12. ágúst 2011

Ástæðan fyrir því að ég elska YA-bækur

Ég er núna stödd í leiguíbúð í Frakklandi, og planið var að skrifa færslu um bókasafnið hér. Það er veglegt og yrði ef til vill efni í framhaldsfærslu eitt og sér, en þarsem ferðafélagarnir eru með allar myndavélar sem með eru í för einhversstaðar uppi í fjalli þá verð ég að fá að gera bókasafninu skil seinna.

Í staðinn ætla ég að skrifa um bækur (eða gerð af bókum?) sem ég er mjög hrifin af. Ég hef ekki fundið neina almennilega þýðingu á íslensku, en á ensku eru þær kallaðar YA-bækur (Young Adult), en mér finnst eiginlega ekki hægt að kalla þær unglingabækur. Þær eru held ég hugsaðar fyrir börn á aldrinum 11-18 ára, en hafa á undanförnum árum notið sívaxandi vinsælda meðal fullorðinna líka. (Prófiði bara að gúggla svolítið, það eru til fullt af fullorðinssíðum sem fjalla eingöngu um YA-bækur og einhverra hluta vegna virðast það nær eingöngu vera kvenkyns bókasafnsfræðingar sem halda þeim úti.)

Ég er, einsog áður sagði, afar hrifin af YA-bókum. Ég held það sé vegna þess að höfundar þeirra gera ekki miklar kröfur til þolinmæði lesanda og þessvegna kötta þeir yfirleitt krappið og koma sér beint að efninu. En í þeim bestu er samt ekki gefinn neinn afsláttur af umfjöllunarefnum og efnistökum. Þannig er hægt að fá flóknar og margbrotnar bækur sem takast á við heimspekilegar, tilvistarlegar og pólitískar spurningar sem eru samt skemmtilegar, læsilegar og spennandi og alveg fullkomlega lausar við langar og leiðinlegar málalengingar einsog má oft finna í fullorðinsbókum.

Meðal eftirminnilegustu bóka sem ég las á síðasta ári voru til að mynda YA-bækurnar í The Hunger Games trílógíunni eftir Suzanne Collins. Það er dystópísk saga um unglingsstúlkuna Katniss. Hún elst upp í alræðisríki og þarf að berjast við önnur börn í leikum sem er sjónvarpað um allt ríkið. Nema, baráttan er bókstaflega upp á líf og dauða, því börnin fá vopn í hendur og eiga að drepa hvert annað og það barn sem eitt lifir eftir stendur uppi sem sigurvegari. Sagan er í raun spennusaga sem er erfitt að leggja frá sér (ég og kærastinn lásum þær allar í rykk), en það þarf ekki að krafsa lengi í yfirborðið til að koma niður á þræði sem lesa má sem ádeilu á raunveruleikasjónvarp, kúgun, einræði, stríð, kapítalisma, efnishyggju og nýlendustefnu hvíta mannsins, svo fátt eitt sé nefnt. Og því meira sem maður pælir í sögunni, því betur áttar maður sig á því að það má lesa hana og túlka á ótalmarga vegu, sem er að ég tel það sem skilur á milli einærra bóka og klassískra.

Hunger Games trílógían væri sannarlega efni í viðamikla færslu, en ég læt mér nægja að mæla eindregið með henni til allra sem þetta lesa. Og ég bið ykkur vinsamlegast um að horfa ekki bara á Hollywood-myndina sem kemur út á næsta ári og láta þar við sitja heldur lesa bækurnar.

Og svo mæli ég líka með því að fólk lesi líka þessa grein og láti sannfærast um að tjékka á nokkrum vel völdum YA-bókum. (Hún er að sjálfsögðu eftir kvenkyns bókasafnsfræðing)

Ég er að lesa eina núna sem heitir The Book Thief og er eftir Markus Zusak. Þar er dauðinn sjálfur sögumaður og hann segir sögu stúlku sem elst upp í Þýskalandi á tímum nasismans. Það hljómar morbid, ég veit, en bókin er í senn skemmtileg, fræðandi, fyndin og sorgleg - enda frábærlega skrifuð.

Þið fáið kannski að vita meira um hana hér síðar.

8 ummæli:

  1. Þess má geta að 1. hefti Barna og menningar árið 2009 var með þemað "Barnabækur fyrir fullorðna - fullorðinsbækur fyrir börn" þar sem fjallað er um YA-bækur.

    SvaraEyða
  2. Já og Bókaþjfurinn er til í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar.

    SvaraEyða
  3. Jahá, þú segir nokkuð! Var það ekki örugglega kvenkyns bókasafnsfræðingur sem skrifaði þá umfjöllun?

    Og frábært að Bókaþjófurinn hafi verið þýdd á íslensku! Ég var líka að reyna að ota Hunger Games að útgáfustjóra barnabóka og stinga uppá því að þau myndu láta þýða hana.

    SvaraEyða
  4. Mig minnir að Bókaþjófurinn hafi verið markaðssett bæði sem YA-bók og sem fullorðinsbók. Mér fannst hún mjög góð.

    SvaraEyða
  5. Ég held það megi alveg kalla þær unglingabækur. Unglingabókin hefur ekki fengið þá uppreisn æru sem barnabókin fékk, en ég held hún eigi það alveg inni - og hluti af því er að nota þetta fallega orð, unglingabók, frekar en ungmennabækur eða YA-bækur, sem eru handónýt orð.

    SvaraEyða
  6. Bókaþjófurinn lá einhvern tíma frammi einhvers staðar þar sem ég þurfti að drepa tímann um stund og ég las byrjunina en fannst hún svo tilgerðarleg að ég fann enga hvöt hjá mér til að komast yfir bókina og halda áfram. Ætti ég að gera aðra tilraun?

    SvaraEyða
  7. Ég veit ekkert hvernig íslenska þýðingin er, en mér finnst enskan síst tilgerðarleg. Finnst stíllinn einmitt svo hreinn og fínn einhvernveginn. Kannski ættirðu að gera aðra tilraun, ég er a.m.k. stundum svolitla stund að komast inn í rytmann í bókum.

    SvaraEyða
  8. Ég las Bókaþjófinn líka í íslenski þýðingu og líkaði stórvel

    SvaraEyða