6. júlí 2011

Utan við

Í huga mínum hefur Útlendingurinn eftir Camus lengi vel verið ein af þessum ofmetnu bókum sem fólk talar um með einhverri lotningu án þess að sérstök innistæða sé fyrir því. Einhvern veginn hafði ég myndað mér þessa skoðun vegna þess að ég las bókina sem unglingur, líklega svona 14-15 ára, og fannst hún ekkert sérstök. Alla vega skildi hún ekki mikið eftir sig. Eftir á að hyggja sé ég að ég hef verið of óþroskuð til að skilja hana.
Sem sagt ákvað ég að gefa bókinni annað tækifæri og las nýlega (2008) þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur í tvímála útgáfu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Færni mín í frönsku dugar því miður ekki til þess að ég hafi haft gagn svo einhverju næmi af tvímála útgáfunni en ég get vel skilið að slík útgáfa geti verið gagnleg. Og sjálfsagt gæti ég haft gagn af að rýna betur í hana ef ég tæki upp á að reyna að hressa upp á frönskukunnáttuna. En textinn í þýðingu Ásdísar er þegar á heildina er litið lipur og frágangur útgáfunnar vandaður.
Ég skal ekki fullyrða um það hvort ég sé núna orðin nógu þroskuð til að skilja Útlendinginn til hlítar. Það er ýmislegt í þessari bók sem erfitt er að fá botn í og þá sérstaklega söguhetjan, eða söguandhetjan, Meursault. Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn en sagan er öll sögð frá sjónarhóli Meursaults og gengur út á upplifanir hans. Það að skilja söguna hlýtur því að felast í því að skilja Meursault eða þá að draga einhverjar ályktanir um hann eða út frá honum. Lykillinn er því sá að fá persónuna Meursault til að ganga upp.
Meursault er sama um flest, hann virðist haldinn einhvers konar tilfinningalegri brenglun eða skorti á mannlegum tilfinningum, og hann er níhílisti eins og þeir gerast verstir, hefur engar skoðanir á neinu, stefnir ekki að neinu og lætur sig fljóta áfram á einhvern undarlegan hátt. Þó er sumt sem hann lætur sig einhverju varða. Hann vill til dæmis ekki flytja til Parísar þegar yfirmaður hans leggur það til, þrátt fyrir að hann virðist þjakaður af hitanum í Alsír og flutningur til Parísar ætti þannig að geta verið kærkominn. Meursault er jú mjög upptekinn af hinu líkamlega, flestar tilfinningar hans virðast snúast um hita, kulda, svengd og því um líkt. Tregðan til að flytja til Parísar verður ekki skýrð með því að Meursault sé illa við breytingar á lífi sínu ef horft er til þess að hann er alveg til í að gifta sig. Eins má benda á það sem Meursault verður tíðrætt um, að honum þyki ástkona sín, Marie Cardona, falleg. Einhvern veginn held ég að til að geta þótt eitthvað fallegt, hvað þá önnur manneskja, sé nauðsynlegt að hafa einhverjar tilfinningar.
Meursault er ekki fær um að skrökva, hvorki til að bjarga sjálfum sér né til að hlífa öðrum, og það kemur honum í koll á ýmsa vegu. Það er kannski fyrst og fremst þetta sem gerir hann utanveltu í samfélaginu, sem gerir hann að „útlendingi“. Ástæðan er hins vegar ekki sú að Meursault hafi einhverja sérstaka þörf fyrir að vera hreinskilinn og heiðarlegur því siðferðileg afstaða af nokkru tagi virðist varla vera inni á kortinu hjá honum. Hann hefur enga sérstaka skoðun á framkomu skúrksins Raymonds Sintès við fyrrverandi ástkonu sína og hikar ekki við að skrifa fyrir hann bréf til að ginna konuna til Raymonds svo hann geti lamið hana. Samband Meursaults og Raymonds gæti gefið til kynna að sá fyrrnefndi væri einhvers konar nytsamur sakleysingi en það er í raun ekki rétt lýsing. Það er villandi að kalla Meursault sakleysingja; hann er ekkert endilega að reyna að gera rétt eða vera góður og hann álítur Raymond ekkert endilega góðan. Hann virðist hreinlega ekki skeyta um rétt eða rangt nema þá að einhverju mjög takmörkuðu leyti.
Þó að Meursault sé óbærilega sannsögull er hann sem sagt ekki ein af þessum söguhetjum sem fletta ofan af tvöfeldni, yfirborðsmennsku og spillingu með hreinskilni sinni og skeytingarleysi um almenningsálitið. Satt að segja er álit annarra einn af fáum hlutum sem Meursault stendur ekki á sama um, en það kemur í ljós í seinni hluta bókarinnar þegar hann hefur verið handtekinn fyrir morð. Enn síður er Meursault að reyna að varpa ljósi á eitthvað; honum er svo nákvæmlega sama. En viðbrögð annarra sögupersóna við sannsöglinni sýna samt að hvaða marki ákveðinn leikaraskapur er talinn sjálfsagður. Og við getum velt því fyrir okkur að hvaða marki það er gott eða slæmt. Vissulega má segja að almennt sé ekki æskilegt að blekkja fólk eða tala þvert um hug sinn en í sumum tilfellum kann að vera betra að hlífa fólki við sannleikanum. Eða hvað?
Eitt sem Camus tekst svo sannarlega að gera með Útlendingnum er að vekja mann til umhugsunar um ýmsa þætti mannlegrar hegðunar. Eitthvað sýnir hann fram á um þær væntingar sem samfélagið hefur til fólks um sýndarmennsku. En persónan Meursault er samt það langáhugaverðasta við bókina. Aðrar persónur eru satt að segja fremur lítilfjörlegar og meira eins og leikmunir fyrir söguþráðinn. Það að Meursault sé að einhverju leyti ófyrirsjáanlegur (honum er sama um allt og alla…en ekki alveg allt) gerir hann einmitt áhugaverðari og líkari því hvernig fólk er í raun og veru. Við erum ekki fullkomlega fyrirsjáanleg og stundum hegðum við okkur á mótsagnakenndan hátt. Þó að Meursault sé öfgakennt dæmi þá sýnir hegðun hans í raun svo vel hvernig við erum oft sjálf; veltumst einhvern veginn áfram án þess að hugsa út í hvers vegna og án þess að hafa á því einhverja skoðun. Við gerum það sem við erum beðin um og gerum fólki til geðs „vegna þess að [við höfum] enga ástæðu til annars“.
Ég leyfi mér hins vegar að efast um að Útlendingurinn sé eitthvert mikið heimspekiverk. Það að nefna þessa bók sem einhvern sérlegan fulltrúa tilvistarstefnunnar, eins og stundum er gert, held ég að hljóti að vera byggt á misskilningi, enda gekkst Camus aldrei við því að vera exístensíalisti. Og þó að sögupersónan Meursault sé afar níhílísk þá verður ekki séð að sú stefna sé boðskapur bókarinnar. Það er kannski helst að hægt sé að kenna þessa bók við absúrdisma en bókin segir samt meira á eigin forsendum en sem boðberi heimspekistefnu. 

