Halla virðist þroskast heilmikið á því að takast á við nýja hluti og hún fær nýja sýn bæði á sjálfa sig og heiminn í kringum sig. Hún verður víðsýnni og fer að hugsa meira sjálfstætt. Okkur fannst takast vel að sýna þetta þroskaferli. Sumir hafa haft orð á því að sögupersónurnar í bókinni, bæði Halla og margir aðrir krakkar, virtust óeðlilega þroskaðar miðað við að eiga að vera 13-14 ára. Það vill svo til að önnur okkar er einmitt sjálf 13 ára og tekur undir þessa gagnrýni. Það eru ýmis áhugamál sem krakkarnir í bókinni hafa eða hlutir sem þau velta fyrir sér sem 13 ára krakkar eru ekki mjög líklegir til að vera farnir að hugsa um, þótt það geti auðvitað alltaf verið til einstaka undantekningar. En svo má velta fyrir sér að hve miklu leyti þetta kemur að sök, það væri svo sem verra ef þau væru óvenju barnaleg. Sögupersónur, hvort sem er í bókum, kvikmyndum eða leikritum, þurfa jú að vera áhugaverðar og eru þá gjarnan klárari og sniðugri en meðaljóninn. Ýmislegt í söguþræðinum var líka ótrúverðugt, til dæmis hvernig kennarar komast upp með að leggja nemendur í einelti og hvernig Halla hegðar sér í sambandi við dópmálið. Eins er það ótrúverðugt, og frekar skoplegt, hversu mikil áhrif það að hafa fengið ljóð birt á mjólkurfernu virðist hafa á ímynd Höllu. Pabbar hennar eru óumræðilega stoltir af þessari ljóðabirtingu og einhvern veginn er það að vera mjólkurfernuskáld talið ósamrýmanlegt því að vera vandræðaunglingur.
Bókin er þegar á heildina er litið skemmtileg og við teljum óhætt að mæla með henni. Hún er á lipru og góðu máli sem rennur mjög eðlilega úr munnum 13 ára unglinga, laust við alla tilgerð. Hvorki er farið út í að rembast við að nota óþarfa slangur sem talið er dæmigert fyrir aldurshópinn (og getur stundum komið mjög afkáralega út í meðförum fullorðinna rithöfunda) né er málið stirt eða óeðlilega fullorðinslegt.
VÉDÍS MIST AGNADÓTTIR OG
Eruð þið með einhver dæmi um það sem 13 ára krakkar eru ekki mjög líklegir til að vera farnir að hugsa um?
SvaraEyðaÞau eru t.d. að spá í hitakærar örverur.
SvaraEyðaJá, t.d. hitakærar örverur og miðaldasaga og svo eru sum mjög pólitískt meðvituð. Þetta getur átt við einhverja krakka á þessum aldri en ekki svo marga. Reyndar var ég viljugri að samþykkja þessi áhugamál sögupersónanna en 13 ára dóttir mín.
SvaraEyðaÉg held að í mesta lagi tveir nemendur mínir í MH hafi verið jafn hugsandi og meðvitaðir og ákveðnar sögupersónur í þessari bók. :)
SvaraEyða