15. ágúst 2011

Bókasöfn á gististöðum, 4. þáttur

Í augnablikinu er ég stödd í Danmörku. Nánar tiltekið í sumarhúsi í Slagelse við vesturströnd Sjálands. Ég er búin að hlakka til þessarar ferðar í allt sumar og alveg sérstaklega til þess að geta nú skrifað einn þátt í hina merku og epísku pistlaröð „Bókasöfn á gististöðum“. Þið getið því rétt ímyndað ykkur skelfinguna sem greip um sig þegar ég hafði tekið einn rúnt um þetta annars vel búna sumarhús og sá mér til skelfingar ekki eina einustu bók. Önnur yfirferð leiddi þó í ljós að í raun eru alls sex bækur í húsinu. Fyrstar ber að telja fjórar matreiðslubækur frá versluninni Netto: Grill under åben himmel, Kaffe & kage, Mit køkken og Sundt og lækkert. Að auki eru hér tvær barnabækur, Laura, Leo og sørøverne og Hunden der ville være kat. Ég er bara búin að lesa þá um hundinn og verð að segja að hún var ekki alveg nógu góð. (Til dæmis kemur glögglega í ljós við lestur bókarinnar að hundurinn vill alls ekki vera köttur eins og titillinn gefur til kynna heldur neyða kettirnir hann til að haga sér eins og þeir. Það mætti auðvitað leggja stórkostlega út af þessu og tengja við réttindabaráttu hvers kyns minnihlutahópa en ég leyfi mér að hoppa yfir þá greiningu.)

Guðsblessunarlega tók ég með mér mitt eigið lesefni. Í farteskinu eru þrjár bækur. Í fyrsta lagi er það fjórða bók sænska glæpasagnadúósins Roslund og Hellström, Flickan under gatan. Roslund og Hellström hafa skrifað fimm bækur um lögreglumanninn Ewert Grens og ég er búin að lesa bækur eitt til þrjú og svo þá fimmtu í þessari bókaröð. Nú er ég sirka hálfnuð með þá fjórðu og finn sterklega á mér að úr verði bloggpistill í náinni framtíð.

Nú svo er ég með bókina One day sem Þórdís bloggaði um hér. Ég varð svo inspíreruð af hennar orðum að ég kom við í ensku bókabúðinni í Uppsölum á leið úr landi og kippti með mér eintaki á frummálinu. (Enska bókabúðin er annars klárlega efni í bloggpistil í röðinni um skemmtilegar bókabúðir!)

Þriðja bókin sem ég er með var líka keypt í ensku bókabúðinni og heitir The Birth of Love eftir Joanna Kavenna. Ég greip hana í einhverju bríaríi af borði fyrir nýlegar verðlaunabækur sem stóð við kassann í búðinni og renndi yfir káputextann meðan ég beið eftir að röðin kæmi að mér. Þar kemur fram að frásögnin flakki milli þriggja sögusviða, vitleysingahælis í Vín á 19. öld, samtíma London og óhugnalegrar framtíðarsýnar. Allar sögurnar tengjast fæðingum á einhvern hátt og það voru einmitt orð einhvers gagnrýnanda sem vitnað var til aftan á kápunni um þetta sem kveiktu í mér. Hann segir (og ég leyfi mér bara að hafa þau óþýdd þar sem stórfjölskyldan stendur öll fullklædd á dyraþrepinu og bíður eftir mér): „Literature is full of death and sex, but the third part of the elemental trilogy that defines our lives – birth- is relatively absent. Joanna Kavenna’s novel changes all that.“ Þótt ég hafi keypt bókina verð ég að játa að ég er ekki alveg sannfærð. Einhvern veginn óttast ég dálítið að þetta sé aðallega bók fyrir svona kellingar sem hafa unun af að velta sér upp úr fæðingasögum og hefja móðurhlutverkið upp til skýjanna (ég tilheyri þeim hópi reyndar örugglega sjálf þannig að ég hef væntanlega ekkert að óttast!). En mig langar eitthvað svo ótrúlega til að þetta takist, að það sé til góð skáldsaga sem fjallar um hið magnaða fyrirbæri fæðingar á vitrænan hátt, þannig að ég gef þessu séns. Bloggpistill fylgir!


1 ummæli:

  1. Gvuð, hvað ég þekki þetta að allir séu tilbúnir og maður á enn eftir að ýta á publish ;).
    Helga Ferdinands

    SvaraEyða