Munro er fædd í Ontario 10. júlí 1931 og varð því áttræð á dögunum. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skrif sín og árið 2009 hlaut hún Man Booker verðlaunin fyrir ævistarfið og við Nóbelsverðlaunin hefur hún hefur verið orðuð síðustu 30 árin eða svo.
Munro er oft talin til bókmenntagreinar sem hefur verið nefnd Southern Ontario Gothic þar sem áhersla er lögð á ákveðna tegund félagslegs raunsæis. Margar sögur Munro lýsa erfiðleikum, fátækt, óblíðri náttúru og á stundum frumstæðum lífsskilyrðum í dreifbýli Kanada um miðbik 20. aldar en slík „vandamál“ virðast þó ekki vera það sem mestu máli skiptir hjá Munro, þau eru ekki í sjálfu sér til umfjöllunar þó þau varpi vissulega ljósi á persónur og þróun þeirra. Hér er kastljósið frekar á annars konar baráttu – baráttu fyrir að finna eigin rödd í umhverfi sem ekki endilega styður slíkar aðfarir.
Gotneska stefna suðurríkja Bandaríkjanna lýsir oft mögnuðum (jafnvel yfirnáttúrulegum) atburðum en ólíkt forvera sínum, gotnesku skáldsögunni, er tilgangurinn ekki að framkalla hrylling eða spennu heldur að kryfja og varpa ljósi á samfélag og menningu suðursins. Southern Ontario gotneskan er náskyld þeirri bandarísku og í báðum tilvikum ræður bælingin ríkjum - undir sléttu yfirbragði kalvínisma skosku öldungakirkjunnar (e. presbytarian church) blómstra hræsni, kynþáttafordómar og kynjamisrétti sem reynst hefur Munro drjúgur efniviður. Munro, ásamt öðrum kanadískum höfundum á borð við Margaret Atwood og Robertson Davies, hefur löngum talist til þessarar stefnu.
Munro skrifar fyrst og fremst smásögur og þykir meistari þeirra. Hver saga er þó svo þétt og efnismikil að í hugsun sprengja þær oftar en ekki af sér bönd smásögunnar og verða í minningunni eins og skáldsögur. Smásögur hafa löngum átt undir högg að sækja í samanburði við skáldsöguna og oft var sagt um Munro að úr því henni gengi svona vel með smásögurnar væri undarlegt að hún reyndi sig ekki við skáldsagnaformið – rétt eins og smásagan væri einhvers konar æfing fyrir alvöru lífsins, skáldsöguna. Í nýjustu bók sinni, Too Much Happiness, frá árinu 2009, gerir Munro grín að þessari endalausu (og kannski fremur tilgangslausu) umræðu þegar hún lætur eina persónu sína verða fyrir vonbrigðum þegar bók reynist vera smásagnasafn – viðkomandi finnst það rýra gildi verksins og gera höfundinn að einhverjum sem eins og hangi úti við hlið helgidóms Bókmenntanna – ólíkt skáldsagnahöfundum sem sitja þar öruggir fyrir innan. Gagnrýnendur og fræðimenn eru raunar ekki á einu máli um hvort flokka eigi skáldskap Munro sem smásögur þar sem svo gríðarlega miklar sögur þykja rúmast á fáum blaðsíðum. Rithöfundurinn Alex Keegan sem skrifað hefur um verk Munro afgreiðir þó þessar vangaveltur með orðunu: Who cares? Eða hverjum er ekki sama? Skáldskapur hennar er magnaður hvernig svo sem hann er flokkaður.
Því er hins vegar ekki að neita að skrif Munro eru ótrúlega þétt og hún er t.d. snillingur í að draga upp gríðar sterkar og sannfærandi persónur í einni setningu. Persónur sem maður þykist vera búinn að átta sig á og negla niður breyta skyndilega þvert á hugmyndir manns eða segja skyndilega eitthvað sem snýr öllu á hvolf – allt þó fullkomlega sannfærandi og áreynslulaust. Hér eru engar einfaldar og þægilegar svart/hvítar persónur. Söguröddin, sem er yfirleitt mjög sterk í verkum Munro, er oft grimm í lýsingum sínum en dæmir aldrei – þetta gerir það að verkum að löngu eftir að lestri lýkur er maður enn að reyna að gera upp við sig hvort manni líki við þessa eða hina persónu.
Munro segist iðulega nota eigið líf sem uppsprettu og yfirleitt „búi“ hún ekki til persónur heldur séu þær byggðar á raunverulegum fyrirmyndum og Alex Keegan telur að þó að ekkert verk Munro sé algjörlega sjálfsævisögulegt megi hins vegar færa rök fyrir því að allt höfundarverk hennar sé ein stór ævisaga því alltaf sé hún að skrifa út frá sér og í kringum sitt líf. Árið 2006 gekk Munro þó skrefi lengra í sjálfsævisögulega átt með smásagnasafninu The View from Castle Rock en þar má finna smásögur byggðar á raunverulegum atburðum sem rekja ættarsögu Munro frá 1818 og til lífs hennar sjálfrar í dag þótt hún taki fram að eins og áður ráði skáldskapurinn þó ríkjum. Fyrri hlutinn snýr að snýr að lífi forfeðra hennar og eru dagbækur, bréf og annálar uppspretta skáldskaparins – það er þó í síðari hlutanum, Home, sem verkið fer á flug. Smásögurnar lýsa uppvexti og þroskaferli kanadískrar stúlku frá barni til konu og rithöfundar um miðbik tuttugustu aldar. Harka samfélagsins við þá sem eru útundan eða öðruvísi er gríðarleg og miðlæg í verkinu er barátta kvenna fyrir sjálfsmynd í landslagi sem hvorki leggur rækt við listir né kvenfrelsi. Bókin er mjög heiðarleg svo Munro er jafnvel grimm við sjálfa sig en um leið er ótalmargt látið ósagt. Lítið er talað um hjónabönd hennar tvö eða skilnað, börnin eða neitt af því persónulega sem gerir ævisögur venjulega læsilegar eða áhugaverðar. Hins vegar býr í verkinu annars konar sannleikur, ekki síður persónulegur, um afstöðu Munro til sjálfrar sín sem manneskju og sem höfundar og milli línanna má lesa uppgjör við fortíðina, bæði hennar og forfeðra hennar.