6 ummæli:

  1. Fín greining. Ég las þessa sögu, kannski aðeins eldri en þú, svona 16-17 ára og hreifst algjörlega af henni. Þarf greinilega að lesa hana aftur, því ég upplifði söguna ekki alveg svona eins og þú lýsir henni. Ég las hana reyndar á frönsku - veit ekki hvort það skiptir máli. Fæ bókina lánaða hjá þér við tækifæri :-)

    SvaraEyða
  2. Ég byrjaði á þessari bók síðasta sumar en komst einhvernveginn ekki langt...

    SvaraEyða
  3. Ég las þessa bók einhverntíma og var ekkert hrifin. Hins vegar er ég mjög ánægð með "Den första människan" sem ég las (að sjálfsögðu) á sænsku. Kannski ég skveri mér aftur í Útlendinginn við tækifæri.

    SvaraEyða
  4. Útlendingurinn er ein af þeim bókum sem ég hef lengi ætlað að lesa án þess að finna hjá mér sérstaka hvöt til að gera eitthvað í málinu; þessi færsla fær mig til að langa til að drífa í því.

    SvaraEyða
  5. Ég las Útlendinginn á ensku þegar ég var 21 árs og var í málaskóla í Sevilla. Það var lítið bókasafn í skólanum með örfáum skræðum á ensku, og ég komst fljótt í uppáhald hjá bókaverðinum þar sem ég las held ég næstum hverja einustu þeirra á þessum 8 vikum sem ég var þarna. Þar á meðal var Camus, sem ég náði frekar góðu sambandi við enda var þetta við upphaf absúrdismaæðis míns. Það væri gaman að lesa hana aftur núna, ég skil hana eflaust allt öðruvísi í dag en ég gerði árið 2002, í andalúsískum hausthita, með hárband og hippatösku.

    SvaraEyða
  6. Góð bók. Mæli samt frekar með gömlu íslensku þýðingunni en þeirri nýju, eftir Bjarna frá Hofteigi minnir mig (fyrir þá sem eru ekki svo heppnir að geta enn ekki almennilega lesið frönsku (ég þar meðtalinn)).

    SvaraEyða