6. október 2011

Vonir, væntingar og Nóbelsverðlaunin

Í dag klukkan 13 mátti heyra gleðióp óma yfir allri Svíþjóð. Ástæðan: sænska ljóðskáldið Tomas Tranströmer fékk loksins bókmenntaverðlaun Nóbels. Sjálf sat ég á undirkjólnum við eldhúsborðið heima hjá mér í sænskum smábæ og tók þótt í ópinu. Ég var ekki svona glöð af því að ég hafi lesið kynstrin öll eftir Tranströmer og vonað að hann fengi verðlaunin árum saman. Nei, ég var kannski fyrst og fremst glöð af því að ég hef lesið kynstrin öll af ummælum annars fólks sem hefur vonað árum saman. Eftir fimm ára búsetu í Svíþjóð hefur það orðið mér ljóst að sænsku þjóðina dreymir um tvennt, heimsmeistaratitli í fótbolta (dream on!) og Nóbelsverðlaun handa Tranströmer. Í nokkra októberdaga á hverju ári eru fjölmiðlar fullir af vangaveltum um hver hljóti verðlaunin. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum er leiddur fram og allir beðnir að gefa sitt álit, hvaða höfund þeir telji líklegastan og nafn hvers þeir vilji sjálfir helst heyra nefnt þegar ritari sænsku akademíunnar stígur inn í Börssalen fullan af fréttamönnum og tilkynnir ákvörðun hennar. Og ævinlega hefur nafn Tranströmers bergmálað í viðtölum, greinum og veðbönkum.  Ár hvert, daginn sem verðlaunin eru tilkynnt, ku stigagangurinn í fjölbýlishúsinu sem Tranströmer býr í á Södermalm í Stokkhómi líka fyllast af vongóðum blaðamönnum. Þar laumast þeir hljóðlega upp tröppurnar skömmu fyrir klukkan eitt og standa svo í hóp fyrir framan dyrnar að íbúð hans í von um að ef Tranströmer fái verðlaunin þá nái þeir fyrsta viðtalinu, fyrstu myndinni af nýjasta nóbelsverðlaunahafa Svía. Og nokkrar mínútur yfir eitt hafa þeir svo hingað til neyðst til að laumast lúpulega til baka, blómvöndurinn eins og lafandi skott milli fótanna á þeim.


Já, það sem menn hafa vonað og beðið, beðið og vonað – en líka fyllst vonleysi. Eftir því sem árin hafa liðið hafa sífellt fleiri spekingar hnýtt hvers kyns „... en það verður aldrei“ eða „... en maður er hættur að leyfa sér að vona“ aftan við nafn Tomasar Tranströmers. Meira að segja forleggjari hans, Eva Bonnier, sagði í viðtali við Dagens Nyheter í dag að hún væri löngu búin að gefast upp. Og eftir spennufallið í dag játaði stjórnandi bókmenntaþáttarins Babels, Daniel Sjölin, að þegar heill þáttur hafi verið tileinkaður Tranströmer í vor í kringum áttræðisafmæli hans hafi það meðal annars verið vegna þess að fólk hafi gjörsamlega verið búið að missa vonina um að það væri nokkurn tímann tilefni til að gera slíkan þátt í tengslum við Nóbelsverðlaunin. Það var meira að segja haft eftir eiginkonu skáldsins, Monicu Tranströmer, að í dag þegar þau hjónin hafi snætt hádegisverðinn án þess að síminn hafi hringt hafi hún hugsað: „Fínt, það verður þá ekki heldur í ár.“ Sagan segir nefnilega að ef síminn hafi ekki hringt hjá vongóðum rithöfundum klukkan 12:30 þennan dag, þá sé allt fyrir bí - það árið að minnsta kosti. Í dag hringdi Peter Englund, ritari sænsku akademíunnar, hið örlagaríka símtal hins vegar ekki fyrr en örfáar mínútur í eitt (væntanlega til að fréttin læki síður út). Þau urðu því heldur en ekki hissa hjónin – og blaðamennirnir á stigapallinum (12 stykki stóðu víst þar í ár) fengu loksins tækifæri til að svipta fram blómvöndunum og hrópa húrra!

