24. nóvember 2010
Kvennabókmenntir og skvísubækur
Í viðtali við Jónínu Leósdóttur á vefritinu Pressunni er skáldsaga hennar Allt fínt, en þú? sögð tilheyra þeim flokki bókmennta sem kallaður hefur verið kvennabókmenntir. Þetta er vissulega rétt, þannig séð, þarsem það er erfitt að skilgreina bók eftir konu um konur og reynsluheim þeirra ekki sem kvennabókmenntir. En fyrir minn pedandíska þankagang þá er þessi flokkun ekki alveg að gera sig. Í mínum huga tilheyrir Allt fínt, en þú? undirflokkuninni skvísubók sem á hinni fögru engilsaxnesku tungu myndi útleggjast „chick lit“ án þess þó að falla kannski alveg inn í þröngan ramma þeirrar flokkunar. Ekki að það sé eitthvað aðalatriði að flokka allt niður í öreindir sínar – en það er kannski svolítið mikilvægt í þessu tilfelli því bæði byggt á því sem höfundurinn segir í áðurnefndu Pressuviðtali og bókinni sjálfri er ljóst að lagt er upp með að skrifa bók útfrá ákveðnum viðmiðum, segi kannski ekki alveg formúlu, og færa þau viðmið (eða formúlu ef vill) uppá íslenskan raunveruleika.
Jónínu ferst þetta ætlunarverk vel úr hendi. Bókin er fín skvísubók, þó kannski frekar fyrir aðeins eldri og heldri skvísur, og sagan gengur vel upp innan þeirra marka sem henni eru sett. Ég las hana í einum rykk, sem ekki gerist oft núorðið, og var vel sátt að lestri loknum. Það er eitthvað þægilegt við að lesa bók einsog þessa sem rennur vel áfram, er lipurlega skrifuð og fjallar – þó á eilítið ýktan hátt sé - um aðstæður og atburði sem flestir geta sett sig inn í, að hluta til að minnsta kosti. Mér fannst sagan í flesta staði mjög fyndin, þó auðvitað sé aðeins dökkur undirtónn. Það hefði t.d. verið auðvelt að gera úr endinum ofurvæmið drama, en Jónínu tekst þar að taka skemmtilegt spin sem að mínu mati gefur sögunni aukið vægi og gerir það að verkum að hún fellur ekki alveg í formúlufarið.
Í stuttu máli sagt: skemmtileg og fjörleg bók sem er vel þess virði að leggjast í lestur á.
Sigfríður
Engin ummæli:
Skrifa ummæli