Draumar og kannski vonbrigði eru ákveðinn rauður þráður í gegnum allar sögurnar. Ekki dramatísk vonbrigði þar sem stefnt var til sigurs og fallið hátt heldur fremur óhjákvæmileg vonbrigði daglegs lífs. Draumar sem ekki rættust og voru jafnvel aldrei fullmótaðir.
Frá árinu 1968 hefur Munro gefið út 13 smásagnasöfn og eina skáldsögu – The Lives of Girls and Women - sem er þó meira eins og sveigur smásagnana sem allar hverfast um sömu persónur. Hún lét hafa eftir sér í viðtali að The View from Castle Rock yrði hennar síðasta verk en þremur árum síðar – 2009 kom frá henni bókin Too Much Happiness og nýjustu fregnir herma að hún sé með aðra bók í smíðum. Too Much Happiness er um margt ólík fyrri smásagnasöfnum hennar. Sögurnar fara víðar í tíma og rúmi en áður og einnig eru efnistökin dramatískari en oft áður þar sem hér má finna fleira en eitt morð og önnur skuggaleg dauðsföll eða slys. En eins og áður er stíllinn látlaus og sneyddur allri tilfinningasemi.
Dramatískir atburðir eða spennandi flétta einkenna almennt ekki sögur Munro. Miklu fremur lýsa þær hvunndegi og hversdagslegum gjörðum en eru þó jafnan þrungnar einhvers konar ógn eða andrúmslofti. Jafnvel þegar dramatískir atburðir koma við sögu eru þeir sjaldnast í forgrunni og þeim er jafnvel lýst í framhjáhlaupi – sagan snýst ekki um þá sjálfa heldur eitthvað andartak, oft smávægilegt, sem skilgreinir á einhvern hátt líf persónanna. Sögurnar eru líka óvenjulegar að uppbyggingu – smásögur eru gjarnan hnyttnar og vel afmarkaðar – í lok hverrar sögu kemur lausn eða eitthvað “tvist” sem hnýtir hana sniðuglega saman. Sögur Munro eru yfirleitt langt frá því. Þær byrja oft fyrirvaralaust, fara svo kannski aftur í tíma og enda iðulega að því er virðist engan veginn. Lesandinn er stundum skilinn eftir eins og í lausu lofti og ég stend mig stundum að því að lesa sögu aftur til að skilja til fullnustu um hvað hún snerist eða hvert hún var að fara. Í formála “Selected Stories” sem kom út 1996 skrifar Munro að hún lesi sjálf ekki alltaf sögur frá upphafi til enda. Frekar grípi hún niður í þeim og reki sig svo í hvora áttina sem er. Hún lesi ekki til að komast að því hvað gerist í sjálfu sér heldur fremur til að upplifa heim sögunnar og dvelja þar stundarkorn. Þetta kann að hljóma eins og sögur hennar séu tíðindalausar eða óspennandi en svo er alls ekki – þær eru oftar en ekki gríðarlega áhrifamiklar og sitja í manni löngu eftir að lestri lýkur.
Það er erfitt að útskýra áhrifamátt Munro – hvernig hún forðast leynt og ljóst að velta sér upp úr dramatík og beinir þess í stað athyglinni að hvunndagslegum smáatriðum en heldur engu að síður lesandanum í heljargreipum. Á einhvern magnaðan hátt tekst henni að gera harmleikinn hversdagslegan en þó um leið átakanlegan. Kannski er það einhver ákveðin fjarlægð sem sögumaðurinn tekur sér, eða hvernig hún hnýtir hörmulega atburði við stærra samhengi svo lesandanum verður ljóst að þetta er ekki dramatískur harmleikur heldur „aðeins“ lífið. Það gerir atburðina ekki léttvægari en mögulega lífið þungbærara. Sögur Munro draga upp mynd sem er í senn miskunnarlaus og mannúðleg án þess að falla nokkurn tímann í gryfju tilfinningasemi.
Munro hefur oft verið kölluð Chekhov hinna enskumælandi þjóða þar sem hún, eins og hann, dregur upp svo sterkar og sannarfærandi myndir af manneskjum – það eru persónurnar sem sögurnar hverfast um frekar en atburðarás. Hún á líka sameiginlega með Chekhov þessa skýru sýn á breyskleika manneskjunnar án þess þó að falla nokkurn tíman í gryfju mannhaturs. Slíkt er sjaldgæft.
(Pistillinn var fluttur í Víðsjá 14. júlí sl.)
Mér finnst það líka.
SvaraEyðaÉg þarf líklega að lesa eitthvað eftir þessa konu.
SvaraEyða