25. janúar 2011

Harðsoðnir jiddískir lögreglumenn



Mér datt í hug að nefna hér bók sem við Guðrún Elsa lásum í skólanum í fyrra og ég hef verið að lesa blaðsíðu og blaðsíðu í aftur upp á síðkastið, ef ske kynni að hún gæti orðið öðrum til ánægju. Það er The Yiddish Policemen´s Union eftir Michael Chabon, sem kom út árið 2007.

Þetta er harðsoðinn reyfari sem telst víst til vísindaskáldskapar ef marka má þær viðurkenningar sem hann hefur fengið, en sú flokkun helgast af því að sögulegt umhverfi bókarinnar er í hvað-ef-stílnum, það er að segja, seinni heimsstyrjöldin hefur farið öðruvísi í bókinni en hún gerði í raun og veru. Það skapar sögusviðið, landsvæði í Alaska þar sem gyðingar settust að í stórum stíl þegar þeir flúðu ástandið í Evrópu í seinna stríði, og hefur mikil áhrif á stílinn, því hann er skotinn alls konar jiddísku slangri og tekur mjög mið af þessum uppruna íbúanna.

Aðalsöguhetja bókarinnar er, samkvæmt harðsoðnu hefðinni, drykkfelldi lögreglumaðurinn Meyer Landsman, sem býr einn í herbergi á hóteli sem má muna sinn fífil fegurri. Landsman er, ekki jafn mikið samkvæmt hefðinni, mjög sympatískur gaur sem, þrátt fyrir að vera kaldhæðinn og orðheppinn harðjaxl, á við alvarlega myrkfælni að stríða og syrgir enn misheppnað hjónaband sitt og eitursvölu lögreglukonunnar Binu, en hún er jafnframt yfirmaður hans.

Ég ætla ekkert að fara út í söguþráðinn hér, það eru glæpir og spilling og grámi og harðir menn sem draga augað í pung og láta snjallyrðin fjúka, svona eins og við á. Þetta er bráðskemmtilegt tvist á harðsoðna reyfarann og áhrif hins jiddíska umhverfis krydda hann vel. Samkvæmt Wikipediu hafa Coen-bræður eitthvað verið að pæla í að kvikmynda bókina og það væri nú ekki leiðinlegt.

Í lokin langar mig svo að mæla með algjörlega ótengdu efni: þáttum Yrsu Þallar Gylfadóttur um dekadens í bókmenntum sem nú er útvarpað á Rás 1 á sunnudögum klukkan 10:15 (blessuð sé nútímatæknin sem gerir manni kleift að ná þeim síðar þótt maður sofi út). Tveir þættir hafa þegar verið fluttir og tveir eru eftir. Skemmtilegt efni og unaðsfögur úrkynjuð tónlist í bland.

Kristín Svava

Engin ummæli:

Skrifa ummæli