5. október 2011

Jaðarsetning kvenkyns rithöfunda?

Grein á vefnum The Bookseller fjallar um að sala á bókum eftir ákveðna kvenrithöfunda í Bretlandi, sem gjarna eru seldar í stórmörkuðum, fari minnkandi. Þarna eru nefndar Marian Keyes, Jodi Picoult, Dorothy Koomson og fleiri. Tekin eru dæmi um minnkandi sölu hjá einstökum höfundum, en heildarsalan í Bretlandi á 20 söluhæstu kvenrithöfundunum sem selst hafa mest undanfarin ár hefur minnkað um 10%. Menn velta vöngum yfir hvernig standi á þessu, fólk er almennt að spara við sig í kreppunni, rafbækur eru komnar til sögunnar og eitthvað fleira er tínt til. Síðan er vitnað í bókmenntaritstjóra tímaritsins Marie Claire, sem segir:
People are getting a bit sick of the chick lit look, and the term as a genre label—it seems to cover such a wide range. The jackets make it seem frothy and light, but a lot of books with those covers actually deal with quite serious things.
Hún vill sem sé meina að lesendur séu búnir að fá nóg af chick-lit kápunum og stimplinum, margar þessar bækur fjalli í raun um mjög alverleg efni en sé pakkað inn í rangar umbúðir. Ég er ekkert frá því að eitthvað sé til í þessu hjá Marie Claire-blaðakonunni en athugasemd lesanda fyrir neðan fréttina á bookseller-vefnum vakti líka athygli mína.
Why always this distinction on "Women's fiction". Donaldson's comment "It's possible budget-conscious women doing the weekly shop are denying themselves a purchase they'd have made happily a couple of years ago." only emphesises the general opinion that only women read books written by women, and female novelists only write for a female audience. Completely ridiculous. Surely sales on "Men's fiction" is hit just as hard by the belt-tightening of recent years. Why perpetuate this marginalising of women's writing which still keeps the majority of female novelists on the sidelines?
Já, hvers vegna er þetta chick-lit hugtak eiginlega til? Hvað gerir bók að chick-lit? Ég ræddi þetta við sænska metsöluhöfundinn Kajsu Ingemarsson þegar hún var á Íslandi í sumar, en það fer í taugarnar á henni að bækurnar hennar séu víða flokkaðar sem skvísubækur. Hún sagði að sér fyndist margar skáldsögur eftir sjálfa sig og aðrar skrifandi konur, sem flokkaðar eru sem skvísubækur af útgefendum og lesendum, bara vera skáldsögur á borð við t.d. þær sem Nick Hornby skrifar, og hélt því fram að þetta væri ein leið til að setja skáldsagnaskrifandi konur út á jaðarinn. Mér finnst þetta áhugaverðar vangaveltur, en nú er jafnvel farið að kalla ákveðnar bækur eftir karlmenn chick-lit. Hafa lesendur Druslubóka og doðranta skoðun á málinu?

14 ummæli:

  1. Ég er alveg sátt við chick-lit-hugtakið sem slíkt og finnst það afmarkað fyrirbæri þótt ég hafi ekki pottþétta skilgreiningu á hraðbergi. Það sem kemur fyrst upp í hugann er kannski eitthvað á þessa leið: Bók í léttum dúr um "raunir" (ungrar) konu. (Gæsalappirnar eru merkingarbærar.) Og mér finnst bækur eftir karla alveg geta verið chick-lit.

    Gallarnir í tengslum við chick-lit finnst mér aðallega vera tvíþættir:

    1) Of rík tilhneiging til að fella bækur eftir og um konur undir hugtakið sem eiga ekki heima þar, t.d. "alvarlegri" sögur. Það er ekki þar með sagt að mér finnist chick-lit ekki geta fjallað um ýmislegt alvarlegt en ákveðinn léttleiki í stíl og efnistökum held ég að sé grunnforsenda.

    2) Almenn forheimskunartilhneiging sem kemur m.a. fram í því að of mikið drasl er gefið út undir þessum formerkjum og í asnalegum umbúðum (bleikar glimmerkápur með kokteilglösum og háum hælum eða álíka).

    Einhvers staðar á ég annars fræðibók um chick-lit sem mig minnir að sé fín, ég ætti kannski að fara að rifja hana upp.

    SvaraEyða
  2. Málið er kannski að fólk er búið að brenna sig, það hefur talið sig vera að kaupa eitthvert léttmeti um unga konu - svona Bridget Jones dæmi - en hefur fengið eitthvað allt annað. Markaðssetningaröflin eru líklega að klikka, þau eru farin að misnota hugtakið því þessar chick-lit bækur hafa selst svo rosalega. Innan í glitrandi umbúðunum reynist eitthvað allt annað en búist var við.

    SvaraEyða
  3. góð skilgreining hjá þér Erna, ég er alveg sammála. Finnst sjálfri ekkert að því að ákveðin tegund bóka sé flokkuð sem "chick lit" en býst einmitt við einhverskonar óskilgreindum "léttleika" í stíl og efnistökum. Ég les svo tiltölulega lítið eftir karlmenn að ég get svosem ekki sagt hvort þeirra bækur geti flokkast sem chick lit, en finnst það ekkert ólíklegt.

    SvaraEyða
  4. Ég næ því ekki alveg: Hvert er málið? Að bækur séu markaðssettar sem chick-lit til þess að setja þær út á jaðarinn? En eru þær ekki einmitt markaðssettar sem chick-lit til þess að þær seljist í bílförmum? Ef það er á fölskum forsendum, er það þá ekki enn betra, þá les fólk alvarlegar bækur þótt það ætli sér það ekki? Væru ekki höfundar eins og Ingemarsson (ER hún ekki annars chick-lit höfundur?) í betri málum ef útgefendurnir segðust ætla að selja bækur hennar sem drumbsleg ljóðræn leiðindi til að ljá útgáfunni listæna vigt en setja púðrið í chick-lit? Ég bara spyr.

