24. september 2011

Skólabækur: Eleanor Rigby og Vinir

Þegar skólinn er byrjaður og tími manns fer að mestu í lestur fræða, er mjög mikilvægt að lesa skemmtilegar og helst fyndnar skáldsögur meðfram. Ekki síst til að fullvissa sjálfan sig um að maður geti nú alveg lesið á eðlilegum hraða ennþá, að allt sé í góðu lagi. (Ég verð stundum örlítið hrædd um að ég hafi hlotið vægan heilaskaða þegar ég er lengi að lesa fræðigreinar.) Undanfarnar vikur hef ég haft bók Douglas Coupland, Eleanor Rigby, við hliðina á skólabókunum. Bókin kom út árið 2004 og hefur verið að bíða eftir mér uppi í hillu síðan árið 2005, eins og margar aðrar áhugaverðar kiljur sem ég keypti í neyslubrjálæði góðæristímans. (Árið 2005 voru allir að segja mér að lesa Coupland, Paul Auster og Haruki Murakami, ég keypti því nokkar bækur eftir þá og las svona helminginn af þeim.)

Ég ákvað að lesa Eleanor eftir að hafa séð Coupland lesa úr nýjustu bók sinni, JPod, í Berlín í sumar. Hann er rosalega skemmtilegur kall, en mér fannst ég ekki geta keypt bókina vegna þess að það kostaði alveg 15 evrur inn á upplesturinn. Að minnsta kosti ekki fyrr en ég væri búin að lesa það sem ég ætti eftir hann. Og Eleanor Rigby er besta bókin sem ég hef lesið eftir Douglas Coupland hingað til. Miss Wyoming er líka mjög fín (ég skrifaði smá um hana hér), en mig minnir að All Families Are Psychotic hafi ekki verið eins stórfengleg og mér fannst titillinn lofa. (Ath. kápan á bókinni, sem er hér til hliðar, er villandi. Ég man ekki til þess að dökkhærð kona faðmi aðalpersónu nokkurn tímann í bókinni.)

Eleanor Rigby fjallar um Liz Dunn, sem er rauðhærð, þybbin kona á miðjum aldri. Hún er mjög einmana, eins og hún talar mikið um í bókinni, en hún er líka ótrúlega fyndin og kaldhæðin (og það er mikill kostur þegar fjallað er um einmanaleikann):

Books always tell me to find "solitude," but I've Googled their authors, and they all have spouses and kids and grandkids, as well as fraternity and sorority memberships. The universally patronizing message of the authors is, "Okay, I got lucky and found someone to be with, but if I'd hung in there just a wee bit longer, I'd have achieved the blissful solitude you find me writing about in this book." I can just imagine the faces of these writers, sitting at their desks as they write their sage platitudes, their faces stoic and wise: "Why be lonely when you can enjoy solitude?"
Eleanor Rigby, bls. 29.
Oh, ég vildi að Liz væri vinkona mín. Hún býr ein, skrifstofuvinnan hennar er tilbreytingarsnauð og lítið gefandi, fjölskylda hennar er frekar þreytandi og hún á enga vini. Í upphafi bókar er Liz nýbúin í endajaxlatöku og hefur leigt sér helling af sorglegum vídjóspólum, vegna þess að það er svo gott að gráta þegar maður er á sterkum verkjalyfjum og er í fríi úr vinnunni. Þegar hún hefur verið heima að glápa og grenja í tvo eða þrjá daga, fær hún símtal sem breytir lífi hennar - henni er tilkynnt um að sonur hennar sé á spítala. Sonur sem hún gaf til ættleiðingar þegar hann fæddist, fyrir tuttugu árum síðan.

