14. ágúst 2011

Bókabúðablæti

Síðasta sumar blogguðu Þórdís og Kristín Svava um góðar og fallegar bókabúðir hér og hér. Mér finnst mjög mikilvægt að druslubókadömur haldi áfram að koma bestu bókabúðum veraldar á framfæri hér á síðunni, vegna þess að bókabúðir gera mig hamingjusama. Í alvöru, þegar mér finnst heimurinn ósanngjarn og illur hjálpar alltaf að fara í góða bókabúð, því þá man maður hvað það er líka margt gott til í heiminum. Og hvað maður á margt gott í vændum.

Kristín Svava er þegar búin að skrifa um bestu bókabúð Berlínar, St. George's Bookshop. Ég myndi vilja benda fólki á tvær aðrar bókabúðir með bókum á ensku, annars vegar þýskt útibú tékknesku bókabúðarinnar Shakespeare & Sons á Raumerstraße 36:


Þar eru alls konar bækur í boði, bæði notaðar og nýjar. Úrvalið er ekkert rosalegt (a.m.k. miðað við St. George's), en búðin opnaði samt bara í maí - kannski er von á meiru. Hingað er vel þess virði að kíkja ef maður á leið hjá, það eru líka notalegir stólar í boði fyrir þá sem vilja hanga og lesa svolítið. Hins vegar vil ég mæla með Dialogue Books á Schönleinstraße 31:


Búðin er pínulítil, en mér finnst alveg ótrúlegt hvað það er mikið til af góðum og áhugaverðum bókum í þessu litla rými. Megnið af þeim eru skáldsögur á ensku eftir enskumælandi höfunda. Starfsfólkið getur pantað bækur fyrir mann ef maður vill.

Besti staðurinn sem ég hef fundið í Berlín þetta sumarið er bókabúðin, kaffihúsið og vídjóleigan Roderich á Glogauer Straße 19 í Kreuzberg.


Þar er gott að slappa af og vinna, bæði einn og með fólki. Viðskiptavinirnir eru yfirleitt með tölvu eða bók, oft augljóslega háskólanemar að vinna hópverkefni. Starfsfólkið verður ekkert fúlt þótt maður sitji í nokkra klukkutíma, noti netið þeirra og lesi bækurnar þeirra, en kaupi bara einn kaffibolla. Það verður hins vegar fúlt ef maður tekur koverið af bíómynd úr hillunni þegar maður ætlar að leigja mynd - maður á bara að skrifa niður númerið sem er á hliðinni á myndinni og ganga rólegur að afgreiðsluborðinu og biðja um myndina sem um ræðir. Þetta dregur úr hættu á því að mynd verði síðan sett á vitlausan stað. Ordnung muss sein.



Áherslan hér er mest á kvikmyndir, ég hef aldrei séð jafnmikið úrval á þeim og akkúrat hérna (þeir raða þeim upp í flokka eins og t.d. „amerískar rökkurmyndir fjórða til sjötta áratugarins“, „homma/lesbíumyndir“ og „asískir kvikmyndahöfundar“). En samt eru sjö bókahillur og þrjú borð með bókum sem bæði má lesa á staðnum og kaupa. Bækurnar eru ekki allar á ensku, heldur líka t.d. á þýsku og spænsku, og þótt úrvalið sé ekkert svakalegt er stemmingin æðisleg. Ef það væri svona staður á Íslandi væri ég alltaf þar.


6 ummæli:

  1. Þetta er skemmtilegt. Nú langar mig til Berlínar - og vera lengi.

    SvaraEyða
  2. Bókabúðir og bókasöfn. Þar sem ég vil týnast og finnast löngu seinna. Í þokkalega varðveittu ástandi með grátt hár og flösu á öxlunum.

    SvaraEyða
  3. Ég fékk bókabúða- og Berlínarstandpínu yfir þessari færslu.

    SvaraEyða
  4. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  5. Ég er stöðugan bókaBerínarbóner. Nú er ég að fara á bókasafnið, það ætti eiginlega líka skilið bloggumfjöllun:

    http://acedaytonscomm.posterous.com/inception-style-library

    SvaraEyða