    SvaraEyða
  5. Tjahh, til dæmis er það óskrifuð regla margra "virðulegra" erlendra dagblaða að skrifa ekki gagnrýni um chick-lit og sömuleiðis fjalla bókmenntaþættir á norrænu sjónvarpsstöðvunum síður eða ekki um chick-lit. Ég held að höfundar pæli til dæmis í stimplinum þess vegna.
    Kajsa fellur ekki, eða amk illa, inn í skilgreininguna sem Erna er með, allavega ekki síðustu tvær bækur hennar.

    SvaraEyða
  6. En hugtakið Dick-lit var einu sinni fundið upp en það hefur ekki slegið í gegn: http://www.mobylives.com/Almond_lit.html

    SvaraEyða
  7. Það er líka dálítið mikil skammtímahugsun í því að markaðssetja bók á fölskum forsendum. Þótt viðkomandi bók seljist kannski betur en ella er spurning hvort þetta getur ekki skapað vandamál til lengri tíma litið.

    Það hlýtur að vera ansi mikil hætta á því að fólk sem kaupir bókina verði óánægt því hún var ekki í samræmi við væntingar (þótt það hefði kannski alveg verið sátt við að lesa sömu bók undir öðrum formerkjum) og kaupi þess vegna ekki næstu bók eftir höfundinn.

    Og jafnframt hlýtur að vera hætt á því að fólk sem hefði haft áhuga á bókinni láti hana framhjá sér fara út af þessum villandi skilaboðum.

    SvaraEyða
  8. Slæm ímynd bókmenntagreinarinnar, sbr. þetta sem Þórdís nefnir um að t.d. ýmis virðuleg blöð skrifi ekki um chick-lit tengist síðan að einhverju leyti öllu draslinu sem er mokað út undir þessum formerkjum og ég minntist á áður. En það hefur samt kannski ennþá meira með kvenna-tenginguna í greininni að gera. Er t.d. líklegt að "virðulegur" fjölmiðill blað ákvæði t.d. að fjalla alls ekki um sögulegar skáldsögur af því að það er til hellingur af lélegum sögulegum skáldsögum?

    SvaraEyða
  9. Dick-lit, það er ágætt. Chick-litt, unglingabækur, barnabækur, þetta fæðist allt um svipað leyti og forskeytið, sem sé unglingar, börn, skvísur. Þannig að fyrst þarf að fæðast manngerðin/þjóðfélagshópurinn dick áður en bókmenntagreinin verður vinsæl?

    Er ekki Gillz annars dick-lit höfudur?

    Um sniðgöngu chick-litsins veit ég ekki alveg. Ljóðabók með chick-lit kápu eða bara rokkplötukápu hefði sennilega meiri möguleika á umfjöllun virðulegra fjölmiðla en ljóðabók með ljóðabókarkápu, eða er það ekki?

    Ég held að þarna þurfi ekki að vera nein skammtímahugsun nema hugsunin miðist bara við markaðslega hagsmuni batterísins sem kynnir bækur og vill viðhalda stöðugu kredibilíteti. Öll önnur hugsun segir að með villandi skilaboðum sé mögulegt að ná eyrum lesenda sem aldrei hefði náðst til ella. Að fyrir höfunda sé langbest að villa sem allra mest á sér heimildir og hafa helst ósamræmi við væntingar fremur en að miða við heim í öruggum hólfum.

    Á þeim forsendum tek ég reyndar algerlega undir það að chick-lit stimpillinn er, eins og aðrir, slæmur sem viðvarandi merkimiði þeim sem vilja heiminn sem frjálsastan undan hólfunum.

    SvaraEyða
  10. Það sem mér finnst eiginlega verst við chick-lit stimpilinn er að með honum eru forlög að útiloka helming mögulegra lesenda fyrirfram. Því fæstir karlar myndu láta sjá til sín með bók sem er beinlínis yfirlýst að sé ætluð konum (enda gömul saga og ný að það sé fyrir neðan virðingu karla að neyta kvennamenningar). Og svo er annað sem mér finnst merkilegt, og það er þessi stytting "lit." sem má túlka sem einhverskonar minnkunarendingu. Einsog þetta séu verk sem eigi ekki skilið orðið literature, heldur eitthvað minna.

    Og Marian Keyes (sem mér finnst notabene æði) er sko aldeilis ekki ánægð með stimpilinn, þó ég held hún sé búin að sætta sig við hann. En hún hefur annars legið í djúpu þunglyndi síðasta eitt og hálfa árið og hefur ekkert skrifað, sem er kannski ástæðan fyrir því að sölutölur hennar hafa hrapað.

    SvaraEyða
  11. Já, Marian Keyes er fín. Ég las einu sinni sex bækur eftir hana í einni lotu. Æ, hvað það er slæmt að heyra að hún sé í svartnættisþoku.

    SvaraEyða
  12. Má ég ekki bara taka þennan chick-lit stimpil að mér gegn vægu gjaldi? Ég neyti kvennamenningar mér til óbóta, fíla Tobbu Marinós, er alltaf í svartnættisþoku og myndi fíla ágætlega að þurfa að kveinka mér undan að vera ekki tekinn alvarlega fyrir metsölustimpla sakir. Er það díll?

    SvaraEyða
  13. Miðað við þessa skilgreiningu á dick lit (í grein Steve Almond): "a male narrator explores his feelings about his romantic life"

    þá gætu menn eins og Murakami og Gyrðir fallið þokkalega vel þar undir, a.m.k. í sumum tilvikum.

    SvaraEyða