Eins og algengt er um bókhneigt fólk stjórnast tilfinningalíf mitt, áhugamál og langanir gjarnan af því sem ég les. Þar er ferðaþorstinn ekki undanskilinn og á síðustu árum hefur góðum bókum tekist að vekja með mér löngun til að ferðast til Ástralíu, sem ég hafði áður fremur leiðinlega mynd af og sá aðallega fyrir mér sólbrennda Breta, sálarlaus úthverfi og verslanaklasa (þökk sé breskum sjónvarpsþáttum, sér í lagi endalausum raunveruleikaþáttum þar sem miðstétta-Bretar í tilvistarkrísu flytja á vit nýs lífs "down under", sem endar yfirleitt með hjónaskilnaði og/eða gjaldþroti). Hér má sumsé lesa um nokkrar af þeim skemmtilegustu Ástralíutengdu bókum sem ég hef lesið á síðustu árum.
Fyrsta skal telja English Passengers eftir Matthew Kneale, sem einmitt segir frá upphafsárum vestrænna landnema í Eyjaálfu, nánar tiltekið á eynni Tasmaníu. English Passengers er ein af þessum sérdeilis safaríku bókum; framvindunni er komið til skila með röddum ótal ólíkra persóna og hún spannar langan tíma og gríðarlega stórt sögusvið. Stór hluti sögunnar er frásögn af ferðalagi þeirra séra Geoffrey Wilsons og Dr. Thomas Potters til Tasmaníu, en sérann er í eins konar pílagrímsferð og er þess fullviss að á Tasmaníu sé sjálfan Edensgarð að finna. Í frásögninni fléttast leyndardómar, ráðgátur og svik saman við afar vel útfærðar lýsingar á tíðaranda og staðháttum, auk þess sem skelfilegum örlögum frumbyggja Tasmaníu eru gerð ógleymanleg skil. Sagan er aldrei þung í vöfum; Kneale ber skynbragð á það fáránlega og skoplega þrátt fyrir að ýmislegt í sögunni sé átakanlegt, og þá sérstaklega sá hluti sem snýr að endurminningum Peevays, frumbyggja sem lendir milli tveggja menningarheima. Ég er afskaplega veik fyrir bókum sem hafa marga sögumenn; ef vel er skrifað vekur það upp alls kyns áhugaverðar spurningar um sannleika, trúverðugleika og mótívasjónir þess sem talar. Ég las þessa fyrir nokkrum árum og hún var klárlega ein af fimm bestu bókum sem ég las það árið.
Önnur fín bók sem fjallar um landnám hvíta mannsins í Ástralíu er The Secret River eftir Orange-verðlaunahafann Kate Grenville. Ég er reyndar að lesa hana eins og er - á fimmtíu blaðsíður eftir sem verða lesnar uppi í rúmi á eftir. Hún er allt annars eðlis en bók Kneales, stíllinn mun lágstemmdari og takturinn þyngri, en ansi mögnuð engu að síður. Aðalpersónan er sakamaðurinn William Thornhill, sem er dæmdur til útlegðar í Ástralíu snemma á 19. öld fyrir litlar sakir. Við fylgjumst með því hvernig það ágæta líf sem Thornhill hefur byggt upp hrynur eins og spilaborg án þess að þau hjónin fái nokkuð að gert; veikindi, dauðsfall í fjölskyldunni og tíðarfar gera það að verkum að Thornhill neyðist til að stunda óheiðarleg viðskipti. Þegar til Ástralíu er komið upplifir hann sterka þrá eftir eigin samastað í tilverunni, að eignast loksins eitthvað sem enginn getur tekið af honum - frelsið sem hann aldrei hefur átt finnur hann í hugmyndinni um að eiga sitt eigið land. Það sem Thornhill ekki áttar sig á er að einskismannslandið svokallaða er ekki mannlaust. Flestir líta landnemarnir/fyrrverandi fangarnir á frumbyggjana sem skynlausar skepnur en smám saman verður Thornhill ljóst að hann getur ekki hunsað nærveru þeirra. Samskipti vestrænna manna og frumbyggja eru hér aftur í forgrunni en mér skilst að bókin sé hluti af áströlskum þríleik Grenville, sem fjalli um ýmsar hliðar á ástralskri sjálfmynd og sögu.
Bók sem fjallar um svipað tímabil en frá öðru sjónarhorni er hin stórmerkilega The Floating Brothel: The Extraordinary True Story of an Eighteenth-Century Ship and Its Cargo of Female Convicts (smellið nafn) eftir sagnfræðinginn Sian Rees, sem eyddi löngum tíma í að grafa upp allar mögulegar heimildir og upplýsingar um þær 237 konur sem var siglt til Ástralíu á skipinu Lady Julian árið 1789. Flestar höfðu konurnar verið dæmdar fyrir vændi eða smáhnupl; margar voru í raun á barnsaldri. Rees dregur upp afar lifandi mynd af aðstæðum kvennanna og veruleika þeirra bæði á Englandi og þegar til Ástralíu er komið. Hún er háðsk en beitt og gefur ýmsum klisjum fingurinn. Ég mæli eindregið með henni.
Næst er það ein af mínum eftirlætisbókum frá síðasta ári, A Fraction of the Whole eftir Steve Toltz. Hún kom raunar út árið 2008 og komst þá á Booker-listann, en mér áskotnaðist hún í fyrra og gleypti þessar tæplega 600 blaðsíður í mig á örfáum dögum. Sagt er frá feðgunum Jasper og Martin Dean, sem eiga í einhvers konar ástar-haturs-sambandi, en Martin er plottari og misskilinn (mögulega siðblindur) hugsuður sem er stöðugt að reyna að tryggja að hann falli ekki í gleymskunnar dá eftir dauðann en kemur sér og syni sínum í sífellt verri klípu. Sagan spannar alla ævi Martins og leikar berast víðsvegar um Ástralíu sem og til Tælands, hún er viðbjóðslega fyndin en líka ansi sorgleg á köflum. Það hefði mátt ritstýra henni aðeins betur og hægja á Toltz við og við, en hamsleysið er líka heillandi og persónurnar hver annarri furðulegri (sem ég tel mikinn kost).
Að lokum er það svo bók eftir ljúflinginn og límheilann Bill Bryson, en með ferðabókum hans get ég mælt af heilum hug. Ástralíubókin hans Brysons heitir einfaldlega Down Under. Eintakið mitt lyktar af ediki vegna þess að ég missti það ofan í fötu fulla af þeim eðalvökva ... en það er önnur saga. Í bókinni fer Bryson um alla Ástralíu og segir frá upplifun sinni og rekur ýmsa þætti úr sögu landsins. Ferðalög með Bill Bryson eru alltaf notaleg og skondin, hvort sem hann er á flótta undan óðum hundum í úthverfi í Sydney, að telja upp kosti þess að hlusta á krikket í útvarpinu eða drekka volgan bjór í Alice Springs í ógurlegum hita. Ef ég dríf mig til Ástralíu má hann alveg koma með.
Bækurnar hljóma mjög spennandi - Hina snjöllu English Passengers á ég upp í hillu en ég hef lengi haft augastað á The Secret River og Brothel bókin hljómar afar vel!
SvaraEyðaHIns vegar hlýt ég spyrja um þessa fötu fulla af ediki?
Já, mæli með þessum báðum! Brothel-bókin var held ég endurútgefin fyrir ekki svo löngu síðan í tilefni þess að gerð var heimildamynd upp úr henni. Hún kom upphaflega út árið 2002 og ég las hana ca. 2005. Vinkona mín í Wales hafði keypt sér hana fyrir rælni í Oxfam-búð, sumsé notaða, og lánaði mér því hún var sjálf svo ánægð með lesturinn.
SvaraEyðaEdikfatan ... tja, hvað get ég sagt, ég átti einu sinni sambýling sem lagði föt í bleyti í edik. Full fata af ediki + baðherbergislestur + léleg samhæfing = edikslyktandi Bryson.
Við þetta má bæta því að ég lauk lestri á The Secret River í nótt, og er enn ánægðari með hana eftir síðustu kaflana. Alltaf gaman þegar höfundar þora að setja fram flókna heimsmynd í stað þess að mála hana einföldum dráttum.
SvaraEyðaÞessi færsla minnti mig á stórskemmtilega og áhrifamikla bók eftir Richard Flanagan, sem heitir Gould's Book of Fish: A Novel in Twelve Fish. Sagan gerist að mestu í illræmdri refsinýlendu í Tasmaníu í upphafi 19. aldar og segir af sakamanninum William Buelow Gould, sem er skikkaður til þess að mála fiskabók. Flestar sögupersónurnar, þar á meðal Jörundur hundadagakonungur, eru lygalaupar, svindlarar, svikahrappar, falsarar og loddarar, og hinar eru hrein illmenni. Bókin er þungur dómur um sögu Ástralíu; landið er lygi, fölsun, svikin vara. Frásagnargleðin, endalausar hörmungarnar og nánast skoplegt æðruleysi minnir dálítið á Birting eftir Voltaire. Skáldskapur og veruleiki, saga og sannleikur, vísindi og list, maður og fiskur. Ég mæli með þessari bók í Ástralíusafnið.
SvaraEyðaÉg var einmitt að velta fyrir mér að maður þyrfti að éta djöfuldóm af frönskum til að þurfa heila fötu af ediki með þeim - jafnvel þó maður væri Breti! ;)
SvaraEyðaGould's Book of Fish er hér með bókamerkt á Amazon og verður keypt í næstu Bretlandsferð! Þakka spennandi ábendingu um frekari Ástralíulestur.
SvaraEyðaOg Dúnja ... lyktin minnir mig óneitanlega á góðar stundir á breskum knæpum, þannig að þetta er ekki alslæmt!
Takk fyrir þessa grein. Hef bara lesið Kneale og Bryson en mun tékka á hinum.
SvaraEyðaMér fannst reyndar Enginn ræður för e. Runólf Ágústsson alveg ágæt bók. En það hjálpar náttúrlega til að vera með ástralíu fetiss.
St.kv, Gunnar Hjálmarsson