4. nóvember 2011

Af bókamessu í Helsinki. Bækur, fudge og fleiri bækur

Sofi Oksanen talar við Rosu Liksom.

Það mætti gríðarmargt segja af tveimur dögum á bókamessunni í Helsinki og ekki bara um bækur, því einnig stóðu yfir matar-, vín- og tónlistarmessur í húsinu. Svæðin voru ekki skýrt afmörkuð svo við röltum mis-markvisst á milli, skoðuðum bása og skoðuðum fólk, sem bókstaflega leit mismunandi út eftir svæðum – hinn almenni vínmessugestur reyndist t.d. allt öðruvísi klæddur og stemmdur á að líta en fólkið sem hélt sig bókamegin. Á matarsvæðinu voru haugar af osti og fjöll úr nammi, m.a. bás með bresku fudge-i í þúsund litum og brögðum (og ég svo upptekin við át með augunum að ég tók ekki einusinni mynd!). Mest vorum við á bókasvæðinu, þar sem viðtöl og pallborðsumræður og kynningar fóru fram á sviðum og bókabúðir og forlög voru með útstillingar. Eistland var þemaland messunnar í ár, en einhvernveginn tókst mér þó að missa alfarið af öllum Eistlandstengdu viðburðunum. Í ár er einnig 100 ára afmæli teiknimyndasögunnar í Finnlandi (hvernig sem það er annars reiknað), svo fullt af myndasögutengdu efni var í boði og sáum við slatta af því. Á barnasvæðinu var rosa fínn bókabíll og á fullorðinssvæðinu svignaði stórt borð undan þýddum Paulo Coelho á niðursettu verði. Svo eitthvað sé nefnt.


Dagskrá föstudagsins hófst hálfellefu. Það var ekkert sem mig langaði sérstaklega að sjá fyrir klukkan eitt, en þar sem ég var mætt á svæðið (sem bæðevei var alls ekki eins sjoppulegt og myndin til vinstri gefur til kynna, myndavélin var bara ekki nógu stór) klukkan hálftólf byrjaði ég á að kíkja á eitthvað sem ég vissi ekkert um. Írlandsblætið réði því að viðtal á stærsta sviðinu, við Lornu nokkra Byrne, varð fyrir valinu. Hún hefur skrifað tvær bækur, Angels in my hair (2008) og Stairways to heaven (2011), sem báðar hafa selst í bílförmum á mýmörgum tungumálum. Á eigin heimasíðu er hún titluð „mystic“. Eins og hún upplýsti áheyrendur um (og þetta er víst inntakið í bókunum að meira eða minna leyti) þá hafa allar manneskjur verndarengla sem fylgja þeim um allt – við getum bara ekki öll séð þá eða heyrt... Hún sagðist sjálf stundum ekki skilja hvernig væri pláss fyrir allt þetta aukreitis lið (viðstaddir voru 2-300 áheyrendur á þéttsetnum bekkjum), en það væri það nú samt. Svo lýsti hún englum sem hún sæi vera að strá konfettíi yfir einhvern myndarlegan ungan mann í áhorfendaskaranum, sem þýddi vísast að hann myndi ganga í hjónaband á næstunni. Nú finnst mér hið besta mál að fólk gefi út bækur og haldi fyrirlestra um hvað sem það vill, þótt mér kunni sem leiðinda efasemdasegg að finnast það kjánalegt og skitsó. Það sem hinsvegar fór í taugarnar á mér (og er reyndar ef til vill óaðskiljanlegt frá megininntakinu) var a) trúarhrokaframsetning (skiptir ekki máli hverrar trúar fólk er, ÖLLUM er úthlutað englum á Himnum sem fylgja þeim út í jarðlífið og aftur „heim“ til himna að því loknu), b) trúarhroki settur fram sem auðmýkt og lítillæti („fólk skrifar mér unnvörpum þakkarbréf og segir bækurnar mínar hafa breytt lífi sínu, en það er ekki mér að þakka, ég hef bara gert það sem Mikael erkiengill í eigin persónu valdi mig til að gera...“) og c) upphafning dauðans (þ.e. himnafarar) sem slíkrar yfirnáttúrulegrar sælu að aumt jarðlífið blikni í samanburði.
Lorna Byrne sér englana okkar allra.
En annars virtist þetta viðkunnanlegasta kona, og ofantalið jafnvel skiljanlegt í ljósi þess, sem einnig kom fram, að erkiengillinn stakk víst upp á því við hana að skrifa um englasýnirnar í framhaldi af því að hún missti manninn sinn fyrir aldur fram. Í það minnsta virðast bækurnar hafa haft þerapískt gildi fyrir hana og aðra. Ég er pínu forvitin að lesa og vita hvort þær séu algjört drasl eða ekki og hvort þær geti haft einhver áhrif á vantrúarhrokann í mér, efast samt um að ég muni nenna því.


Fyrst á minni ætluðu dagskrá var síðan viðtal Sofi Oksanen við aðra finnska skáldkonu, Rosu Liksom. Liksom hefur skrifað helling af bókum og ég hef ekkert af því lesið, en hef einhversstaðar fengið þá hugmynd að hún sé góð og ég ætti að lesa hana – og er eiginlega staðráðin í að lesa hana eftir þetta viðtal. Það snerist aðallega um nýju bókina hennar, sem henni sjálfri finnst vera sín besta – reyndar með þeim fyrirvara að hún teldi preferens fyrir nýjustu bók almennt mjög dæmigerðan meðal rithöfunda.
Rosa og Sofi
Sú nýja heitir Hytti nro 6 eða Klefi nr. 6, gerist um borð í Síberíuhraðlestinni og fjallar um samskipti tvítugrar konu og eldri karlpersónu – sem reyndar er bara 45, en eins og Liksom benti á þótti það næsta hár aldur fyrir karlmann í Sovétríkjunum. Titill bókarinnar vísar í Sjúkrastofu nr. 6 eftir Tsjekhov en Liksom sagði vísun í rússneska bókmenntahefð einnig búa í textanum sjálfum, eða taktinum og stílnum, sem hún líkti við gang lestar. Oksanen vildi meina að bókin væri „músíkölsk“ að byggingu, hefði ákveðinn ryþma sem kæmi m.a. fram í endurteknum stefum. Ég get eiginlega alls ekki lýst því almennilega hér hvað þetta var skemmtilegt viðtal og hvernig það gerði mig að aðdáanda þessa höfundar sem ég hef enn ekki lesið. Hún er bara svo skemmtileg og sniðug og lýsir bókunum sínum þannig að manni finnst þær hljóta að vera afskaplega áhugaverðar, án þess að koma til hugar að hún sé neitt óþarflega ánægð með sjálfa sig. Hún málar líka málverk og teiknar teiknimyndasögur, sem má skoða sýnishorn af á heimasíðunni hennar – þar er meira að segja aukaefni fyrir Hytti nro 6, bæði texti og teiknaðar myndir! Skemmtilegt skemmtilegt.

Á milli viðtalanna við írsku engladömuna og finnska lestartöffarann sá ég viðtal við finnskar mæðgur sem skrifuðu saman glæpasögu og á eftir þessum þremur viðtölum var Svíinn Jens Lapidus, sem talaði um sínar glæpasögur. Daginn eftir sá ég Don Rosa tala um Andabæ, Hugleik um barnalík og Kirsi Kunnas um skáldskap fyrir börn og eyddi óvart 10 evrum í þrjá mola af bresku fudge-i. Segi kannski betur frá því síðar.

3 ummæli:

  1. Ég vil endilega heyra hvað Don Rosa sagði um Andabæ!

    -Kristín Svava

    SvaraEyða
  2. Vá, ég er líka gífurlega spennt að heyra um Don Rosa! Ein af hetjum barnæsku minnar. Andabær rúlar.

    Einn af kennurunum mínum skrifaði einu sinni bók um Andrés Önd og kapítalisma. Ég held mikið upp á manninn en gat bara ekki hugsað mér að lesa bókina og láta eyðileggja fyrir mér Andabæ. Nógu er nú þunglyndislegt að vera bitur marxisti.

    SvaraEyða
  3. Úpps, ég ruglaðist, það var ekki kennarinn minn heldur Ariel Dorfman leikskáld sem skrifaði bókina - ég vann sko verk eftir hann með viðkomandi kennara.

    Hér er hún: http://en.wikipedia.org/wiki/How_to_Read_Donald_Duck

    SvaraEyða