19. desember 2010

Ljósa Kristínar Steinsdóttur

ljósaLjósa er þriðja skáldsaga Kristínar Steinsdóttur ætluð fullorðnum og sú fyrsta af því tagi sem ég les eftir hana. Sagan er hér um bil eins íslensk og skáldverk getur verið (þó sagt með þeim fyrirvara að ég las hana um borð í ferju í erlendri landhelgi og hafði þá ekki lesið skáldsögu á íslensku vikum ef ekki mánuðum saman). Sögusviðið er í sveit fyrir austan, seint á 19. öld og frameftir þeirri tuttugustu. Tvö stef fundust mér gegnumhrópandi: aðstæður kvenna í veruleika sögunnar, og aðstæður fólks með geðræn vandamál. Aðalpersónan Ljósa tilheyrir báðum þessum hópum og um það fjallar sagan - um örlög hennar, undirorpin þessum tilviljunarkenndu breytum utan hennar valdsviðs. Í uppvexti Ljósu kemur að því að hún, eins og öll börn fyrr eða síðar, áttar sig á breyskleikum foreldra sinna (og þar með því að enginn er fullkominn / allt er í heiminum hverfult / insert existensíalíska tilvitnun að eigin vali). Það tengist stöðu kvenna-þemanu á þann hátt að Ljósa þarf að horfast í augu við óforbetranlegt kvennafar heittelskaðs föður síns og vanmátt móður sinnar gagnvart því. Geðveiluþemanu tengist það þannig að þessi draugur bernskuheimilisins fylgir henni út ævina og veldur persónulegu óöryggi og skorti á trausti í samskiptum, en hún er auðvitað sérlega veik fyrir sökum þjakandi kvíða og þunglyndis. Veikindin valda því að Ljósa heldur allt að því sjúklega í hið kunnuglega úr bernsku sinni út ævina; bæjarstæðið, fjöllin, fólk og hindurvitni. Jafnframt þráir hún eitthvað allt annað og meira, en fylgir því aldrei eftir til fulls og þjáist enn meir fyrir vikið.

Þetta kann að hljóma heldur niðurdrepandi eða jafnvel melódramatískt, en bókin er hvorugt, heldur falleg og einlæg og vel skrifuð, það kom mér næstum á óvart hvað hún snart mig. Mæli hiklaust með.

Erla

Engin ummæli:

Skrifa ummæli