Ástæðuna fyrir hve vondaufir Svíar hafa verið um að þessi dagur rynni nokkurn tímann upp má að mestu rekja til ársins 1974 þegar sænsku rithöfundarnir Harry Martinson og Eyvind Johnson hlutu verðlaunin. Sjaldan, ef nokkurn tímann, hefur ríkt jafnmikil óánægja með valið á verðlaunahafa og þá, sérstaklega þar sem báðir höfundarnir áttu á þessum tíma sjálfir sæti í sænsku akademíunni og valið hafði því tæpast farið fram á hlutlausan hátt. Allar götur síðan hefur það þótt nánast óhugsandi að veita Svía verðlaunin aftur. Ekki er þó líklegt að margar óánægjuraddir heyrist yfir valinu á Tranströmer, hann er víðlesinn, vinsæll og virtur um allan heim, þýddur á nálega sextíu tungumál. Það var líka upplýst í dag að hann hefur verið tilnefndur á hverju ári frá 1993.

Sjálfsagt eru aðrir betur til þess fallnir að fjalla um verk Tomasar Tranströmers en undirrituð. En fróðleiksfúsir lesendur Druslubóka og doðranta skulu þó upplýstir um að hann er fæddur árið 1931, menntaður sálfræðingur og starfaði sem slíkur í áratugi. Fyrsta ljóðabókin hans, 17 dikter, kom út árið 1954 þannig að hann byrjaði að yrkja tiltölulega ungur. Í dag eru ljóðabækurnar orðnar um tuttugu auk sjálfsævisögulegu prósabókarinnar Minnena ser mig. Árið 1990 fékk Tranströmer heilablóðfall og hefur verið lamaður í hægri hluta líkamans síðan og á mjög erfitt með tal. Hann hefur skrifað mun minna síðan þá og ort styttri texta, aðallega hækur. Kveðskapur hans er gjarnan sagður hversdagslegur en jafnframt dularfullur og með vissum dráttum náttúrulýríkur. Helsta einkenni hans er þó þétt og lýsandi myndmál sem „veitir okkur nýjan aðgang að veruleikanum,“ eins og segir í rökstuðningi akademíunnar í dag.

Sjálf hef ég ekki lesið nógu mikið af kveðskap Tranströmers til að geta sagt nokkuð um hann frá eigin brjósti. Ég hef hins vegar þuklað ljóðasafnið hans í bókabúðum frá því snemma í vor þegar það kom út, strokið kjölinn sem glampar bæði ljósblár og lillablár eftir hvernig ljósið fellur á hann, rétt eins og skeljar skordýranna sem skáldið safnaði sem barn. Ég hef oft verið komin með bókina hálfa leið á kassann en alltaf verið of nísk á endanum. En núna, núna held ég svei mér þá að ég sé komin með nógu góða ástæðu til að láta ljóðabók ganga fyrir kaupum á pollagöllum og pennaveskjum! Til hamingju ljóðaunnendur, til hamingju Svíar og til hamingju Tomas Tranströmer!

2 ummæli:

  1. Á Mogganum þótti alltaf mjög mikilvægt að finna "mann á staðnum" þegar eitthvað markvert gerðist í útlöndum. Oftast hafði Íslendingurinn litlu við fréttaskeytin frá AP og Reuters að bæta, en þessi pistill finnst mér dæmi um hvað það getur verið mikið grundvallarmál að hafa "mann á staðnum." :)

    Takk fyrir þessa skemmtilegu lýsingu!

    SvaraEyða
  2. Ég hef aðeins verið að kíkja í Tranströmer (eins og sést á nýjast bloggpistli mínum) og er sæmilega hrifinn af því sem ég hef lesið.

    Finnst líka eitthvað skemmtilegt við það að óþekkt sænskt ljóðskáld vinni, en ekki þekktur bandarískur skáldsaganhöfundur.

    SvaraEyða