4. október 2011

„Eru ekki allir málsmetandi íslenskir höfundar með þríleik?“ Tapio Koivukari situr fyrir svörum

Rithöfundurinn og guðfræðingurinn Tapio Koivukari hefur sterk tengsl við Ísland og hefur m.a. þýtt verk Vigdísar Grímsdóttur, Gyrðis Elíassonar og Gerðar Kristnýjar á finnsku. Hann bjó um skeið á Vestfjörðum og var þá af sumum þekktur sem Kiddi Finni, en býr nú ásamt fjölskyldu í sínum gamla heimabæ í Finnlandi. Við Tapio hittumst fyrst á þýðingaþingi í HÍ árið 2007 og höfum haldið sambandi síðan ég flutti til Finnlands. Á dögunum heimsótti ég fjölskylduna til Rauma og sigldi með þeim út í eyju á bátnum Halldísi, nefndri uppúr Laxdælu. Tapio tók vel í þá hugmynd að svara nokkrum spurningum um sig og sín störf.


Hvernig stóð á því að þú fluttir á Ísafjörð á sínum tíma?
Ég hafði lengi átt mér blundandi draum um að fara eitthvert á norðurslóðum og dveljast þar með heimamönnum dálítinn tíma. Svo allt í einu, að námi loknu og sambandi slitnu, var ég frjáls ferða minna og skellti mér til Íslands. Ég var þá hálft ár á ferðinni, vann í byggingarvinnu í Reykjavík og svo í frystihúsi á Flateyri. Eftir það fór ég heim til Finnlands, en hafði fengið Íslandsbakteríuna og íslensk stúlka sem var í námi í Finnlandi benti mér á að sækja um kennarastöðu, þar sem ég er með kennsluréttindi og þá sárvantaði kennara úti á landi. Ég sótti svo um kennarastöðu á ýmsum stöðum og var ráðinn á Ísafjörð sem smíðakennari. Þar var gott að vera, ég var þar þrjú ár og eignaðist fjölskyldu á meðan.

Hvað geturðu sagt okkur um bókina sem kom út um daginn?
Hún mun heita á íslensku Ariasman – frásaga af hvalföngurum. Hún gerist á Íslandi og í Baskahéraði í byrjun 17. aldar og segir frá Spánverjavígunum, þar sem baskneskir skipbrotsmenn voru vegnir af vestfirskum bændum undir forystu Ara Magnússonar sýslumanns, sem Baskar kölluðu Ariasman. Bókin er skáldsaga, ég reyni að lifa mig inn í þennan tíma og segja frá sjónarmiði bæði Íslendinga og Baska.

Hvernig er finnska bókmenntasenan í samanburði við þá íslensku? Dettur þér eitthvað sérstakt í hug sem er sameiginlegt eða ólíkt?
Margt er sameinlegt, enda margt mjög hliðstætt í þjóðfélaginu og þróun þess. En náttúrulega hefur til dæmis seinna stríðið haft áhrif á þjóðarsálina og það endurspeglast í bókmenntunum. Finnar eru fjölmennari þjóð og þá finnast kannski fleiri tegundir bókmennta og meira af ýmsum tilraunum.

Myndirðu telja eigin verk undir áhrifum frá íslenskri bókmenntahefð? Sumum hefur fundist t.d. veðurlýsingarnar í Yfir hafið og í steininn hafa dálítið íslenskt yfirbragð.
Alveg eflaust. Stærsta verk mitt hingað til er ættarþríleikur, segir frá sjómannsfjölskyldu á finnskum eyjum og hefst sagan í byrjun síðustu aldar; eru ekki allir málsmetandi íslenskir höfundar með þríleik? Og þar sem Yfir hafið er annars vegar, þá er ég með svo góðan þýðanda, Sigurð Karlsson. Við lögðum mikið i samstarf okkar, vönduðum okkur mjög í veðurlýsingum og leituðum ráða hjá svila mínum, sem er skipstjóri fyrir vestan.

Áttu þér einhverjar sérstakar uppáhaldsbækur eða -höfunda? 
Gegnum tíðina hafa uppáhaldsbækur verið margar, allt frá Hringadróttinssögu til Steinbeck, eða sögulegar skáldsögur eftir Mika Waltari. Af finnskum höfundum verð ég einnig að nefna Aleksis Kivi (finnst á íslensku, lesið endilega), Volter Kilpi, Pentti Haanpää eða Samuli Paulaharju. Og svo hafa Íslendingasögur og Laxness lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Góðar bækur finnast víða, en sannleikurinn fyrirfinnst ekki í bókum.

Hvaða skáldsögu lastu síðast? 
Valon reunalla, Á útjaðri ljóssins, eftir Maria Peura. Segir frá uppvexti stelpu í litlu þorpi í Lapplandi.

Með hvaða íslenska rithöfundi myndirðu helst deila vodkaflösku?
Nú er erfitt af velja af mörgum góðum kostum. Mér hefur þótt gaman að drekka nokkra lítra af lútsterku kaffi með Vigdísi Grímsdóttur. En vodkaflöskunni myndi ég helst deila með Eiríki Erni Norðdahl, vini mínum og gömlum nemanda frá Ísafirði. Eða með Einari Kára.

Hvað ertu að fást við þessa dagana? 
Ég er að leggja útlínur að sjónvarpsþáttaröð með félaga minum, sem er leikstjóri, til að bjóða hana svo finnska sjónvarpinu. Seinna í vetur á að semja leikrit fyrir bæjarleikhúsið í Rauma eftir öðru bindinu af ættarþríleiknum, fyrsta leikritið gekk mjög vel. Og svo ætla ég að klára að þýða Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju. Þannig að það er nóg að gera á stóru heimili.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli