27. september 2011

Ofurtæknilegir uppvakningar í Vesturbænum

Nú í sumar kom út bókin Zombie Iceland eftir Nönnu Árnadóttur. Mér reiknast til að þetta sé fyrsta íslenska uppvakningabókin (endilega leiðréttið mig í kommentum ef mér hefur yfirsést einhver!), en þó má þræta um hversu "íslensk" hún sé í raun. Því þótt sögusviðið sé Reykjavík og höfundurinn íslensk, þá er bókin skrifuð á ensku og er a.m.k. í aðra röndina hugsuð sem ferðamannahandbók.

Bókin fjallar um hörkutólið Barböru sem reynir að bjarga sér og systkinum sínum undan svöngum og morðóðum zombíum sem hafa yfirtekið Ísland eftir að dularfullt gas losnaði úr læðingi við byggingu nýrrar virkjunnar. Barbara er nokkuð sérvitur, hún og pabbi hennar hafa horft mikið á uppvakningamyndir og hún er því einstaklega vel undirbúin undir zombípláguna. Hún hefur aðgang að byssum og kann að skjóta og hún sver sig í ætt við hetjuna sem maður hefur séð í mörgum zombímyndum. Þið kannist kannski við týpuna, maður hefur á tilfinningunni að hún sé ein af þeim sem kann að stela bíl með því að tengja framhjá og lesandi efast ekki um að hún kunni að gera við vararafstöðvar og búa til heimagerða rafmagnsgirðingu til að halda óvinum sínum úti. Það fellur enda í hennar hlut að reyna að koma systkinum sínum og fleira ósjálfbjarga fólki sem þau rekast á lifandi frá ósköpunum. Barbara er samt ekki bara hörkutól, heldur er hún líka manneskuleg og ég hélt a.m.k. mikið með henni.


Bókin er stutt, atburðarásin nokkuð hröð og höfundur gefur sér ekki mikinn tíma til þess að kafa ofan í persónur. Formúlu uppvakningamyndanna er fylgt samviskusamlega, alveg fram í slapstick-húmorinn sem einkennir jafnan kvikmyndagreinina. Ég hló nokkrum sinnum upphátt og Nönnu tekst að lauma allskonar sniðugheitum inn í söguna. Sem dæmi mætti nefna Facebook-kaflann þar sem fyrstu 24 tímum zombíplágunnar er lýst í stöðuuppfærslum notenda, en maður sér íslensku þjóðina einhvernveginn alveg í anda hegða sér nákvæmlega eins og þar er lýst í beinni útsendingu, enda skilst mér að við eigum heimsmet þjóða í Facebook-notkun.

Bókin virkar ábyggilega vel sem öðruvísi ferðahandbók. Allskonar séríslensk fyrirbæri eins og kjötsúpa, Reykjavíkurflugvöllur og kleinur eru rækilega útskýrð í neðanmálsgreinum. Og mér fannst líka gaman að þó þetta sé markaðsett til ferðamanna þá er sögusviðið ekki 101 Reykjavík, eins og við væri kannski að búast, heldur Vesturbærinn í 107 Reykjavík. En þar ólst ég einmitt upp og þekki hvern einasta blett, svo sagan var ljóslifandi fyrir mér.

Bókin öll er nokkuð framúrstefnuleg. Þetta er ekki bara fyrsta íslenska zombíbókin, heldur er hún einnig með þeim fyrstu sem gefin er út samtímis í prenti og á rafrænu formi (e-bók má kaupa hér). Og ekki nóg með það, heldur fylgir henni líka lagalisti (eða Zombie Apocalypse Playlist) á heimasíðu Gogoyoko, þar sem hver kafli fær sitt eigið lag. Fremst í hverjum kafla er QR-kóði sem tæknivætt fólk getur skannað með snallsímunum sínum til þess að hlusta á tilheyrandi lag.

Hér má sjá QR-kóða í byrjun kafla númer tvö.
Úlfhildur Dagsdóttir bendir á í dómi sínum um bókina að það hljóti að teljast eftirtektarvert að engum hafi dottið í hug að láta þýða hana á íslensku. Það rímar við það sem ég hef marga heyrt halda fram um að íslenskir aðdáendur fantasíu-, zombí- og vísindaskáldskapar lesi hvort sem er nær eingöngu á ensku svo það hafi lítið upp á sig að þýða þessar bókmenntir.

Ég vona að það sé ekki satt og ég vona líka að þessi bók, þó á ensku sé, sé bara vísir að vaxandi íslenskri bókmenntagrein.

Ókeibæ(!)kur gefur út og Hugleikur Dagsson myndskreytir.

Uppvakningur. Mynd e. Hugleik Dagsson.

Og svo verð ég að fá að hrósa aðeins kápunni. Það er vinkona mín sem situr fyrir á henni og það liðu margir, margir dagar áður en ég fattaði að þetta var hún. Þið megið giska á hvað hún heitir hérna í kommentunum.

7 ummæli:

  1. Já þetta er Ugla! Haha, ég hef oft séð þessa mynd en greinilega ekkert horft í andlitið bakvið zombíinn.

    SvaraEyða
  2. Það var ég sem var nafnlaus. Ég sá strax hver þetta var.

    SvaraEyða
  3. Þórdís er með krípí góða hæfileika til að þekkja fólk af myndum. Hef heldur betur fengið að "kenna á því" á þeim góðu dögum þegar bloggarar voru með alls konar getraunir og leiki í gangi. Annars er ég hæstánægð með að til skuli vera íslensk zombíbók, en ég harðneita að lesa hana á ensku.

    SvaraEyða
  4. Mér hlýnar um hjartaræturnar að hjá zombí fyrir framan Melabúðina... Ég verð líka að segja að þótt ég hafi mjög lítið gaman af fantasíum og vísindaskáldskap þá finnst mér zombíar rosalega skemmtilegir. Hef hins vegar bara séð þá í bíómyndum, það er kannski kominn tími til að lesa bók um þá.

    -Kristín Svava

    SvaraEyða
  5. við mæðgur sáum þegar var verið að taka myndina ... þokkalega
    -hugrún

    SvaraEyða