af markaðinum og skrumskælt. En svona hugsanir eru ekki bara ógagnlegar, heldur líka blekking. Svona eins og þegar fólk talar um að allir hafi verið svo róttækir á hipptímabilinu, að allt hafi verið betra þá. Eða að börn hafi verið miklu þægari og heilbrigðari fyrir þrjátíu árum síðan - eða fimmtíu. Það er ekki þannig að einu sinni hafi verið til náttúruleg og góð kynverund sem er núna búið að spilla. Það eru engar „rætur“ sem við þurfum að finna aftur. Það þýðir samt ekki að við þurfum að lifa í þeirri blekkingu að við séum svo frjáls og opin.

Já, ókei, þetta er orðið allt of langt. En að lokum vil ég bara segja ykkur að lesa þessa bók. Hún er skemmtileg.

*Eins og Erica Jong, þekktur “sex-positive” feministi sagði: “The women who buy the idea that flaunting your breasts in sequins is power – I mean, I'm for all that stuff – but let's not get so into the tits and ass that we don't notice how far we haven't come. Let's not confuse that with real power.” (FCP, bls. 76)

** Levy fjallar um tvær týpur af svörtum mönnum í Uncle Tom's Cabin og ber þær saman við þessar kventýpur. Annars vegar fjallar hún um þrælinn George, sem er svo framúrskarandi persóna að hann kemst nálægt því að vera hvítur (“acts white”) - svona eins og kvenremban kemst nálægt því að vera karlmaður. Hins vegar fjallar hún um hinn trygga Tom frænda, sem er þræll með hjarta úr gulli, en seinni kventýpunni má líkja við hann: “An Uncle Tom is a person who deliberately upholds the stereotypes assigned to his or her marginalized group in the interest of getting ahead with the dominant group.” (FCP, bls. 105)

Guðrún Elsa

2 ummæli:

  1. Las þessa bók einhvern tímann. Oft er gert mikið úr því að vera hvítur karlmaður, brátt fer maður að hætta að skammast sín fyrir öll illsku verk kollega* sinna og dást að sjálfum sér. Hinir gera það, því ekki ég?

    *þ,e hvítir karlmenn

    SvaraEyða
  2. Hún ræðir það ekki sérstaklega. Ég skildi hana þó ekki þannig að hún teldi að allir menn væru hrifnir að klámi, heldur hefur hún áhyggjur af því að konur séu sannfærðar um þannig kynþokki sé sá kynþokki sem höfðar til karlmanna.

    Hún talar við bæði unglingsstelpur og stráka, þar sem viðhorfið hjá stelpunum var þannig að þær vildu fyrir alla muni að strákarnir tækju eftir þeim (og klæddu sig þar af leiðandi í efnislítil og "sexý" föt), en strákunum fannst þær í rauninni ekki þurfa að reyna svona mikið. Punkturinn var kannski: Strákar vilja sofa hjá stelpum, það skiptir ekki máli hvernig þær eru klæddar. Það sama gildir um fullorðið fólk.

    SvaraEyða