„Skáldskapur er að mínu viti ekki uppspuni, hvað þá lygar, skáldskapur er ofsafengin leit að sannleikanum.“ Þessa fallegu og skáldlegu setningu, sem er á bls. 13 í Bernskubók, eiga örugglega margir eftir að vitna í (svona eins og oft er vitnað í HKL þegar tilvitnana er þörf) þegar fram líða stundir. Í bókinni er líka talað um „vefnað minninganna“ og þar má líka lesa að eldhúsið sé hjarta hvers heimilis.
Í Bernskubók lýsir Sigurður Pálsson uppvextinum á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu, sem var prestsetur þar sem var einnig stundaður hefðbundinn landbúnaður. Þar var líka símstöð, skóli og félagsmiðstöð þar sem fjölskyldan, vinnufólk, kaupafólk og fjölbreyttur hópur gesta hafðist við. Þarna römmuðu fastir liðir tímann inn, bæði hvunndaga og helgidaga. Sigurður er fæddur um miðja síðustu öld en foreldrar hans voru rígfullorðnir, pabbinn fæddur fyrir þarsíðustu aldamót og mamman skömmu eftir þau, þau voru fólk af kynslóð sem er eldri en afi minn og amma. Fólkinu sínu, foreldrum, systkinum og þeim sem þau umgangast lýsir Sigurður alveg sérlega skemmtilega og líka öllu umhverfi og andrúmslofti bernskunnar. Og þetta er allt svo léttilega stílað og mikil stemning í textanum að ég las bókina í tveimur rykkjum.
Nú er ég auðvitað algjör sökker fyrir þjóðlegum fróðleik, ævisögum og allrahanda sveitastemningarbókum en þessi bók náði alveg að sameina það áhugamál áhuga mínum á að lesa blogg ókunnugs nútímafólks um daglegt líf (svoleiðis las ég daglega fyrir nokkrum árum en því miður hefur slíkur blogglestur nokkurnveginn horfið úr lífi mínu). Þó að Sigurður sé, í þessari bók, allur í fortíðinni er hann samt alltaf með annan fótinn í okkar tíma. Hann rykkir lesandanum reglulega inn í nútímann með skemmtilegum vendingum en svo er maður mínútu síðar komin inn í andrúmsloftið sem hann endurskapar í lýsingum á tíma barns í sveit fyrir norðan uppúr miðri síðustu öld, já og þess á milli er gert örstopp í allt öðrum tíma; „Kannski er lykt af geitum mín madeleine-kaka.“ (bls. 183).
Í Bernskubók rifjar Sigurður Pálsson upp ýmislegt sem hann man og líka ýmislegt sem hann man ekki. Þegar hann var fimm ára dó Stalín, hann man ekkert eftir því enda var ekki haldin minningarathöfn á Skinnastað og foreldrar hans höfðu enga trú á Stalín. Hann man heldur ekki alþingiskosningar sama ár þegar engin kona náði kjöri. En hann man eftir og lýsir ferð til Reykjavíkur þegar hann var sex ára og þurfti að gangast undir uppskurð hjá mönnum sem höfðu þýtt Ezra Pound og Stefan Zweig.
Þó að orðið „ofsafengið“ komi fyrir í tilvitnun hér að ofan þá finnst mér það hugtak ekki beint eiga við um Bernskubók. Það sem Sigurður man – og man ekki – er með því ljúfasta sem ég hef lengi lesið.
Ég var einmitt að lesa þessa bók og hafði ferlega gaman af henni. Ég var m.a. mjög hrifin af alls konar stuttum athugasemdum, t.d. um að það veitti börnum öryggiskennd að fullorðið fólk panikkeraði ekki að ástæðulausu, um hvað hringur væri svakalega stór o.fl. o.fl.
SvaraEyðaHann miðlar ákveðinni náttúru- og umhverfisskynjun líka ofsalega vel (þetta með hringinn var hluti af svoleiðis kafla). Ég væri alveg til í að lesa bókina aftur fljótlega.
Las um daginn (reyndar nokkrir mánuðir síðan) Minnisbók eftir Sigurð, þar sem hann minnist brot og brot frá Frakklandsárum sínum. Mér fannst bókin einmitt svo ljúf og lýsingarnar skemmtilegar og einfaldar. Verður gaman að lesa Bernskubók sem mér sýnist vera í svipuðum dúr.
SvaraEyðaÉg er ekki frá því að mér finnist Bernskubók betri.
SvaraEyðaÞórdís.
Þetta með geiturnar er náttúrulega alveg yndislegt.
SvaraEyða-Kristín Svava
Oh, hann Sigurður er bara svo mikið yndi. Mér fannst Minningabókin mjög skemmtileg. Ó, hvað ég hlakka til að lesa þessa bók. Parísardaman.
SvaraEyðaHann virkaði aðeins of blóðlaus og náttúrulaus í Minnisbók.
SvaraEyða