2. júní 2011

Skuggaleiðir í Nexus

Mér finnst svo gaman að fara í verslanir þar sem starfsfólkið hefur mikla þekkingu á vörunum sem þar eru seldar. Og ég held ég hafi aldrei farið í búð þar sem starfsfólkið hefur jafn yfirgripsmikla þekkingu á vörunum sem eru á boðstólnum og í nördabúðinni Nexus.

Við kærastinn fórum þangað um daginn og ætluðum að finna okkur eitthvert skemmtilegt borðspil, en úrvalið var þvílíkt að okkur féllust bókstaflega hendur og við hrökkluðumst tómhent í bókahornið. Þar kennir margra grasa og úrvalið meira en marga myndi gruna. Þar má t.d. finna verk Brontë-systra, allt höfundaverk Jane Austen stillt upp við hliðina á Pride, Prejudice & Zombies og svo auðvitað Twilight, stafla af bókum eftir Neil Gaiman og fullt fullt fullt af fantasíum.

Á meðan ég fletti myndabók eftir Audrey Niffenegger vatt starfsmaður sér upp að kærastanum og spurði:

„Get ég aðstoðað ykkur?“

Mig rekur ekki minni til að þetta hafi nokkurntímann hent mig í bókabúð áður, en við náðum að halda andliti og kærastinn sagðist vera að leita að einhverri skemmtilegri fantasíu.

„Viltu einhverja djúpa eða bara page turner?“ spurði afgreiðslumaðurinn.*

Kærastinn bað um eitthvað auðmelt.

Starfsmaðurinn benti honum á nokkrar bækur og sagði honum í stuttu máli frá kostum þeirra og göllum og mælti að lokum sérstaklega með einni sem heitir The Way of Shadows eftir Brent Week og er fyrsta bókin í þríleik. Við ákváðum að treysta sérfræðingnum og keyptum hana, þrátt fyrir að kápan væri svo lummó að við hefðum aldrei í lífinu valið hana úr hillunni sjálf.

Kærastinn spændi í gegnum hana á u.þ.b. tveimur sólarhringum þegar hann átti að vera að læra undir próf og fór strax að lestri loknum og keypti næstu tvær í seríunni. Þegar ég lagðist svo nýverið með ógeðslega flensu og gat loks á þriðja degi hugsað mér að gera eitthvað annað en að liggja uppi í rúmi með lokuð augun og hlusta á This American Life podcastið, þá otaði kærastinn bókinni að mér.

Og það var engu logið um flettihraðann, því það lá við að mig langaði að lengja veikindafríið og vera heima og klára bókina.

Söguþráðurinn er svo flókinn að ég nenni enganveginn að tíunda hann hér og leyfi mér því að stela beint frá Wikipedia-síðu bókarinnar.

The story takes place in Cenaria City, the capital of Cenaria, which is located in the fictional land of Midcyru. It centers upon Azoth, a guild rat who seeks an apprenticeship with Durzo Blint, the city's most accomplished wetboy (an assassin with slight magical talent, such as the ability to muffle sound, or to block an attack with your mind).

Plottið er meira að segja svo flókið og persónur svo margar að stundum vissi ég ekki alveg hvað sneri upp eða niður í sögunni, en einhvernveginn kom það ekki að sök.

Semsagt, hin fínasta afþreying í veikindum eða í ferðalagið, sérstaklega fyrir þá sem er komnir með leið á krimmum.

Og svo var hún svo billeg líka, kostaði ekki nema 1.199 kr.

Áfram Nexus!


*Auðvitað sletti hann á ensku, einsog allir alvöru íslenskir lúðar.

3 ummæli:

  1. Í Nexus er gott að (n)æra nördinn. Og nú langar mig að lesa þessar bækur.

    SvaraEyða
  2. Ég þarf að líta inn í Nexus við tækifæri. Hef ekki komið þangað í svona 4 ár.

    SvaraEyða
  3. Fantasíugeirinn er sérlega kápuheftur. Bækurnar verða ekki dæmdar af kápunni, sem gerir alla gullleit erfiða.

    SvaraEyða