Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um „Leyndarmál annarra“, fínu ljóðabókina hennar Þórdísar Gísladóttur, druslubókadömu með meiru. En þarsem mottó okkar druslubókadamanna er að við skrifum um þær bækur sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist og eins og okkur sýnist þá blæs ég á allar fyrri umfjallanir, hagsmunatengsl sem og næstum því tvíburastatus okkar Þórdísar og fer því hér á eftir lofrulla um bókina.
Það var auðvitað týpískt fyrir hana Þórdísi að vera nú ekkert að spýta því útúr sér við næstum því tvíburasystur sína að hún væri búin að skrifa heila ljóðabók, hvað þá að fá hana gefna út og næla sér í þessi líka huggulegu verðlaun í leiðinni. Ég veit ekki hvort þetta flokkast undir kvenlegt lítillæti eða bara almenna fælni þeirra sem fæddir eru í miðju krabbamerkinu. Sennilega frekar það síðarnefnda bara. Allavega, bókina skrifaði Norðurmýrarmaddaman og er vel að verðlaunum og útgáfu komin.
Ég las bókina, sem nota bene er ekki löng, í einum rykk og hef svo verið að glugga í hana öðru hvoru síðan – lesið úr henni ljóð fyrir hafnfirskar saumaklúbbskonur, opinbera starfsmenn og fleiri vel valda einstaklinga, sem allir hafa verið sammála mér í hrifningu minni. „Geðveikisbakteríur“ og „How to look good naked“ vekja sérstaka lukku á slíkum uppákomum! „Geðveikisbakteríur“ er náttúrlega ekkert minna er tær snilld, Icesave og allt það jukk verður hreinlega gruggugt í samanburðinum. Ég meina, hver getur keppt við tvílitar gjaldkerastrípur, innkaupakerruna og helvítis gasgrillið og bernaissósuna. „Hafnarfjörður á liðinni öld“ fannst mér líka meirháttar, kannski að hluta til vegna þess að ég kannaðist strax við það sem sögu úr kaffispjalli í Nýja Garði á gróðæristímabilinu þegar við Þórdís strituðum þar hlið við hlið og skemmtum okkur með því að segja sögur úr sveitinni.
En ljóðin eru ekki bara skemmtileg – ekki að það sé ekki nóg útaf fyrir sig. Það er þegar Sylviu Plath áhrifin verða hvað áþreifanlegust sem mér finnst Þórdísi takast hvað best til. Ég er ekkert að grínast með Sylviu og hennar áhrif. Veit líka að Þórdís fékk ítrekað þá einkunn í feisbúkkkvissum að hún væri Sylvia Plath endurborin, og varla lýgur fésbókin. Ljóðin „Félagslegt raunsæi“ og „Landakot“ finnast mér frábær og þar finnst mér ég sjá greinileg Plath áhrif. Sérstaklega er það síðarnefnda áhrifamikið en þar nær ljóðmælandinn algeru flugi í lýsingum á prestinum; útlitslýsingar svo næmar að innra landslag verður sem opin bók. Hápunkturinn er svo þegar hún gengur útúr kirkjunni og skyrpir í vígða vatnið. Ég segi ekki meir – er hægt að biðja um betra?
Sigfríður
Ég gaf sjálfri mér bókina um leið og hún kom út. Hún liggur hér á skáp í forstofunni/stofunni, þar sem allt smálegt er lagt frá sér í dagsins önn, lyklar, ógreiddir reikningar ofl. Ég las fyrstu síðurnar og líkaði vel en ákvað svo allt í einu að ég vildi geyma hana til jóla, en ég er næstum viss um að ég spring á næstu dögum. Hef svindlað amk tvisvar og lesið eina, tvær síður. Fer líklega fyrir þessari bók eins og sparikonfektkössunum. Ég er samt harðákveðin í að fara í bólið með Þórdísi á jólanótt...
SvaraEyðaÉg er búin að lesa hana a.m.k. þrisvar og skemmti mér alltaf jafn vel. Svo hafa aðrir fjölskyldumeðlimir notið hennar líka og bókin endaði á loftinu hjá elsta syninum sem er næstum meiri aðdáandi en ég og segir að þessi ljóð séu bíó. Vinir hans eru líka hrifnir. Það finnst mér töff!
SvaraEyða