27. ágúst 2010
Reyfarasumri hallar...
Nú tekur reyfarasumarinu mikla að halla og svei mér ef ég hef ekki ofgert mér í glæpasögunum í bili (sem er kannski ekki skrítið þar sem ég sit nú föl og fá með tuttugasta krimmann í skjálfandi höndunum). Þetta lesefni hefur ekki gert ofsóknaræði mínu mikinn greiða en jafnvel á mínum bestu stundum lít ég áhyggjufull um öxl meðan ég feta varlega lífsins veg. Nú ligg ég andvaka á nóttunni og hugsa um hversu auðvelt sé að eyðileggja líf fólks – og hvað fólk sé ótrúlega grunlaust þegar slíkt gerist. En ég mun ekki fljóta sofandi að feigðarósi með ofsóknaræðið í farteskinu!
En í öllu falli – að loknum lestri á Rauðbrystingnum og Nemesis eftir Jo Nesbö þyrsti mig að sjálfsögðu í frekari fréttir af Harry Hole. Eftir þau válegu tíðindi frá útgefendum að næsta bók kæmi út 2011 festi ég kaup á The Devil´s Star og The Redeemer á ensku og tók þær með mér í sumarfríið.
Enska þýðingin reyndist vera ágæt og því ekki yfir neinu að kvarta þar og bækurnar sviku svo sannarlega ekki – það var rétt svo að ég mætti vera að því að skoða Colosseum í Róm því Harry Hole stóð í stórræðum og ekki á það hættandi að skilja við hann lengi í einu. Án þess að tíunda söguþráð bókanna er óhætt að segja að tveir stærstu erkióvinir Hole – Bakkus og Tom Waaler - herji á hann sem aldrei fyrr og lesandinn svitnar og rífur næstum þvældar blaðsíðurnar úr í flettingum (reyndar var 40 stiga hiti í Róm svo það spilaði mögulega inn í þvældu blaðsíðurnar). Ég mæli mjög með því að fólk lesi bækurnar í réttri röð því þótt einstakt sakamál sé leyst í hverri bók er tryllingslega spennandi þráður sem vefur sig áfram gegnum bækurnar og sér ekki fyrir endann á (ég er að sjálfsögðu búin að panta mér The Snowman).
Frá Harry Hole og herónínsjúklingunum við Grönland í Osló lá leið mín Kaupmannahafnar þar sem eiturlyfjastemningin féll í skuggann af mansali og illri meðferð á barnungum stúlkum. Aldrei framar frjáls eftir Söru Blædel er önnur bókin í flokknum um lögreglukonuna Louise Rick en sú fyrsta er Kallaðu mig prinsessu. Bókin er ekki jafn tryllingslega spennandi og bækur Nesbö en bætir að sumu leyti upp fyrir það með raunsæislegu og vonleysislegu andrúmslofti (fyrir suma hljómar þetta væntanlega ekki eins og spennandi uppbót). En þótt hasarinn sé minni en hjá Nesbö er ofbeldið og eymdin þó ekki skorið við nögl og dregur markvisst úr manni lífslöngunina.
Louise Rick er engin galdramaður eins og kollegi hennar Hole sem með lygilegu innsæi og ótrúlegri hörku tekst alltaf á endanum að yfirvinna hindranir. Hjá Blædel er lausnin eða niðurstaðan (ef kalla má bókarlok svo) ófyrirsjáanleg fyrir aðalsöguhetjuna ekki síður en lesandann og tilgangsleysi og ömurleiki atburða hefur áhrif á báða.Þetta rausæi nær lengra – á meðan Hole leysir málin meira eða minn einn – oftar en ekki á flótta sjálfur þá á starfslið dönsku lögreglunnar í stökustu vandræðum með að sinna grundvallar rannsóknarstörfum vegna niðurskurðar. Það þarf bæði mannskap og tíma til að staðfesta hitt og þetta og ef leyfi fæst til að grafast nánar fyrir um eitthvað atriði bitnar það iðulega á öðru máli. Hole er með puttann á undirheimapúslinum um leið og hann stígur inn á rónakaffihúsið sitt á meðan lögreglan í Köben gengur rauða hverfið fram og til baka í þrjá sólarhringa og reynir að fá fólk til að tala án þess að verða nokkurs vísari...hugsanlega hefur Hole meira street credit en Louise Rick eða þá að norskt ógæfufólk er málglaðara en það danska. En hvað sem líður trúverðugleika Harry Hole vermir hann þó sennilega enn toppsæti norrænu þunglyndis löggunnar í mínum huga – hvað get ég sagt – þetta eru stórskemmtilegar bækur!
Ólík áhersla Nesbö og Blædel á raunsæi og hraða gleður mig reyndar - þótt reyfararamminn sé þröngur er sem betur fer pláss fyrir ólíkar nálganir – jafnvel innan enn þrengri ramma skandinavísku samfélagsgagnrýnu samtíma glæpasögunnar!
Maríanna Clara
Engin ummæli:
Skrifa ummæli