21. október 2011

Á nostalgíutrippi með góðmenninu

Einusinni vann ég með skóla á kaffihúsi í Kringlunni. Þetta var bara einn vetur og það var líklega eftir jóla„fríið“ sem ég ákvað að ein jól um borð í verslanamiðstöð væru meira en nóg. Mér dettur þetta í hug núna vegna þess að þótt jólin séu rúma tvo mánuði framundan er bara rúm vika eftir af október, sem þýðir m.a. tvennt – að jólaskraut fær brátt að blómstra á almannafæri, og að jólabækur eru byrjaðar að flæða inní verslanir.


Ein af nýútkomnum bókum frá Bjarti er Síðasta góðmennið (Den sidste gode mand), dönsk glæpasaga eftir A.J. Kazinski, sem aftur er sameiginlegt höfundanafn Anders Rønnow Klarlund og Jacob Weinreich, en þetta er fyrsta verk þeirra saman. Lögreglumaðurinn Niels Bentzon flækist í dularfullt morðmál sem teygir anga sína um allan hnöttinn – sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að sjálfur þjáist Niels af ferðafælni og fer helst ekki langt út fyrir borgarmörk Kaupmannahafnar. Frásögnin flakkar þó milli staða, en er að mestu bundin við Kaupmannahöfn. Götuheiti og önnur kennileiti borgarinnar eru fyrirferðarmikil í textanum og sem gömlum Köbenista fannst mér notalegt að kíkja á gamlar slóðir, fékk einkar ljúft nostalgíutripp út úr lestrinum.
 
Morðmálið er hið mystískasta og goðsögn úr Talmúd, helgiriti Gyðinga, reynist miðlæg í leitinni að úrlausn. Goðsögnin leiðir Niels eftir krókaleiðum til stjarneðlisfræðingsins Hönnuh Lund, sem fylgir honum áfram við rannsókn málsins og að sjálfsögðu beint í allskonar háskalegar aðstæður sem neyða þau bæði til að horfast í augu við eigin sálarflækjur og takmarkanir og aðra persónudramatík. Niels og Hannah eru annars dagfarsprúð og hinar viðkunnanlegustu aðalpersónur. Sagan er spennandi og ágætlega skrifuð og heldur dampi allar næstum 500 blaðsíðurnar.

Þessir voru ekki á loftslagsráðstefnunni.
Sögulega samhengið er síðan það að atburðirnir eiga sér stað í desember 2009, á sama tíma og loftslagsráðstefnan fór fram í Kaupmannahöfn. Það fór nett í taugarnar á mér hvernig fólki sem mætt var til að mótmæla var lýst, þótt í framhjáhlaupi væri – lesandinn fær þá mynd af aðstæðum að allir mótmælendur hafi verið meira og minna vitfirrtir, í skásta falli uppdópaðir og ekki sér meðvitaðir um margt yfirhöfuð. Þetta er náttúrlega séð með augum lögreglumanns, þó var Niels ekki á vakt á ráðstefnunni og mér fundust svona sleggjudómar jafnvel dulítið úr hans karakter. En kannski átti firrtur lýðurinn bara að vera í stíl við almennt heimsósómamótív sögunnar – hryðjuverkaógnir á Vesturlöndum, fótumtroðin mannréttindi víðast hvar annars staðar og loftslagskreppu yfir öllu saman: helsta sögusvið næst á eftir Kaupmannahöfn eru einmitt hinar sökkvandi Feneyjar.

Allt í allt er þetta fínasta saga og vel hægt að mæla með henni fyrir unnendur vitrænna glæpasagna. Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er með ágætum, en fjöldi innsláttarvillna (þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær/þrjár/fjórar/fimm) er nokkuð sem fer alltaf í taugarnar á mér – þær eru svo mikill óþarfi!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli