Hafið þið lent í því að skilja eftir heima bækurnar sem þið höfðuð ætlað að lesa í sumarfríinu? Í síðustu viku þegar ég var komin í sveitina uppgötvaðist að lesefnið hafði orðið eftir á náttborðinu. Ekkert með, hvorki rafbók né kilja. Ég hafði safnað í nokkurn tíma í sumarleyfissjóð bókum til að gleyma mér í á meðan krakkarnir veltust um í guðsgrænni. Hvað það var dapurt að vera komin í sumarfríið og hafa ekkert að lesa. Þó var það kannski ekki alveg rétt því að á þessu gamla menningarheimili var nóg af bókum. En eins og Eyja fjallaði um í grein sinni um bókasöfn á gististöðum þá krefjast bókasöfn sumarhúsa mikils af lesendum sínum.
Hér voru fastir liðir eins og eintak af Frú Curie og náttúrulega Sara Lidman, Sonur minn og ég. (Hvað hafa eiginlega mörg eintök selst af þeirri bók og hvaða bók er þetta eiginlega? Lidman er svo sum ágætlega þekktur sænskur rithöfundur en kann einhver að útskýra hvers vegna hún er í öllum bókaskápum eldri ættingja?) Allavega, í skápunum voru svo æviminningar, sveitalýsingar og árbækur en ekkert sem mig langaði að lesa. Að vísu var þarna Ævintýrið frá Íslandi til Brasilíu eftir Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, sem ég hef lengi ætlað að lesa en ekki komist í eintak fyrr, en gat svo ekkert fest hugann við harðærisveðurlýsingar nítjándu aldar: „[n]æsta sumar, 1848, var eitt það bágasta og gerði snjó í hverri viku. Mikill hafís um vorið og lá við land fram á mitt sumar“. Langt frá léttmetis sumarlesningunni sem hafði verið plönuð.
En ég þurfti ekki að barma mér því ég var í netsambandi og alnetsbókaskápurinn (öhm) stóð mér til boða. Það tók bara andartaks leit og búið var að hlaða niður Name of the Wind eftir Patrick Rothfuss, fantasíu trílógía sem reyndist afbragðs sumarlesning.
Helga Ferdinandsdóttir
Einu sinni var víst alvöru bókmenntaumræða á Íslandi og skáldin eitthvað í áttina að poppstjörnum. Sara Lidman var aktívisti og rithöfundur, hún var umtöluð, kom í íslandsheimsókn, var þýdd og fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Nafn hennar kemur upp hátt í 300 sinnum á timarit.is því um hana var fjallað af alvöru í íslenskum blöðum. Seiseijá
SvaraEyðaMig hefur einmitt lengi langað að lesa Ævintýrið frá Íslandi til Brasilíu. Þessar Brasilíufarir eru svo skemmtilega flippaðar, og kemur manni álíka spánskt (hoho) fyrir sjónir að til séu afkomendur Íslendinga í Brasilíu og að dönsk áhrif sé að finna á Karíbahafseyjum. Þessi lokaritgerð gæti líka verið áhugaverð: http://simnet.is/org/vidtol-10.htm
SvaraEyða