Bókin er fyrstu persónu frásögn Liz, sem flakkar fram og aftur í tíma. Hún segir meðal annars frá samskiptum sínum við lögregluna þegar hún var barn, örlagaríkri bekkjarferð til Rómar á unglingsárunum, því hvernig hún kynnist syni sínum og því sem gerist svo sjö árum eftir að hún kynnist honum (það er voða spennó). Sögukona (má segja það?) skiptir reglulega á milli ólíkra tímabila og frásagna eins og hún sé með hálfgerðan athyglisbrest. Það er mjög fínt, því þá er maður spenntur fyrir því hvað gerist næst í mörgum ólíkum frásögnum samtímis. Mestu skiptir þó að bókin er fyndin og það er alltaf eitthvað skemmtilegt og óvænt að gerast í henni.

Að lokum langar mig að minnast á bókina Vinir, sem er líka sniðug meðfram heimanáminu, að minnsta kosti ef vinir ykkar eru skemmtilegir. Þið áttuð ábyggilega öll svona bók þegar þið voruð lítil. Fyrir þá sem kannast ekki við það er kannski rétt að útskýra: vinir manns eiga að skrifa um sig í bókina, bæði praktískar upplýsingar (t.d. heimilisfang, afmælisdag, símanúmer) og annað áhugavert (uppáhalds námsgrein eða geisladiskur, „mig langar“, o.s.frv.). Ég keypti bókina þegar ég var í facebook-pásu og saknaði vina minna, en ég er ekki frá því að mér finnist svona bækur skemmtilegri nú en árið 1993.

8 ummæli:

  1. Ég held að ég þurfi að lesa þessa Eleanor-bók.

    SvaraEyða
  2. Þú mátt líka skrifa í vinabókina!

    SvaraEyða
  3. HALLÓ SÁLUFÉLAGI! Ég fann einmitt svona vinabók í kassa fyrir ca. viku og er búin að taka hana fram til að láta fólk - vini - skrifa í hana.

    Og Coupland, já, einn af þeim sem ég er alltaf á leiðinni að lesa. Hann var agalega vinsæll meðal krakkanna sem voru með mér í skapandi skrifum í Glasgow. Þessi tilvitnun er stórkostleg og ég, hinn bitri lesandi, kinka kolli með beiskjusvip á vör. Tek kjellinn á bókasafninu næst.

    SvaraEyða
  4. Haha, ég hlakka til að láta þig skrifa í bókina!

    Ég er örlítið hrædd um að hafa hæpað bókina upp hérna, en mér finnst hún rosafyndin. Liz segir t.d. um systur sína: "Leslie's beauty truly makes me a genetic punchline." Svona línur fara alveg með mig.

    Svo er ég hálfpartinn farin að vona að ég þurfi að fara á sterk verkjalyf, svo ég geti hermt eftir henni og horft á Bamba, On the Beach, Terms of Endearment, How Green Was My Valley og The Garden of the Finzi-Continis og grátið. Það er svo gaman að gráta yfir bíómyndum.

    SvaraEyða
  5. Við getum tekið sterk verkjalyf um fyrirhugaða massahelgi. Ég sé þetta fyrir mér svona: Föstudagur: Sterk verkjalyf. Laugardagur: Drykkja og át. Sunnudagur: Baywatch.

    -kst

    SvaraEyða
  6. Svo var það stórkostlegt þegar hún fór með lukkusteininn sinn í ferðalag...
    ég las þessa bók einhvern tíma þegar ég las allar bækur sem ég sá sem hétu eftir Bítlalögum. (Þær urðu reyndar aldrei fleiri en þrjár) Ég bjóst samt fyrirfram við að þetta væri leiðinleg og tilgerðarleg bók, svolítið uppskrúfuð eins og lagið, en hún kom skemmtilega á óvart með því að vera svona drepfyndin.

    Ragnhildur

    SvaraEyða
  7. Frábær hugmynd með vinabókina, þegar ég var á þessum týpíska vinabókaaldri þá var bara eitthvað til sem hét "minningabók" og vinir manns teiknuðu í og skrifuðu upp tilvitnanir og furðuleg ljóð. Miklu meira vit í því að fá sér svona bók á efri árum og vita þá t.d. hverju vinir manns eru að safna og hvaða geisladisk þá langar í og svona. Ætti að markaðssetja þetta í staðinn fyrir gestabækur sem enginn notar lengur!

    SvaraEyða