27. nóvember 2011

Karfar, geddur, álar og annað fínerí


Kápumynd: Ohno Bakufu
Hönnun: Aðalsteinn S. Sigfússon
(þetta finnst mér ein besta kápa jólabókaflóðsins)


Eitt forvitnilegasta þýdda skáldverkið sem kom út í ár er klárlega Hvernig ég kynntist fiskunum eftir tékkneska höfundinn Ota Pavel. Gyrðir Elíasson þýðir, en þegar ég renndi yfir lista yfir þýðingar Gyrðis á kápuflipa var ekki laust við að ég fyndi til öfundar í garð þessa mæta höfundar og þýðanda - hann hefur sannarlega fengið að þýða góðar bækur í gegnum tíðina. Oft eru þær líka dálítið Gyrðislegar, þótt það hugtak sé ekki auðvelt að útskýra í stuttu máli en það felur í sér lýrík, knappan texta og einhvern sérstakan undirtón sem ég kann afskaplega vel að meta.

Ota Pavel
Ota Pavel fæddist í Prag árið 1930, ólst upp í Kladnohéraði í ríkinu sem þá hét Tékkóslóvakía og starfaði sem íþróttafréttaritari um árabil, eða allt þar til hann rétt upp úr þrítugu brotnaði saman andlega og var greindur með geðhvarfasýki. Í kjölfarið fylgdu ótal sjúkrahúsinnlagnir og nokkurn veginn samfelld andleg veikindi þrátt fyrir að Pavel næði að sinna ritstörfum þegar skárst stóð á. Pavel lést loks árið 1973 og féll ef til vill fyrir eigin hendi.

Hvernig ég kynntist fiskunum er einhvers konar sjálfsævisöguleg skáldsaga; hún byggist á raunverulegum atburðum, persónum og upplifun höfundarins, þá sérstaklega af föður hans, en sagan er sögð með skáldskaparleyfið og ljóðrænuna að vopni. Í brennipunkti er faðirinn Leó Popper, ástríðuveiðimaður og sölufulltrúi hjá sænska raftækjaframleiðandanum Elektrolux, sem slegið hefur hvert sölumetið á fætur öðru og jafnvel prangað ísskáp inn á sjálfan forsætisráðherrann. Popper er litríkur persónuleiki; ógurlega breyskur og ekki alltaf með báða fætur á jörðinni, stórhuga, þrjóskur og trúr eigin sannfæringu.

Íslendingar kunna líka að meta karfa
Eins og titillinn bendir til eru fiskar og veiðimennska eitt af meginstefjum bókarinnar. Fiskveiðar eru sameiningartákn og eins konar manndómsvígsla, eða ef til vill vígsla inn í heim fullorðinna karlmanna, því sambönd karlmanna - feðga, bræðra, félaga, undir- og yfirmanna, keppinauta - eru rauður þráður í gegnum bókina alla. Vatnið og fiskarnir eru bakgrunnurinn sem sagan er máluð á og eins konar steinar sem stiklað er á gegnum þau æviár sem sagt er frá. Í upphafi fylgjumst við með því þegar Ota lærir að veiða hjá fjölskylduvininum Karel Prosek, ferjumanni sem fjölskyldan dvelst hjá á sumrin. Bókinni er skipt upp í nokkra kafla sem hver og einn gæti í raun staðið sem sjálfstæð saga. Það tók mig þónokkrar blaðsíður að ná almennilegu sambandi við textann; bókin hefst á nokkrum köflum sem fjalla mikið um glímuna við fiskana og samband sögumanns, Leós og Proseks við veiðimennskuna. Frásögnin náði ekki sterkum tökum á mér, þrátt fyrir myndrænar og sterkar lýsingar (agn sem er fyrst hvítur seglbátur og stingur svo upp endanum eins og önd í hálfu kafi fannst mér t.d. skemmtileg mynd). Það var hins vegar í fimmta kaflanum sem textinn virkilega greip mig, en sá nefnist "Hvernig við pabbi bjuggum álunum veislu" og fjallar um fífldjarfan leiðangur þeirra feðganna þegar faðirinn ákveður að þeir skuli beita fyrir ál á nýstárlegan hátt og uppskera ársskammt af fiski. Þar sem drengurinn stendur dauðskelfdur úti í ánni og berst fyrir lífi sínu bregður höfundurinn bæði upp mynd af hinum ófyrirsjáanlega krafti náttúrunnar sem og sambandi feðganna og ákveðnum hugmyndum um karlmennsku og manndómsvígslu - drengurinn getur ekki neitað föður sínum þegar hann er rekinn út í ána, en faðirinn hverfur honum sjónum enda sjálfur öruggur uppi á árbakkanum.
Tékknesk kápa bókarinnar

Eftir þetta sporðrenndi ég bókinni á tveimur kvöldum og hafði gaman af. Þrátt fyrir að bókin sé stutt (aðeins um 170 síður) segir hún frá jafnfjölbreytilegum atburðum og handtöku eldri bræðranna sem sendir eru í fangabúðir í stríðinu, klifri Leó Poppers upp metorðastigann í raftækjageiranum, óprúttnum tjarnareiganda og kynnum Poppers af rómuðu listmálara. Alltaf eru fiskarnir og vatnið nærri; Pavel segir stóra sögu innan afmarkaðs ramma og fyrir vikið fá atburðir meira vægi, verða táknrænir í stærra samhengi. Lýsingin á föðurnum er ljúfsár - á stundum drepfyndin en á tragíkómískan hátt. Þrátt fyrir alla hans bresti öðlast hann samúð lesandans og í hvert sinn sem lífið kippir honum niður á jörðina fær maður sársaukasting.

Eins og allir vita eru til ógrynnin öll af bókum, kvikmyndum, leikverkum, tónverkum o.s.frv. sem fjalla um heimsstyrjöldina síðari, eiginlega svo mikið að maður er næstum orðinn leiður á slíku. Að hluta til helgast það af því hversu einsleit og jafnvel einfeldningsleg slík verk geta verið (tilfinningaklám og takmörkuð söguskoðun) en það er auðvitað ömurlegt að vera orðinn dofinn gagnvart hörmulegu stríði sem olli dauða, þjáningum og alls kyns ömurleika. Hvernig ég kynntist fiskunum náði hins vegar í gegnum seinni heimsstyrjaldarskrápinn hjá mér. Það er eitthvað við það hversu absúrd stríðið er, hversu óréttlátt inngrip það er í hversdagslíf ósköp venjulegs fólks, sem sló mig við lesturinn. Svosem ekki í fyrsta sinn, en ég átti virkilega erfitt með að melta það í þetta sinn. Valdníðslan er svo viðbjóðsleg og þetta er svo fáránlegt og tilgangslaust allt saman. Fyrir nokkrum blaðsíðum var Leó Popper að selja ryksugur og drengirnir að veiða með Prosek frænda, nú eru allt í einu "(f)lestir í fjölskyldu okkar ... þegar í fangabúðum. Eða dánir. Malvína amma mín, sem hafði skammað Ferdinand afa fyrir að spila á spil, endaði í gasklefunum í Auschwitz." (121) Svipuð heimsviðbjóðstilfinning og greip mig við lesturinn á bók Sigriðar Víðis Jónsdóttur, Ríkisfang: Ekkert; palestínsk fjölskylda í Írak fer í dýragarðinn og kaupir sér ís um helgar en svo einni blaðsíðu síðar er búið að skjóta manninn, sprengja upp hálft landið og kona og börn lögð á flótta út í eyðimörk. Þessi heimur, í alvöru talað ...

Í eftirmála lýsir Ota Pavel því hvers vegna hann kaus að segja söguna út frá fiskveiðum, tjörnum, ám og vötnum. Hann segir á hreinskilnislegan hátt frá geðrænum veikindum sínum og því hvernig hann reyndi að átta sig á því hvenær hann hefði upplifað mesta fegurð í lífinu: "Ég minntist þess þegar ég var á gangi meðfram lækjum, ám, tjörnum og stíflum til að veiða fisk. Ég gerði mér grein fyrir að þetta var það fegursta sem ég hafði upplifað á ævi minni." (170)

Þýðing Gyrðis er sallafín, tungumálið fallegt og fjölbreytt, og hið myndræna kemst vel til skila. Rödd sögumannsins er sannfærandi og góður heildarbragur á bókinni allri. Ég hef hins vegar klórað mér í hausnum yfir því síðustu daga hvers vegna hvergi sé tekið fram úr hvaða máli er þýtt. Nú hef ég ekki heyrt af því að Gyrðir kunni tékknesku (eða hvað veit ég?), heldur hefur hann að því að mér er kunnugt þýtt úr ensku. Fremst í bókinni er hvorki tekinn fram titill bókarinnar á frummálinu (Jak jsem potkal ryby, ég gúgglaði) né þýðingarmálið. Ég rakst tvisvar eða þrisvar á fremur enskuskotna setningu og geri ráð fyrir því að þýtt sé úr ensku - leiðrétting óskast ef það er rangt - en mér finnst mikilvægt að það komi skýrt fram þegar ekki er þýtt úr frummáli. Það er engin skömm að því að þýða þýðingu, enda höfum við þessi 300.000 ekki þýðendur fyrir öll heimsins tungumál, en fyrir þá sem á annað borð hafa áhuga á þýðingum er það mikilvæg breyta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli