Í þeirri góðu trú að lesendur séu ekki búnir að fá sig fullsadda af greinaflokknum Bókasöfn á gististöðum bæti ég við áttunda þætti.
Það er gaman að koma á næturstað sem er stútfullur af nýjum og spennandi bókum - en það er líka svo notalegt að hitta þar fyrir gamla og góða vini. Á dögunum rakst ég á vinkonu mína Guðrúnu frá Lundi í heimilislegum bókaskáp. Þar sat hún innanum titla á borð við Íslenzki bóndinn, Miðilshendur Einars á Einarsstöðum og Hinsta sjúkdómsgreiningin. Þar mátti líka finna níu ástarsögur eftir Bodil Fosberg í þýðingu Skúla Jenssonar, Dagbók Berts og Vetrarbörn eftir Deau Trier Morch. Þar var líka að finna ákaflega furðulega sögu sem ber titilinn Á miðum og mýrum eftir Rögnvald nokkurn Möller. Meira af henni síðar.
Dalalíf var lengi ein af mínum eftirlætis sögum. Ég hafði það fyrir reglu að lesa hana alla einu sinni á ári - alltaf í maí, en líklega eru nærri tíu ár síðan síðast. Það var því kærkomið að bregða sér í Hrútadalinn og hitta þar fyrir kvennabósann Jón á Nautaflötum, hina fragílu eiginkonu hans Önnu, Þóru í Hvammi og hennar fúllynda eiginmann og alla hina.
Guðrún frá Lundi var miklu vinsælli en allir samtímarithöfundar hennar karlkyns til samans leyfi ég mér að segja. Hún var komin á efri ár þegar hún settist við skriftir og var þá óstöðvandi. Bækurnar voru í stöðugu útláni á bókasöfnum og seldust í ótrúlegum upplögum. Mörgum fannst nóg um og töldu að fólk ætti nú frekar að halla sér að Nóbelsskáldinu en lúra í kjöltu skagfirskrar kerlingar. Guðrún fékk ábyggilega aldrei ritlaun þrátt fyrir ævintýraleg afköst og miklar vinsældir. Í seinni tíð hefur hún hlotið einhverja viðurkenningu og meðal annars hafa verið haldin tvö fjölsótt málþing um verk hennar á heimaslóðunum í Skagafirði.
Guðrún frá Lundi var góður rithöfundur. Hún hafði látlausan stíl, bjó til minnisstæðar persónur og Dalalíf er aldrei leiðinleg þó hún telji hátt í 2000 blaðsíður. Ég þarf ekki mikið meira.
Dalalíf í maí hljómar kunnuglega. Ég þekki allavega nokkrar konur sem lesa Dalalíf gjarnan á sauðburði. Var það líka tilfellið hjá þér, Hilma?
SvaraEyðaÉg las Dalalíf í skáldsagnanámskeiði í HÍ á sínum tíma og þótti ágætis lestur, en ég man samt nákvæmlega ekkert úr þessu.
SvaraEyðaÞetta er náttúrlega dulítil svona sápa - af góðu tagi. Ég var búin að gleyma mörgu úr söguþræðinum þrátt fyrir að hafa lesið þetta oft og mörgum sinnum en allar persónurnar eru minnisstæðar. Og já... þetta var afskaplega fín næturlesning á sauðburði!
SvaraEyða