28. september 2011
Sagan af Jaycee
Ég man óljóst eftir fréttum af því þegar Jaycee Dugard var frelsuð úr prísund sinni haustið 2009. Þá hafði hún verið 18 ár í haldi hjóna sem numu hana á brott skammt frá heimili hennar í South Lake Tahoe í Kaliforníu. Mál Jaycee rann fljótt saman við aðrar fregnir af konum og börnum sem níðingar halda föngnum í kjöllurum þessa heims og ég hugsaði ekki til hennar aftur fyrr en um daginn þegar ég sá nýútkomna sjálfsævisögu hennar í hverfisbókaversluninni minni.
Það var ósköp venjulegur virkur morgunn árið 1991. Jaycee, sem þá var 11 ára, var á leið í skólann þegar henni var skyndilega kippt upp í bíl. Þar var á ferðinni margdæmdur kynferðisafbrotamaður á skilorði, Phillip Garrido og kona hans Nancy. Þau héldu Jaycee fanginni í sérútbúinni aðstöðu á heimili sínu í nærri tvo áratugi og níddust á henni. Án þess að fara í smáatriðum í þær hörmungar sem stúlkan gekk í gegnum þá má geta þess að hún fæddi tvö börn á tímabilinu. Fjölskylda Jaycee missti aldrei vonina um að hún myndi finnast á lífi og allan tímann hélt móðir hennar úti miklu starfi í kringum leitina að dóttur sinni. Hún prentaði dreifibréf í heimilisprentaranum á kvöldin, hélt fjáröflunarsamkomur, hringdi óteljandi símtöl og virkjaði síðar internetið í þágu baráttunnar. Það leið og beið en ekkert fréttist af afdrifum Jaycee þó lögreglu bærist öðru hverju símtöl frá fólki sem taldi sig hafa séð hana tilsýndar. Reyndar hefur lögreglan legið undir ámæli fyrir að sinna ekki almennilega þessum ábendingum og ekki síður fyrir þá staðreynd að Garrido var á skilorði og átti að vera undir ströngu eftirliti.
Dag einn árið 2009 tók lögreglukona ein eftir manni í fylgd tveggja barna og ungrar konu. Henni fannst þau undarleg í háttum og þegar málið var kannað nánar tókst að bera kennsl á Jaycee sem þarna var á ferð með kvalara sínum og tveim dætrum. Jaycee og dætur hennar tvær voru frelsaðar og Garrido-hjónin leidd fyrir dóm. Fjölmiðlar biðu froðufellandi eftir því að stúlkan segði frá. Oprah og aðrar spjallþáttadrottningar vildu ekkert frekar en að fá Jaycee í settið og fá hana til að tala. En hún sagði ekki orð heldur skrifaði heila bók undir titlinum Stolen Life sem kom út í sumar. Bókin hefur fengið góða dóma og selst vel eins og nærri má geta, enda margt sem fólk þyrsti í að vita. Hvernig var samband hennar við Garrido? Hvernig liðu dagarnir? Hvernig fóru fæðingarnar fram? Reyndi hún að flýja? Hvernig í ósköpunum fór hún að því að komast í gegnum þetta?
Handahófskennt gúgl mitt leiddi í ljós að á hverju ári er um 800.000 barna og unglinga undir lögaldri saknað í Bandaríkjunum öllum. Mörg þeirra leggja sjálf á flótta frá heimilum sínum af ýmsum ástæðum, sum eru numin á brott af fjölskyldumeðlimum og svo gerist það stundum líkt og í tilfelli Jaycee að þeim er rænt af ókunnugum.
Þó ég lesi mikið af sjálfsævisögum þá hef ég aldrei verið sérlega áhugasöm um akkúrat þessa gerð þeirra – þegar fólk gerir tilraun til þess að lýsa ólýsanlegum hörmunugum og ofbeldi. Bókin minnti mig mest á sögu Leifs Muller Býr Íslendingur hér þar sem hann segir frá því þegar hann var í haldi nasista. Saga Jaycee fjallar svo sannarlega einmitt um ofbeldi og það sem maðurinn er í raun og veru fær um að gera öðrum manneskjum. Bókin er á köflum mjög erfið aflestrar. Það breytir því ekki að lesandinn veit að stúlkan sleppur fyrir rest – vonin er alltaf til staðar. Í raun er það óskiljanlegt hvernig stúlkunni tekst að lifa þessu lífi og hversu heil hún virðist vera þrátt fyrir þetta allt saman. Í viðtali við Diane Sawyer á ABC sjónvarpsstöðinni sem tekið var upp fyrir stuttu kemur hún manni fyrir sjónir sem heilsteypt og lífsglöð kona. Viðtalið má sjá hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli