18. ágúst 2011

Bókabúðablæti: Króksfjarðarnes

Enn heldur hið sumarlega ferðaþema Druslubókadama áfram. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að fjalla um bækur á gististöðum, heldur bókamarkað við þjóðveginn. Gæti átt heima í frábærar-bókabúðir-flokknum – þótt ég hefði átt að asnast til að taka mynd! Finn ekki einu sinni neina mynd af búðinni á Google þannig að ég skelli bara inn mynd af nesinu sjálfu, séð yfir Gilsfjörð.

Það var á ferðalagi um Dali um verslunarmannahelgina sem við komum við á kaffihúsinu í Króksfjarðarnesi í þeim tilgangi að fá kaffi og vöfflu. Auk kaffisölunnar er þar að finna hefðbundið handverk úr sveitinni, en það sem vakti meiri áhuga minn var bókahornið (ásamt svolitlu vídeóhorni). Mér skilst að þetta séu einkum bækur sem sveitungar hafa komið með úr skápum sínum.

Mjög gott úrval er af allrahanda ástarsögum, heilu seríunum jafnvel, sem geta verið skemmtilegar að skoða en ég myndi seint nota hillupláss undir heima hjá mér. Hins vegar er þarna líka að finna almennari deild og þar kennir ýmissa grasa; ævisögur, skáldsögur og fræðibækur af fjölbreyttu tagi. Og allt á þessu líka góða verði.
Ég fjárfesti í þessum þremur bókum, fyrir sléttar sexhundruð krónur:

Fjarri hlýju hjónasængur eftir Ingu Huld Hákonardóttur. Stórfín bók um kynlíf og ástarsambönd á jaðrinum í Íslandssögunni, sem ég hlakka til að lesa aftur, og gefa jafnvel einhverju heppnu afmælisbarni við tækifæri.

Að breyta fjalli eftir Stefán Jónsson. Þessi bók hefur fylgt mér frá því ég var krakki og foreldrar mínir lásu fyrir mig valda kafla af prakkarastrikum Stefáns í barnæsku. Ég skemmti mér ekki síður þegar ég las hana alla eftir að ég komst til vits og ára, þótt hitt sitji óneitanlega fastast í minninu: þegar krakkarnir tjörguðu gluggana í torfbænum og heimilisfólkið hélt að það væri eilíf nótt og fór ekki á fætur fyrr en kopparnir fylltust, þegar krakkarnir hengdu dauðan kött innan um hangikjötið í reykhúsinu, þegar krakkarnir byrgðu reykháfinn... Ég keypti þetta eintak sérstaklega til að gefa vini mínum, en við höfum stundum haft það sem leik að kynna hvort annað fyrir einhverju frábæru (ég fékk síðast Les Liasions Dangereuses, en við höfum einnig kynnt hvort annað fyrir t.d. Sundhöllinni og skógarberjasorbet úr Melabúðinni).

Ástir samlyndra hjóna eftir Guðberg Bergsson. Ég hoppaði hæð mína þegar ég rakst á þessa, enda nýbyrjuð að lesa hana en þori varla að fletta gamla kiljueintakinu hans pabba af því að það hangir saman á teipi. Þetta er harðspjalda og orkan fínt – þvílíkur happafundur!

Ég má til með að nefna aðra bók sem ég keypti ekki en ein af konunum í afgreiðslunni sýndi mér – eintak af Hjónalífi, sem kona úr sveitinni hafði komið með daginn áður og hafði strax vakið mikla athygli í bókahorninu.

Eru ekki örugglega allir að fara að skoða Ólafsdalsskóla í ágúst? Kíkið í bókahornið í Króksfjarðarnesi!

4 ummæli:

  1. Mig langar líka í Að breyta fjalli! Ef þú finnur annað eintak þá máttu gefa mér það í afmælisgjöf!

    SvaraEyða
  2. Vá, þú varst stálheppin! Ég er lengi búin að vera að skima eftir bók Stefáns Jónssonar, hún er ekki tíður gestur hjá fornbókasölum.

    SvaraEyða
  3. Ég sá hana í Góða hirðinum um daginn (kilju). Ég hefði auðvitað átt að kaupa hana.

    SvaraEyða
  4. Ég lofa að gefa þér næsta eintak, Guðrún Elsa! Nema Ásgeir gefi þér hana þegar hann er búinn að lesa hana. Hann var held ég bara ánægður með gjöfina.

    SvaraEyða