25. ágúst 2011

Í höfuðið á ...?


Ætli það sé algengt að fólk nefni börn sín eftir skáldsagnapersónum, kvikmyndapersónum eða uppáhaldsrithöfundum? Ég þekki dæmi þess að fólk hafi nefnt börn eftir persónum í íslenskum fornbókmenntum, heillandi persónu í bók eftir óþekktan ástarsagnahöfund, bók eftir Milan Kundera og eftir persónum í ýmsum íslenskum skáldsögum. Íslendingabók liggur því miður niðri á þessari stundu en þjóðskráin segir að tíu konur á Íslandi heiti Ásta Sóllilja. Ekki veit ég hvort þær eru allar nefndar eftir þeirri í Sjálfstæðu fólki, og sú sögupersóna mun víst reyndar hafa fengið nafn sitt frá lifandi persónu, en mér finnst líklegt að einhverjar þeirra séu nefndar eftir henni. Ég hef heyrt að mörg börn beri nöfn persóna í bókunum um Ísfólkið og hér bloggar maður sem segist hafa nefnt son sinn í höfuðið á Haruki Murakami.

Kannist þið við einhver skemmtileg dæmi um nafngiftir í höfuðið á sögupersónum eða rithöfundum? Svör óskast!

14 ummæli:

  1. Ég man ekki eftir neinu í fljótu bragði en vil koma hér að metavinkli með því að benda á bók um sögupersónu sem nefnd er eftir rithöfundi. Það er bókin The Namesake eftir Jhumpa Lahiri sem fjallar um indverska piltinn Gogol sem elst upp í Bandaríkjunum.

    SvaraEyða
  2. Amma mín hét Klara og hafði alla tíð mikla óbeit á því nafni, sem náði að sögn vinsældum með skáldsögunni Kapítólu. Börnum hennar var harðbannað að láta þetta nafn upp úr þýddum róman ganga áfram til barnabarnanna.

    SvaraEyða
  3. Afi minn rithöfundurinn bjó til nafn á móður mína en notaði það ekki í sögu, mætti því segja að hún sé eins konar sögupersóna... Hún skýrði svo dóttur sína sama nafni. Þær eru ennþá þær einu sem bera nafnið.

    SvaraEyða
  4. Varð einmitt fyrst hugsað til Kapítólu.


    Kapítóla kvk (Kapítólu, Kapítólu, Kapítólu)

    Þrjár konur í Ís., Ve. og N.-Múl. báru nafnið samkvæmt manntali 1910 og í þjóðskrá 1989 voru þrjár konur skráðar með þessu nafni sem einnefni eða fyrra nafni af tveimur en tvær að síðara nafni. Nafnið á rætur að rekja til skáldsögunnar Kapítólu eftir Emmu Southworth. Hún birtist fyrst sem neðanmálssaga í Heimskringlu á árunum 1896-1897 í þýðingu Eggerts Jóhannssonar en kom síðan út í bókarformi árið 1905. Nafnið virðist búið til af höfundi.
    (af snara.is, Nöfn Íslendinga)

    Ég las Kapítólu einhvern tíman þegar ég var barn og man nákvæmlega ekkert eftir bókinni. En framhaldssagan var víst lesin á öllum íslenskum heimilum sem komu höndum yfir Heimskringlu á sínum tíma og bókin var margendurprentuð.

    Um eða uppúr 1984 fór svo að bera á "Ísfólksnöfnunum", svo sem Villimey, Heikir, Viljar og Silja (fram til þessa var Aðalsteinsdóttir árum saman eina Siljan á Íslandi, held ég), Sunna öðlaðist stórauknar vinsældir og Mikael, Gabríel og Alexander komu sterkir inn, svo Margit Sandemo hefur sitthvað á samviskunni líka.

    Druslukveðjur, Halla Sverrisd.

    SvaraEyða
  5. Ég las einhverntíma um að eftir að bókin Aðalsteinn - saga æskumanns, eftir Pál Sigurðsson (1839-1887), kom út árið 1877 hafi nafnið Aðalsteinn náð mikilli útbreiðslu á Norðurlandi.

    SvaraEyða
  6. Siljurnar voru lengst af tvær og vinsældir nafnsins eru miklu eldri en Ísfólkið. Nærtækari skýring er skáldsagan Silja eftir finnska nóbelshöfundinn Sillanpää sem kom út á íslensku átta árum áður en Silja A. fæddist, mig minnir að hin Siljan sé jafnaldra hennar.
    Heima hjá mér er haft fyrir satt að vinsældir nafnsins hafi byrjað að aukast þegar Silja þýddi fyrir sjónvarpið á fyrstu árum þess. Þá sá fólk nafnið á skjánum næstum daglega og það tók flugið þaðan.

    Jón Yngvi

    SvaraEyða
  7. Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, sagði frá því í viðtali að foreldrar hennar hefðu fengið nafnið úr Búrinu eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttir. Ég man hvað ég var miður min yfir örlögum sögupersónunnar Ilmar. Uppreisn hennar gegn skólakerfinu fjaraði út þegar hún fékk vinnu á færibandi í dósaverksmiðju. Ekki sigurinn sem mitt 13 ára sjálf var að vonast eftir!
    Helga F

    SvaraEyða
  8. Mér fannst Ilmur einmitt algjör nagli (ég kann Búrið utanað) að gefa bara skít í skólann og fara. Ég gerði það sjálf með reglulegu millibili.

    SvaraEyða
  9. Síðast þegar ég gáði voru fleiri Danir sem hétu Uggi en Íslendingar. Á því er engin önnur skýring en Fjallkirkjan.

    SvaraEyða
  10. Ásdís frá Bjargi (mamma Grettis) heimsótti langaafa minn í draumi og krafðist nafns þegar amma mín og nafna var nýfædd. Hún lofaði einnig hamingju ættarinnar ef nafninu hyrði haldið við þannig að örlög kvenleggsins voru ráðin svona nafnalega séð :-)

    Sjálf hef ég svo þurft að bera af mér að hafa nefnt son minn eftir Ísfólkinu en hann heitir einmitt Viljar að seinna nafni.

    kveðja Ásdís

    SvaraEyða
  11. Ég heiti í höfuðið á Uglu í Atómstöðinni. Ég man hvað mér fannst ég undir mikilli pressu að lesa bókina, jafnvel áður en ég lærði að lesa. Svo þrælaði ég mér loksins í gegnum hana þegar ég var 12 ára, án þess að skilja nokkuð í bókinni, bara til að geta sagt: já, ég er fokkings búin að lesa hana.
    Ugla Egilsdóttir.

    SvaraEyða
  12. Ég fletti Ísfólksnafninu Þula upp í Íslendingabók í dag og sá þá að til er stúlka sem heitir Máney Þula. Það væri gaman að vita hvort Dægurlagasöngkonan dregur sig í hlé eftir Snjólaugu Bragadóttur hefur verið kveikjan að fyrra nafninu.

    SvaraEyða
  13. Kötturinn minn heitir Nóra út af bókinni Ungfrú Nóra, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1996 (kötturinn er 97' módel). Ég elskaði þessa bók (og hugmyndina um að manneskja gæti breyst í kött), en hún fær fínt broskallameðaltal á þessari síðu: http://bokaormar.khi.is/sidur/titill.asp?nafn=Ungfr%FA%20N%F3ra

    SvaraEyða
  14. Ég las bókina "Sunnevurnar þrjár" eftir Margit Ravn mér til óbóta í sveitinni hjá ömmu í gamla daga. Miðdóttir mín heitir einmitt Sunneva:)

    SvaraEyða