22. september 2011

Rannsóknarmaðurinn og kerfið

Nýlega kom út hjá Bjarti í íslenskri þýðingu Rannsóknin eftir Philippe Claudel. Kristín Jónsdóttir þýðir bókina úr frönsku.
Um er að ræða martraðarbókmenntir í kafkaískum anda og ég veit ekki alveg hvað mér finnst, eða hvað mér á að finnast. Höfuðpersónu bókarinnar, Rannsóknarmanninum, fáum við aldrei að kynnast með nafni og undir lokin skiljum við hvers vegna. Satt að segja er hvergi notast við nöfn; fólk er aðeins nefnt út frá hlutverkum sínum, gjarnan starfsheitum. Þetta gerir andrúmsloftið vélrænna, sem er greinilega ætlun höfundar. Helsta leiðarstefið er það hve einstaklingurinn, persónan eða manneskjan er lítilfjörleg og vanmáttug gagnvart einhverju óskiljanlegu kerfi.
Plottið er eins og við er að búast af bók af umræddri gerð. Rannsóknarmaðurinn er sendur til bæjarins til að rannsaka hrinu sjálfsmorða hjá Fyrirtækinu. Hann er ekki fyrr kominn en allt tekur að ganga á afturfótunum: hann lendir í vandræðum með gistingu, fær ekkert almennilegt að borða, á í erfiðleikum með að komast yfir götuna og að finna Fyrirtækið, fötin hans verða ónothæf, hann fær ekki að þvo sér og hegðun þeirra sem á vegi hans verða er undarleg á ýmsa lund. Hann verður fyrir hverri niðurlægingunni á fætur annarri og allt er óskiljanlegt. Að lokum brotnar hann svo saman.
Ég get ekki annað sagt en að sagan sé nokkuð fyrirsjáanleg þegar á heildina er litið. Það blasir við frá byrjun að söguhetjunnar bíði fátt annað en vandræði og erfiðleikar og að hún muni ekki komast heil frá þessu ævintýri. Hugmyndin um hinn magnvana einstakling gagnvart ómanneskjulegu kerfi er heldur ekki ný af nálinni. Útfærsluatriðin eru hins vegar ekkert endilega fyrirsjáanleg og oft eru þau frumleg. Mér fannst sagan sem slík skilja furðulítið eftir sig og fann ekki mikinn boðskap eða tilgang í henni sem ekki hefur komið fram áður í öðrum sögum af sömu sort. En bókin er vel skrifuð og hélt athygli minni nokkuð vel. Segja má að þarna sé um að ræða prýðilega útfærslu á áður notaðri hugmynd.
Þýðingin er lipur og þjál og í alla staði til fyrirmyndar. Rétt er þó að geta þess að þýðandinn er vinkona mín og því kann að vera að ég gæti ekki fyllsta hlutleysis í því mati mínu.

4 ummæli:

  1. Sko, maður gerir einmitt sérdeilis miklar kröfur til vinkvenna sinna.

    SvaraEyða
  2. Fyrstu 60 bls. eða svo var ég alltaf að bíða eftir því að Rannsóknarmaðurinn færi úr borginni í þorpið sem talað var um aftan á bókinni. Svo áttaði ég mig á því að hann færi líkega aldrei. Ætli þetta hafi verið meðvitað bragð hjá útgáfunni?

    SvaraEyða
  3. Ah, stendur þorp aftan á bókinni? Mig minnir að ég hafi nú reynt að leiðrétta það! Klaufavilla, ekki úthugsað plott, held ég, þó að útgefandinn verði kannski að staðfesta það.
    Þakka dóminn, vinkona! Enn bíð ég þó eftir túlkunum á endanum, það leggur greinilega enginn í það:)

    SvaraEyða
  4. Það væri gaman að heyra þitt álit á sögunni Kristín, þar sem þú hefur væntanlega legið yfir henni í dágóðan tíma vegna þýðingarinnar. Valdi þú sjálf að þýða söguna eða varstu beðin um það?

    Velti þessu fyrir mér, vegna þess að ég á erfitt með að ímynda mér að hægt sé að þýða bók sem manni líkar ekki. Eða hvað segir þú Þórdís, sem hefur mikla reynslu af þýðingum?

    SvaraEyða