Upp á síðkastið hef ég verið að glugga í doðrantinn The Harvill Book of Twentieth-Century Poetry in English, sem kom út 1999 og hefur að geyma úrval ljóða eftir rúmlega hundrað skáld.
Adrienne Rich í góðu geimi |
Svona safnbækur einkennast auðvitað gjarnan af persónulegum smekk/menningarpólitískri stefnu ritstjóra eða hinni viðteknu kanónu, sem rýrir ekki gildi þeirra en er betra að vera meðvitaður um. Ritstjóri þessa rits er fyrrum kennari minn við Glasgow-háskóla, Michael Schmidt, sem einmitt var svo sniðugur að setja bókina á leslista ljóðanámskeiðs sem ég sat hjá honum. Honum hefur reyndar tekist nokkuð vel upp. Michael er sjálfur yfirlýstur módernisti en valið í bókinni er fremur fjölbreytt og virðist vera ágætisspegill á meginstrauminn í enskumælandi ljóðlist á síðustu öld. Vissulega fá hans eftirlætisskáld stórt pláss í bókinni (William Carlos Williams, Ezra Pound og John Ashbery eru hér framarlega í flokki) og formálinn fjallar að miklu leyti um módernistana, en hér kennir fleiri grasa. Þetta er engin jaðarbók - skáldin sem Michael Schmidt hefur valið eru (mis)þekkt nöfn - en fínasta yfirlit. Ég var ekkert sérlega vel lesin í breskri + bandarískri ljóðlist áður en ég flutti til Glasgow (las auðvitað e.e. cummings spjaldanna á milli á menntaskólaárunum, eins og djúpt þenkandi MH-stúlku sæmir ...) og kann þess vegna vel að meta svona yfirlit.
Ljóðelskur mávur í Bath |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli