2. nóvember 2011

Tvær bækur eftir Audrey Niffenegger

Versta spurning sem ég fæ er „Hver er uppáhaldsbókin þín?“. Mér finnst hún vond afþví það er ekki séns í helvíti að ég geti valið bara eina, og líka afþví ég er ekkert endilega viss um að þær bækur sem mér finnast bestar séu endilega eitthvað mikið betri en aðrar bækur sem mér fundust bara skítsæmilegar.

Því ég held að þetta snúist nefnilega oft um það hvort maður lesi rétta bók á réttum tíma. Stundum er maður móttækilegur fyrir bók og stundum ekki, og ég veit t.d. að í mínu tilviki þá las ég fullt af bókum alltof ung og fannst þær glataðar, afþví ég skildi þær hreinlega ekki alveg, sem skemmir þær fyrir mér þó ég taki þær aftur upp síðar. Að sama skapi las ég fullt sem mér fannst alveg frábært þegar ég var 9 ára, sem stenst svo kannski ekki alveg kröfur mínar í dag.

En hvað um það. Þó ég reyni í lengstu lög að forðast að svara spurningum um uppáhaldsbækur þá eru það samt alltaf sömu bækurnar sem koma upp í hugann. Ein af þeim er The Time Traveler´s Wife eftir Audrey Niffenegger (eða Kona tímaflakkarans einsog hún heitir í íslenskri þýðingu).



Ég las hana fyrir fjórum árum, hún kom við hjartað í mér, og ég grenjaði svo mikið yfir henni að ég fékk ekka. Mamma hringdi í mig í miðjum klíðum og hún hélt að einhver hefði dáið eða eitthvað skelfilegt komið fyrir. Og þegar ég kláraði bókina var ég leið allt kvöldið afþví mér fannst einsog ég hefði misst eitthvað sjálf.

Ég veit að kannski finnst ekki öllum þetta vera meðmæli með bókinni, en stundum er gott að þykja vænt um eitthvað og grenja yfir því, þó það sé ekki til í alvörunni.

Ég var því eðlilega spennt þegar ég sá að Audrey Niffenegger var búin að gefa út nýja bók, Her Fearful Symmetry. Einsog glöggir lesendur taka eflaust eftir þá er titilinn vísun í ljóðið The Tyger eftir William Blake, en symmetry hljómar líka einsog orðið cemetery í enskum framburði, sem er ábyggilega ekki tilviljun, því bókin hverfist um Highgate Cemetery í London.

Hún fjallar um bandarísku tvíburasysturnar Juliu og Valentinu (sem eru speglaðir tvíburar, sem þýðir það að þær eru einsog spegilmynd hvor af annarri og önnur þeirra því með líffærin öll vitlausu megin) sem erfa íbúð í London eftir móðursystur sína Elspeth. Elspeth og mamma tvíburanna voru líka tvíburar en hafa ekki talast við í fjöldamörg ár. Þær fara til London, flytja inn í íbúðina (sem er við Highgate kirkjugarðinn) og kynnast smátt og smátt íbúum hússins, sem eru taugaveiklaður fyrrverandi elskhugi Elspeth og afar fóbískur, en indæll, nágranni á efri hæðinni.

En þó Elspeth sé dáin þá er hún samt ekki farin, heldur gengur aftur í íbúðinni sinni. Fyrst um sinn heldur hún sig í lítilli skúffu í skrifborðinu, en þegar hún venst nýjum aðstæðum þá fær hún meiri krafta og ákveður að reyna að ná sambandi við tvíburasysturnar. Það tekst og hefur ýmsar ófyrirséðar afleiðingar.

Stemningin í bókinni er svolítið morbid. Viktoríanskur kirkjugarður, ástsjúkur maður sem hefur misst elskhuga, tvíburasystur sem eiga í óþægilega nánu sambandi, draugar og fleira sem ég get eiginlega ekki talið upp án þess að segja of mikið frá söguþræðinum.

Mér fannst bókin góð. En ekki jafngóð og The Time Traveler´s Wife. Ég las í viðtali við Niffenegger að hún gerði í því að hafa bókina marglaga, svo þegar lesandi les hana aftur, þá uppgötvar hann eitthvað nýtt, eða aðra þræði sem hann tók ekki eftir við fyrsta lestur. En þessa dagana er ég óþægilega meðvituð um að tíminn er af skornum skammti og það er til alltof mikið af bókum í heiminum, svo ég les bækur sjaldan tvisvar. (Það er af sem áður var, þegar ég lúslas bækur aftur og aftur sem krakki).

Eða kannski var ég einfaldlega ekki nógu vel stemmd fyrir bókina þegar ég las hana.

1 ummæli:

  1. Mér finnst það ákveðin meðmæli ef þú hefur grenjað yfir bókinni - þá hefur sagan snert strengi í brjósti þér ;-) Er það ekki það sem við viljum þegar við lesum bækur?

    SvaraEyða