7. september 2011

Bragðgóður Suður-afrískur pottréttur

Fyrir nokkrum mánuðum rakst ég á þessa grein. Hún vakti strax áhuga minn, því ég er hrifin af vísindaskáldskap og fantasíum, hef svolítið pælt í því afhverju það virðist vera bókmenntagrein þarsem karlar eru fyrirferðarmeiri og svo síðast en ekki síst vakti Suður-afrísk vísindaskáldsaga áhuga minn, því flestar vísindaskáldsögur sem ég hef lesið gerast annaðhvort í Bandaríkjunum eða í öðrum heimi.

Mér finnst Suður-Afríka líka afar áhugavert land, þó ég viti ekkert sérstaklega mikið um það. Eini Suður-afríski höfundurinn sem ég hef lesið eitthvað eftir er J. M. Coetzee og svo hef ég næstum því pervertískan áhuga á Suður-afrísku hljómsveitinni Die Antwoord.

Fréttin fjallar s.s. um að bókin Zoo City eftir Lauren Beukes hafi hlotið hin virtu Arthur C. Clarke verðlaun fyrir framúrskarandi vísindaskáldskap. Bókin gerist í Jóhannesarborg nútímans, nema stórkostleg stökkbreyting hefur orðið á mannkyninu, sem felst í því að þeir sem hafa framið glæp eða eru á einhvern hátt „syndugir“ eignast fylgju. Fylgjan er alvöru dýr sem manneskjan getur ekki skilið við sig upp frá því og í bókinni er ekki gefin nein skýring á því hversvegna þetta gerist. Ýmsar tilgátur eru þó nefndar, einsog sú að dýrin séu merki um reiði guðs, eða einfaldlega holdgervingar vondrar samvisku. Það er meðvitað spilað með textatengslin við fylgjurnar í seríunni um Gyllta áttavitann eftir Philip Pullmann með því að nefna „vísindagrein“ um fylgjurnar í bókinni þarsem bent er á líkindin.

Og þarsem glæpamenn neyðast nú til að bera glæpina bókstaflega með sér hvert sem þeir fara, þá er nær óhjákvæmilegt að þeir safnist saman í gettói. Beukes byggir gettóið í bókinni á alvöru hverfi í Jóhannesarborg og lagði sig víst í töluverða hættu við rannsóknarvinnuna. Sumir sem hafa fylgju eru samt heppnir og fá bara mús, fiðrildi eða annað dýr sem þeir geta stungið í vasann eða ofan í tösku og geta því stundað eðlilega vinnu þrátt fyrir glæpi sína. En þeir sem fá górillu eða nashyrning eiga þeirri lukku ekki að fagna og neyðast því oftar en ekki til að feta sig ennþá lengra á glæpabrautinni til að hafa ofan í sig og á.

Þetta er upprunalega kápan. Hún fékk einhver megafín hönnunarverðlaun.

Þetta er kápan sem var notuð í Bandaríkjunum. (Afhverju þurfa þeir alltaf að vera öðruvísi?)

Aðalpersóna bókarinnar heitir Zizi. Hún er fyrrverandi lífstílsblaðakona og dópisti og fylgjan hennar er letidýr. Hún hefur þurft að kveðja glamúrlífstílinn og fínu barina og býr núna í slömminu og á kærasta sem er ólöglegur flóttamaður með vafasama fortíð. Hún vinnur fyrir sér með því að skrifa svindlbréf á netinu og svo með því að finna týnda hluti. Hún hefur nefnilega einskonar náðargáfu á því sviði, en þeir sem eru „dýraðir“ eða „animalled“ einsog það er kallað í bókinni, fá oft einhverja yfirnáttúrulega krafta.

Þegar hún er svo beðin um að finna týnda unglingsstúlku sem er fræg poppstjarna segir hún fyrst nei, því hún vill ekki leita að týndum manneskjum og svo líst henni ekkert á aðstæður og fólkið sem biður hana að vinna fyrir sig. En vegna peningaleysis neyðist hún svo á endanum til þess að taka verkefnið að sér. Hún kemst fljótt að því að það hefði hún betur látið ógert, því rannsóknin leiðir hana djúpt í innstu og myrkustu kima Jóhannesarborgar.

Bókin er að mörgu leyti suðupottur, sem er kannski viðeigandi, og endurspeglar borgina og landið sjálft. Þar er t.d. blandað saman vísindaskáldskap, töfrum og forlagatrú, og sagan, sem er í grunninn nokkurs konar harðsoðinn einkaspæjarareyfari, fjallar m.a. um vandamál sem ólöglegir flóttamenn búa við, stéttaskiptingu, fordóma, yfirborðsmennsku, fátækt, vímuefni, glæpi og endurhæfingu.

Útkoman er ákaflega skemmtilegur og spennandi pottréttur, með allskonar brögðum sem ég hafði aldrei smakkað áður.

Ég mæli hiklaust með henni.

Og fyrst ég er á annað borð að tala um Suður-Afríku (og afþví ég get það) þá ætla ég að enda þetta á því að sýna ykkur myndband með Die Antwoord.

Verði ykkur að góðu!

5 ummæli:

  1. Die Antwoord er rosaleg!
    En þú verður að sjá District 9, ef þú átt eftir að sjá hana. Sci-fi spennu/hryllingsmynd sem gerist líka í Jóhannesarborg.

    SvaraEyða
  2. Ah, já ég er sko búin að sjá hana! Gleymdi að nefna í pistlinum grein sem ég las þarsem Zoo City og District 9 voru nefndar sem vísir að mikilli bylgju í Suður-afrískum vísindaskáldskap.

    SvaraEyða
  3. Ógeðslega er þessi ameríska kápa ljót.

    SvaraEyða
  4. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  5. Já ameríska kápan er mjög ljót, en konan á henni finnst mér ótrúlega lík Lauryn Hill úr The Fugees.
    Er líka búin að fylgjast með Die Antwoord, kúl og skrýtið og áhugavert band.
    Elísa

    SvaraEyða